08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2532 í B-deild Alþingistíðinda. (4119)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Flm. (Ólafur Thors):

Það hefir nú þegar í mörg ár verið unnið að því að skipuleggja mjólkursöluna hér í Rvík. Má e. t. v. segja, að það starf hefjist með stofnun Mjólkurfélags Rvíkur 1917. Þegar það félag var stofnað, gengu inn í það flestir mjólkurframleiðendur hér í bænum og nágrenni hans. Fyrsti árangurinn af þeim samtökum var sá, að komið var á stofn hæfilega mörgum mjólkurbúðum í bænum. Ég segi hæfilega mörgum með það fyrir augum, að reynt var að hafa mjólkurbúðirnar eins margar og hentugt var fyrir almenning, án þess þó að þær yrðu of margar eða of miklu til þeirra kostað. Samtímis var reynt að tryggja það, að gæði mjólkurinnar yrðu önnur og meiri heldur en áður hafði verið. En það fór svo skömmu eftir að þessi þörfu samtök komust á, að á þau reyndi allmikið. Ástæðan til þess var m. a. sú, að brauðsölubúðir hér í bænum töldu sér hag í að hafa mjólkursölu ásamt brauðsölunni. Þær töldu, að ef þær hefðu mjólk á boðstólum ásamt brauðunum, þá mundi það auka brauðsöluna. Þær buðust þess vegna til að taka mjólk til útsölu fyrir minni sölulaun heldur en eðlilegt og sanngjarnt var. Það gátu þær með því að láta brauðsöluna halda uppi óeðlilega miklum hluta af rekstrarkostnaðinum. Af þessum sökum áttu mjólkurframleiðendur kost á ódýrari útsölu heldur en Mjólkurfélag Rvíkur gat boðið. Nokkru seinna fór einnig að hefjast sala mjólkur frá bændum austanfjalls hingað til Rvíkur. Var hún aðallega seld yfir sumartímann. Nýjar mjólkurbúðir voru opnaðar, sem seldu mjólk að austan yfir sumarið, en á veturna, þegar flutningar voru erfiðari, vantaði þær mjólk. Afleiðingin varð sú, að þessar búðir buðust til að selja mjólk fyrir framleiðendur í nágrenni Rvíkur að vetrinum fyrir lægra verð heldur en útsalan kostaði í raun og veru. Sáu þá ýmsir sér hag í að ganga úr samtökum mjólkurframleiðenda hér í Rvík og nágrenninu og gerast viðskiptamenn þessara búða, sem að öðru leyti byggðu afkomu sína á sölu mjólkur að austan. Þriðja hættan, sem á vegi þessara þörfu samtaka varð, og e. t. v. sú mesta, var sú, að brátt varð mjólkurframleiðslan meiri heldur en samsvaraði nýmjólkurþörf bæjarins. Varð þá að vinna skyr og osta úr því, sem afgangs var, en sú vinnsla skilaði mjólkurframleiðendum minna verði fyrir mjólkina heldur en nýmjólkursalan. Mjólkurframleiðendur kostuðu því kapps um að selja alla sína mjólk nýja og forðuðust að reyna að vinna úr henni. En af þessu leiddi, að búðafjöldinn óx og viðleitnin til að ná í nýjar búðir varð æ meiri og meiri, en að sama skapi fór það magn mjólkur, sem selt var í hverri búð, minnkandi, og af því leiddi vitaskuld hlutfallslega aukning á sölukostnaðinum.

Enn má segja það, að þessum mjólkurframleiðendum hafi stafað nokkur hætta af því, að heilbrigðisstjórnin í Rvík leyfði mönnum að selja mjólk beint úr fjósinu. Við þetta varð sölumagn í búðunum minna en ella hefði orðið og kostnaðurinn hlutfallslega meiri. Svo var það á árunum 1929—1930, að stofnuð voru 3 ný mjólkurbú, mjólkurbú Thor Jensens, Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkurbú Ölfusinga. Eftir það jókst enn á ný mjög samkeppnin um mjólkursöluna, þannig, að austanmenn leituðu lags að ná sem flestum nýjum búðum til þess að selja sína mjólk, og samkeppnin leiddi það af sér, að kostnaðurinn af mjólkursölunni varð óhæfilega hár. Það hefir náttúrlega ekki farið dult, og er sjálfsagt kunnugt flestum hv. dm., að hagur bænda á þessum svæðum, er sízt svo blómlegur, að þeir megi við því, að óhæfilegur kostnaður leggist á sölu afurða þeirra. Þeim hefir líka skilizt það til fullnustu, og fulltrúar þessara bænda hafa á undanförnum árum reynt að vinna að því að koma sér niður á eitthvert skipulag, sem mætti ráða bót á þessari óhæfilegu samkeppni um mjólkursölu og hinum mikla kostnaði, sem af samkeppninni hefir leitt. Þessi viðleitni hefir verið að ég hygg mest fyrir forgöngu framkvæmdarstjóra Mjólkurfélags Rvíkur, Eyjólfs Jóhannssonar, manns, sem nú er orðinn þjóðkunnur fyrir sinn mikla dugnað, og eins og nú er komið, hefir þessi dugnaður hans borið mikinn og óvæntan árangur. Það liggur náttúrlega í hlutarins eðli, að þessir aðilar, sem hafa verið að keppa um Reykjavíkurmarkaðinn, hafi haft nokkuð ólíka hagsmuni og í lengstu lög hver um sig haldið í sína hagsmuni. En það er þó svo komið fyrir forgöngu þessa manns, að þeir mjólkurframleiðendur, sem hér eiga hlut að máli, og þá sérstaklega þessi aðalmjólkurfélög, Mjólkurfél. Rvíkur, mjólkurbú Thor Jensens, Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkurbú Ölfusinga, hafa orðið sammála um að standa að þeirri löggjöf, sem borin er fram í þessu frv., sem nú er til umr. hér.

