18.03.1933
Neðri deild: 30. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

3. mál, landsreikninga 1931

Frsm. (Hannes Jónsson):

Að svo miklu leyti, sem um tölulegar upplýsingar er að ræða viðvíkjandi LR., má vísa til nefndarálits um frumv. til fjáraukalaga á þskj. 165. Ég býst ekki við að þurfa að vera fjölorður um þetta mál fremur en það næsta á undan á dagskránni, því aths. yfirskoðunarmannanna við LR. hefir hæstv. stj. svarað þannig, að svörin hafa verið viðurkennd og ýmist úrskurðuð fullnægjandi eða aths. úrskurðaðar til athugunar framvegis; eftirbreytni í framtíðinni og þar fram eftir götunum.

Þó eru einar tvær aths., sem yfirskoðunarmennirnir hafa vísað til þingsins. Er önnur um það, að forstöðumanni pósthússins hér í Rvík hafa verið greidd hámarkslaun strax eftir að hann tók við embættinu. Munar það um rúmar þúsund kr. frá því, ef hann hefði verið skoðaður sem nýr í embættinu og greitt samkv. því. Hæstv. stj. hefir nú fært fram nokkrar ástæður fyrir því, hvers vegna launagreiðslu til þessa manns var hagað eins og gert var, og má e. t. v. segja, að það sé nokkuð mikil afsökun fyrir því, að hann fékk hámarkslaun strax. Þó fannst yfirskoðunarmönnunum rétt að vísa þessu atriði til aðgerða Alþingis. Fjhn. gerir þó enga till. út af þessu. Lítum við svo á, að svo gildar ástæður hafi verið fyrir þessari ráðstöfun stj., að ekki sé bein ástæða til að gera sérstakar till. út af henni. Og verði LR. samþ. án þess nokkrar brtt. komi fram við þetta atriði, þá verður að skoða það sem viðurkenningu Alþingis fyrir því, að hæstv. stj. hafi farið rétt að í þessu efni, eða að ástæður þær, sem hún hefir fram borið, séu þess eðlis, að þær afsaki gerðir hennar.

Hin aths. er 24. aths. við LR., og henni er ekki nema að nokkru leyti vísað til aðgerða Alþingis, og snertir það atriði till., þar sem bent er á, að nauðsyn beri til þess að auka sparnað á starfssemi útvarpsins, sérstaklega í sambandi við fréttastarfsemi þess. N. sér ekki ástæðu til að breyta því, sem orðið er í þessu efni, en hafði hinsvegar ekki tækifæri til að bera fram till. um framtíðarskipulag það, sem mætti til sparnaðar verða, en mælist til þess, að stj. geri það, sem í hennar valdi stendur, til þess að ekki verði þarna frekar en annarsstaðar meiri eyðsla en hægt er að komast af með. Þetta eru þær till., sem vísað hefir verið til aðgerða Alþingis, og n. hefir ekki fundið ástæðu til að koma með neinar sérstakar till. í því efni. Ýmsar aðrar aths., sem yfirskoðunarmenn hafa gert, en ekki komið með neinar till. um, mætti þó minnast nokkuð á. Ég ætla þó ekki að gera það að þessu sinni, nema mér gefist tilefni til, nema á eina þeirra, og hún er um prestlaunasjóðinn.

Það hefir verið mjög slæmt fyrirkomulag á bókhaldi þeirrar stofnunar, sérstaklega í sambandi við bókhald ríkisins, og yfirskoðunarmenn lögðu til, að þessi 1., sem sjóðurinn starfar eftir, verði úr gildi numin og tekjur sjóðsins renni beint í ríkissjóð og gjöld hans talin með gjöldum ríkisins. Þessi sjóður er ekkert nema á pappírnum, því allan ársins hring skuldar hann ríkissjóði.

Nú hefir verið borið fram í Ed. frv. um að fella þessi l. úr gildi, en ég hefi orðið þess var, að þetta frv. hefir mætt nokkurri mótspyrnu, og er óvíst, hvort það nær fram að ganga, og sérstaklega vegna þess, ef svo skyldi fara, að frv. annaðhvort dagaði uppi eða yrði fellt, þá vildi ég beina því til stj., að hún athugaði það alvarlega, hvort ekki væri hægt að koma reikningshaldi þessa sjóðs í betra horf en nú er, því það er nær ómögulegt að fá nokkurt vit út úr sjálfum sjóðreikningnum í ríkisbókhaldinu. Og það hefði satt að segja orðið mesti vandi fyrir yfirskoðunarmenn LR. að ljúka sínu starfi, ef bókhaldið hjá ríkisféhirði hefði ekki verið í jafngóðu lagi og það var. Eins og getið er um í aths. yfirskoðunarmanna, þá hafa ýmsar villur komið fram í ríkisbókhaldinu, t. d. hefir mismunur verið yfirfærður á prestlaunasjóð og hann þannig orðið eins og nokkurskonar ruslakista til að gleypa allar villur, sem fram koma í bókhaldinu. Það er óviðunandi fyrirkomulag, og má ekki við svo búið standa, að halda áfram á þeirri braut, og fari svo, að frv., sem ég gat um áðan, verði ekki afgr. sem 1. á þessu þingi, þá væri æskilegt, að athugað væri, hvort ekki væri hægt að fá eitthvert betra form á reikningshaldi prestlaunasjóðsins en nú er, og sérstök ástæða virðist vera til þess að auka eftirlit með innheimtu á tekjum þessa sjóðs. Mætti jafnvel laga það svo, að reynt væri að ganga svo frá ríkisbókhaldinu að þessu leyti, að við mætti una að óbreyttum l., en þó tel ég sjálfsagt, ef ekki verða felld niður þessi l. um prestlaunasjóð, þá verði a. m. k. breytt reikningsformi hans. Þetta mætti sjálfsagt gera, og e. t. v. hefðu yfirskoðunarmennirnir athugað þetta nánar, ef þeir hefðu hugsað sér, að 1. héldu áfram að gilda. En af því að þeim finnst beinasta leiðin til úrlausnar í þessu efni að nema l. úr gildi, þá hafa þeir ekki hugsað sér neina endurbót, en eins og ég hefi tekið fram, þá er það óhjákvæmileg nauðsyn, ef á að koma bókhaldi ríkisins í viðunandi horf.