23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (4302)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég ætla að fara þess á leit við hv. frsm. og hv. n., hvort þau hefðu nokkuð á móti því, að málið verði tekið út af dagskrá nú að þessu sinni, til nánari viðtals við stjórn Landsbankans og máske fleiri banka um verðbréfasöluna. Ég hefi nokkrum sinnum átt tal um þessa hluti við stj. Landsbankans, og mér er kunnugt um, að hún leggur mikla áherzlu á, að þau opinberu viðskipti eða hálfopinberu, sem verða á veðdeildarbréfunum, gangi gegnum Landsbankann sjálfan eða viðkomandi stofnanir. Þessu fylgja tveir kostir. Annar kosturinn er sá, að þá er ekki á neinn hátt ætlazt til, að forstöðumenn sjóðanna gangi manna á milli til þess að finna út, hvaða bréf séu ódýrust. Það er ekki vert að fela þeim slíkan starfa, heldur að kaupa örugg bréf með föstum „kurs“. Sú ráðstöfun getur hjálpað sjóðunum til að hafa fastan „kurs“ á sínum bréfum. Það er ekki ástæðulaust í okkar landi að styðja Landsbankann, Búnaðarbankann og fleiri slíkar stofnanir í því að geta haft fastan og „effektivan“ kurs á sínum bréfum. Ég ætla ekki að halda því fram, að svona ráðstöfun ein geti hindrað brask og verðbreytingar á verðbréfunum; til þess nægir ekkert fullkomlega annað en að til séu nægilegir peningar til að kaupa allt, sem fram er boðið, og það er skylda hins opinbera að ljá liðsinni sitt til að festa verðið á verðbréfunum frekar en nú er. Þetta ætti að vera, af því að hér er engin kauphöll og engin almenn skráning á bréfum, sem gerir það alltaf vandalítið á hverjum tíma að vita um hið rétta verð augnabliksins.

Ég held, að ekki sé hægt að laga þetta á annan hátt en þann, að Landsbankinn fái betri aðstöðu til þess að gera effektivt það verð, sem hann vill setja á bréfin. Ég vil sannarlega ekki kalla það sannvirði veðdeildarbréfanna, þó að þau kæmust niður í 60 eða 50%, af því að fáir vilja kaupa þau, en þeir fáu, sem kaupa, vilja okra á bréfunum, en þeir, sem vilja selja bréfin, eru í vandræðum. Þetta hefir sprottið upp af ástandi síðari ára, og hefir farið vaxandi. Landsbankanum er miklu betur trúandi til að ákveða sannvirði bréfanna og hæfilegan ágóða fyrir bréfakaupendurna. Til þess að hafa tök á því, þarf hann að ráða yfir því fé, sem fer til bréfakaupanna. Hér er um töluvert slíkt fé að ræða, sem fer til veðdeildarbréfakaupa og bankavaxtabréfakaupa og annars slíks. Til að ræða þetta mál í heild sinni, og sérstaklega 2. tölul. 2. gr. í hinu upphaflega frv., álít ég ástæðu til að stofna til fundar með stj. Landsbankans og fjhn., og óska, að málið verði tekið út af dagskrá.