En það er að vísu svo, að allir þessir aðilar hafa ekki verið jafnginnkeyptir, og ég á þar við Thor Jensen, sem hefir nokkra sérstöðu í þessum efnum, en ég hefi þó þá ánægju að geta sagt, að einnig það mjólkurbú mun geta sætt sig við þessi ákvæði, ef þau verða lögfest.

Tilgangur þessara laga lýsir sér hér í grg. frv. Hún er ákaflega stutt, og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp. Ég treysti mér ekki til að segja hana með öðrum orðum á greinilegri hátt: „Með frv. þessu er stefnt að því tvennu: 1. að bæta hollustuhætti um meðferð mjólkur í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem því verður við komið, með því að fyrirskipa, að þar verði aðallega seld gerilsneydd mjólk og hreinsuð. Mjólk, sem framleidd er innan kaupstaðar eða kauptúns og seld er beint til neytenda, er þó undanþegir, þessu ákvæði, en þó að sjálfsögðu látin vera háð heilbrigðiseftirliti. 2. Að styðja að skipulagningu um mjólkursölu og gera með því kleift að draga úr hinum gífurlega kostnaði, sem leggst á mjólkina með þeirri tilhögun, sem nú er á útsölunni“.

Þessum tilgangi er svo ætlað að ná með því að banna að selja aðra mjólk en gerilsneydda mjólk eða mjólk, sem er hreinsuð í fullkomnum mjólkurbúum, sem að dómi atvmrh. hafa aðstöðu til þess að hreinsa mjólkina á annan hátt en að gerilsneyða hana og koma henni óskemmdri á markaðinn.

Þetta ákvæði er sérstaklega sett vegna mjólkurbús Thor Jensens, sem selur meginhluta mjólkurinnar hreinsaða, en ekki gerilsneydda. Það mjólkurbú hefir nokkra sérstöðu til þess að geta fullnægt þeim heilbrigðikröfum, sem gerðar eru til mjólkur, án þess að mjólkin sé gerilsneydd, þar sem mjólkin er framleidd undir eftirliti dýralæknis, og fyllsta hreinlætis er gætt á búinu, sem er sambærilegt við fullkomnustu mjólkurbú a. m. k. á Norðurlöndum, og þó víðar væri leitað.

Ég álít það galla á frv., að undanþegnir eru mjólkurframleiðendur, sem eru innan vébanda Rvíkur. Ég álít það eðlilegt, að þeim væri einnig bannað að selja aðra mjólk en þá, sem er gerilsneydd eða hreinsuð á tryggilegan hátt. En það hefir þó ekki þótt kleift að fara fram á, að þau ákvæði væru lögfest, m. a. af því, að þeir framleiðendur, sem þar eiga hlut að máli og reka allverulegan búskap, óska ekki eftir, að þessi löggjöf nái til þeirra og mundu setja sig á móti því. En tilgangur okkar, sem flytjum frv., er ekki sá, að þröngva mönnum til að vera með því, heldur að lögfesta þessi ákvæði, sem langsamlega mestur hluti af hlutaðeigendum er fylgjandi, að nái fram að ganga.

Undanþegin ákvæðunum er líka svo kölluð barnamjólk. Ég viðurkenni, að það vantar ákvæði um það, hvað sé barnamjólk, og ég ætlast til, að ekki liði langur tími þangað til þingið setur löggjöf um það, hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja til þess að mjólk sé kölluð barnamjólk. Ég veit ekki, hvort slík löggjöf er annarsstaðar, en ég hygg það þó. A. m. k. eru reglur til um það frá heilbrigðisstjórnum. Það ákvæði ætti því ekki að vera hættulegt, þó barnamjólk sé undanþegin.

