19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2632 í B-deild Alþingistíðinda. (4314)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég skal reyna að vera stuttorður og get það líka, vegna þess að í grg. er það skýrt tekið fram, hvað haft er fyrir augum með því að fara fram á að fá þessum l. breytt, þrátt fyrir það, að fellt hafi verið frv., sem gekk í svipaða átt.

Það hefir verið hamrað mjög á því, að þeir, sem stunduðu þessa veiði síðastl. sumar, hafi haft minna upp úr henni en búizt var við, og þetta er að mörgu leyti satt. Samt má heita undarlegt, þar sem 22 þm. í lok síðasta þings skoruðu á stj. að gefa út bráðabirgðal. um þetta efni, að frv. skyldi verða fellt. En það var ekki fyrir annað en öfgar og ofsa af hálfu þeirra manna, sem sjá rautt, hvenær sem hreyfa á við þessari löggjöf um dragnótaveiðina, þó að það sé þýðingarmikið atriði til atvinnubóta fyrir stóran hóp sjómanna. Og hv. þm. Borgf. reyndi nú að síðustu að koma í veg fyrir, að frv. fengi áheyrn hjá d., og það með þeim rökum, sem mig furðar á, að jafnskýr maður skuli leyfa sér að bera fram, því að þetta frv. er allt annars eðlis en bráðabirgðal., sem voru sett í fyrra.

Nú er það vitanlegt, að í sumar getur ekki orðið verulegt gagn af dragnótaveiðinni, nema menn fái aðgang að vissum markaði, en það er vitanlegt, að ekki er leggjandi út í það sökum hita, að senda fiskinn út um hásumartímann. Nú hefir verið reist stofnun í Rvík, sænsk-íslenzka frystihúsið, og frá öndverðu hafa menn haft það í huga, að með því skapaðist markaður fyrir nokkurn hluta af fiski þeim, sem hér er veiddur, og yrði þannig mikil lyftistöng fyrir sjávarútveginn. Þessar vonir hefðu áreiðanlega rætzt, ef ekki hefði verið með óheppilegum lagaákvæðum tálmað starfsemi þessarar stofnunar.

Í fyrra gerði frystihúsið sína fyrstu tilraun að hraðfrysta fisk og koma honum á erlendan markað. Hann hefir undanfarin ár átt örðugt uppdráttar í samkeppninni við ísfisk. En eins og sagt er í bréfi, sem prentað er með þessu frv. á þskj. 707, þá lítur nú út fyrir, að sænska frystihúsið geti nú fengið góðan markað fyrir fisk. Í bréfi þessu, sem er frá sænska frystihúsinu til atvmrn., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilraunir vorar síðastl. ár við að fá markað fyrir flakaðan frosinn þorsk, rauðsprettu og sólkola, hafa borið svo góðan árangur, að vér höfum í ár ákveðið að kaupa 700 tonn af þorski, 500 tonn af rauðsprettu, 100 tonn af sólkola og 100 tonn af lúðu til frystingar og útflutnings“.

Þá er þess ennfremur getið, að þrátt fyrir auglýsingar og eftirgangsmuni við sjómenn hafi frystihúsinu ekki tekizt að gera samninga um viðskipti við einn einasta bát, vegna þess að ekki er útlit fyrir, að þessi veiði geti borgað sig, ef ekki er leyft að fiska innan landhelginnar. Hinsvegar er það vitað, að ef það er leyft, þá er hér sumarstarf fyrir 25—30 vélbáta.

Ég veit það úr öllum áttum, að ekki er ofsögum sagt af þessum góða árangri frystihússins að hraðfrysta flakaðan þorsk og kola.

Blaðið „Canadian Fishing News“ getur þess, að Íslendingar hafi verið að gera merkilegar tilraunir með hraðfrystingu á kola og þorski og þar sé í uppsiglingu nýtt „industri“ í þessum efnum. Í blaðinu er þess getið um leið, að þessi fiskur hafi átt örðugt uppdráttar í Evrópu, af því að þar hafi ísaður fiskur hamlað útbreiðslu hraðfrysts fiskjar, en í Ameríku hafi gengið greiðlega að ná föstum tökum á þessum markaði.

Þá skal ég taka það fram, að ég ætla ekki að fara að deila við hv. þm. Borgf. um þetta mál. Ég veit, að hann hefir setið með sveittan skallann í dag að semja andmælaræðu gegn frv. Ég mun ekki heldur deila við aðra hv. þdm. um það, hvort dragnótaveiðar séu yfirleitt til ábata eða skaða fyrir fiskiveiðarnar. Það efni er svo þrautrætt, og hv. þm. Borgf. er búinn að halda margar og óþarfar ræður um það. Ég vil aðeins benda á það, að þegar svo að segja allt þykir gerandi til þess að ráða bót á vandræðum yfirstandandi tíma, hvort ekki sé takandi í mál að sjá 2—3 tugum vélbáta fyrir góðri sumaratvinnu með því að rýmka til um dragnótaveiðilöggjöfina, eins og farið er fram á í þessu frv.

Ég skal upplýsa það, af því að hv. þm. Borgf. var að tala um, hver væri faðir að þessu frv., að ég hefi búið það til einn. Í frv. er lagt til, að rýmkað sé til á takmörkuðu svæði, sem sé frá Hjörleifshöfða til Látrabjargs. Ég vil taka það fram, að úr þessu féllu orðin „vestur um“, því að meiningin er, að þetta sé svæðið frá Hjörleifshöfða vestur um til Látrabjargs. Er þá markaðsstaðurinn nálægt því að vera miðsvæðis á veiðisvæðinu.

Mér hefði ekki komið í hug að fitja nú upp á þessu, ef sú örugga vissa væri ekki fyrir hendi, að öruggur og ábyggilegur kaupandi sé að miklu magni af þessum fiski, eða eins og segir í bréfinu 1400 tonnum. Verðið er miklu hærra en boðið var í fyrra, og útgerðarmenn í Keflavík, sem hringdu til mín nú fyrir nokkrum dögum, sögðu, að jafnvel með þeirri veiði, sem þeir báru úr býtum í fyrra, hefði sú útgerð borgað sig vel, ef verðið hefði þá verið eins hátt og nú er boðið.

Ég hefi þá tekið fram helztu ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er borið fram, og skal ekki þreyta hv. d. með lengri ræðu. Ég veit, að hv. þm. Borgf. er að springa af óþolinmæði að komast að með sína ræðu, og ég mun lofa honum að tala svo mikið sem hann vill, ef hv. d. vill finna sig í því að beita hér málþófi. (PO: Ætlar hv. þm. að gefast upp fyrirfram?). Ég ætla ekki að gefast upp. Mér segir svo hugur um, að hann vinni ekki á því að bregða fæti fyrir þetta mál nú.

Ég vona svo, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og sjútvn.