Hinum tilganginum, að draga úr kostnaði við mjólkursöluna, er ætlazt til, að náð verði með því að fækka búðum mjög verulega frá því, sem nú er annarsvegar og hinsvegar með því að forðast óþarfa flutningskostnað á mjólk frá bændum austanfjalls til Rvíkur. Til þess að því verði komið við er heimild í 2. gr. l. um það, að mjólkurframleiðendur á stærri eða minni svæðum, sem selja mjólk og rjóma frá viðurkenndum mjólkurbúum, geti gert með sér samþykktir um skipulag sölu á þessum vörum. Það er ætlazt til, að árangurinn af þessari heimild verði sá, að mjólkursalan verði skipulagsbundin. Ég skal taka það fram, að það er ekki ætlazt til þess, að þessi skipulagsbinding á mjólkursölunni nái til þess, að meiri hl. mjólkurbúanna á þessum svæðum geti sett reglur um það, að öll mjólkin sé seld gegnum einn aðila og þannig meinað einstökum mjólkurbúum á svæðinu að selja sína mjólk sjálf. Ég tek þetta sérstaklega fram með tilliti til eins aðila, og það er gert í samráði við forgöngumenn þessa máls og meðflm. mína, a. m. k. þann, sem mesta forgöngu hefir, Eyjólf Jóhannsson framkvæmdarstjóra. Hinsvegar er tilgangurinn sá, að fækka mjólkurbúðunum, sem orðnar eru 84—100, en ætlazt var til með reglugerð, sem um þær var sett, að væru 12, að fækka þeim niður í hæfilegan fjölda, t. d. 20 og á þann hátt draga úr sölukostnaðinum, og jafnframt er það annar höfuðtilgangurinn að koma í veg fyrir, að austanmenn séu að vetrarlagi að flytja nýmjólk til Rvíkur, þegar framleiðendur í nágrenni Rvíkur eru að vinna skyr og osta úr sinni mjólk. En til þess svo, að austanmenn megi við það una, að sleppa þeim feng að njóta nokkurs hluta mjólkursölunnar í Rvík, er ætlazt til, að stofnaður sé verðjöfnunarsjóður með því að leggja nokkurn skatt á þá mjólkurframleiðendur, sem mjólk selja innan vébanda Rvíkur eða annara kaupstaða, sem hlut eiga að máli. Það er ætlazt til þess, að þessi skattur verði eftir því sem þörf krefur, en aldrei hærri en 5% af útsöluverði gerilsneyddrar mjólkur, að því er snertir mjólk frá mjólkurbúum utan kaupstaða. En það er jafnframt ætlazt til, að þeir, sem mjólk framleiða innan vébanda kaupstaðanna og samkv. 1. gr. frv. er heimilt að selja hana beint til neytenda, greiði einnig nokkurn skatt í þennan verðjöfnunarsjóð. Og af því að það er erfitt að henda reiður á því, hve mikil sú mjólk er að lítratölu, þá er skatturinn miðaður við kúafjöldann og gengið út frá, að meðalársnyt í hverri kú sé 2500 lítrar.

Þessum verðjöfnunarsjóði verður varið til þess að bæta þeim austanmönnum, sem hafa haft aðstöðu til að keppa um mjólkurmarkaðinn, upp þann halla, sem þeir telja sig hafa af því að hætta að selja mjólk til Rvíkur og vinna skyr og osta úr henni austanfjalls. En það er náttúrlega undir atvikum komið, hvort allri mjólkurþörfinni verður fullnægt með sölu úr nágrenni Rvíkur, en ef sú framleiðsla er ekki nægjanleg, þá er ætlazt til þess, að mjólk verði flutt austan að eftir því sem með þarf til þess að fylla í skörðin.

Það er sett ákvæði í 2. gr. þessara 1. um það, hvers skuli krafizt til þess að samþykktir mjólkurframleiðenda á ákveðnum sölusvæðum séu gild. Þess er krafizt áður en slíkar samþykktir öðlast gildi, að frv. sé lagt fyrir viðkomandi mjólkurbú á viðkomandi sölusvæði og samþ. af þeim mjólkurbúum, og svo sé haldinn sameiginlegur fundur, þar sem mjólkurbúin hafa sína löglegu, kjörnu fulltrúa. Á þessum fundi verður samþykktin að fá a. m. k. 3/4 hl. atkv. til þess að hún öðlist lagalegt gildi, en atkvæðamagn mjólkurbúanna á slíkum fundi miðast við, hver er ársframleiðsla hlutaðeigandi mjólkurbúa.

Það er viss veila í þessu skipulagi, sem okkur flm. er ljóst, að geti komið fyrir. Við skulum hugsa okkur, að á slíkum aðalfundi allra mjólkurbúanna sé með 75% af greiddum atkv. samþ., að slík samþykkt skuli öðlast gildi. En ef nú þau mjólkurbú, sem neita gildistöku samþykktarinnar, hafa að baki sér alla meðlimi sína, þá hafa 25% af mjólkurframleiðendum á þessu svæði neitað gildistökunni. En svo er það a. m. k. teoretiskur möguleiki með 75%, að þau séu þannig til komin, að innan hvers mjólkurbús hafi samþykktin öðlazt gildi á þann hátt, að liðlega 50% af meðlimum hlutaðeigandi mjólkurbúa hafi sagt já, en liðlega 49% nei. Þetta þýðir þá, að í raun og veru er það ekki nema liðlega 50% af 75% af framleiðendum á svæðinu, sem hafa goldið jákvæði, en neikvæði hafa goldið fyrst 25% í einu lagi, og svo í öðru lagi allt að 37½ af framleiðendum þeirra mjólkurbúa, sem þó greiddu samþykktinni jákvæði. Það er að segja, að það getur teoretiskt komið fyrir, að liðlega 38% af framleiðendum á svæðinu kúgi 62% af framleiðendum.

Þetta er nú eingöngu teoretiskur möguleiki, sem ég vildi taka fram, að okkur hefði ekki skotizt yfir. En það er náttúrlega opin leið fyrir þá n., sem fær þetta mál til athugunar, að ráða bót á því með því að breyta þessu ákvæði. Ég hefi ekki fundið ástæðu til þess, en ég skal ekki setja mig á móti því, ef það verður gert.

Ég skal svo aðeins geta þess, að menn þurfa ekki að óttast, að af þessu leiði verðhækkun á mjólk hér í Rvík. Menn þurfa ekki að halda, að þó að mjólkurframleiðendur fái þessa aðstöðu að skipulagsbinda mjólkursöluna í Rvík, fái þeir aðstöðu til að okra á Reykvíkingum. Ef menn kynnu að óttast það, þá þurfa þeir ekki annað en að lesa 5. gr. frv. Hún segir frá því, að það skuli skipuð 7 manna nefnd, sem ákveður útsöluverð á mjólkinni, og þessi n. er þannig skipuð, að framleiðendur skipa aðeins 2 af nefndarmönnum, tveir eru skipaðir af bæjarstjórn og 3 af atvmrh. Þess vegna er full ástæða til að halda það, að a. m. k. meiri hl. þeirrar n., sem á að ráða mjólkurverðinu, sé skipaður úr hópi neytenda. Það má segja, að það sé máske óvarfærni af framleiðendum að vilja leggja sig undir þetta högg, að menn, sem eiga að kaupa vöruna, ráði verðlaginu, en það er þó gert í því trausti, að n. sé skipuð mönnum, sem láta það eitt ráða, sem sanngjarnast er og réttast, seni sitja í n. sem dómarar, en ekki sem vilhallir eiginhagsmunamenn. Og bændur á þessum svæðum eiga við það skarðan hlut að búa, að þeir telja sig ekki eiga úr háum söðli að detta og kjósa sér ekki annað fremur en að sanngjarnir, dómbærir menn kynni sér sérstöðu og hag búrekstrar þeirra og ákveði svo verðlagið eftir því, sem brýn þörf krefur. Annað fara þeir ekki fram á, og ég hygg, að Rvík geti ekki með sanngirni kosið sér annað betra hlutskipti. Því þó það megi vel vera, að samkeppni bænda um mjólkursöluna í Rvík nái því marki að verðfella mjólkina svo gífurlega, að bændur sligist undir búskapnum, eins og nærri stappar nú, þá verða afleiðingarnar þær, að eftir vissan og takmarkaðan tíma heltast það margir bændur úr lestinni, að verðið rís aftur, og þá e. t. v. úr hófi. Til þess að fyrirbyggja þær óeðlilegu sveiflur og með sameiginlega hagsmuni framleiðenda og neytenda fyrir augum er þetta frv: fram borið. Að það sé meining okkar, mega allir marka á því, að við biðjum um verðlagsnefnd, þar sem allar líkur eru til, að neytendur verði í meiri hluta. Aðra skýrari sönnun fyrir því, að ekki eigi að okra á Reykvíkingum, get ég ekki gefið og getur heldur enginn maður beðið um.

Ég vænti því þess, að úr því að mestur hluti framleiðenda á þessum svæðum hefir borið gæfu til þess að ganga saman um það að bera fram eina sameiginlega ósk í þessu efni, ljái hv. þm. þessu máli lið sitt og leyfi því að ganga viðstöðulítið gegnum þingið, þannig að það megi öðlast lögfestingu, þó tiltölulega stuttur tími sé eftir.

Að endingu vildi ég svo vænta þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til landbn.