08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (4476)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég ætla, að ég hafi skilið hv. 3. þm. Reykv. rétt, að Sjálfstfl. vilji leysa kjördæmamálið á þessu þingi, og að flokkurinn mundi einnig styðja samsteypustjórnina. En eftir ræðu hæstv. forsrh. virtist mér liggja næst fyrir hv. 3. þm. Reykv. að svara því, hvað Sjálfstfl. ætlar að gera við stj., ef þetta frv. nær ekki fram að ganga á þinginu. Ég hefi áður beint þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., hvaða afstöðu Sjálfstfl. mundi taka gagnvart tekjuaukafrv. stjórnarinnar, ef stjórnarskrárfrv. gengi ekki fram, og hefi ég ekkert svar fengið við þeirri spurningu. Ég tel réttast, að það komi nú þegar fram við l. umr. stjórnarskrármálsins, hver sé hin raunverulega afstaða flokkanna gagnvart frv., en að ekki sé sífellt verið að leika skollaleik um þetta mál. Mér er sagt, að hv. 3. landsk. hafi við 1. umr. í Ed. um stjórnarskrárfrv. hv. 2. landsk. haldið því fram, að samsteypustj. væri búin að fullnægja þeim samningum, sem gerðir voru á milli flokkanna í fyrra, með því að flytja þetta frv. En ég vil ekki trúa því, að Sjálfstfl. hafi látið gabba sig svo herfilega; og ef svo hefir verið, þá krefst ég þess, að fá um það skýr og refjalaus svör frá ráðh. Sjálfstfl. nú þegar.

Það má segja að hæstv. forsrh. hafi í ræðu sinni gefið nokkra staðfestingu á þessu. Mér fannst eiginlega hæstv. forsrh. bæta gráu ofan á svart, gysi um samstarfsmann sinn í stj. og flokk hans ofan á gabbið. Hann tók svo til orða, hafi ég heyrt rétt, að afleiðingin af því, að stjórnarskrármálið gekk ekki fram á síðasta þingi, hefði orðið sú, að sjálfstæðismenn gengu til stjórnarmyndunar með Framsókn, og þess vegna þætti sér mjög kátbroslegt, ef afleiðing þess, að stjórnarskrármálið næði ekki fram að ganga nú heldur, yrði sú, að sami flokkur setti vantraust á samsteypustj. Ég fæ ekki betur séð en hæstv. ráðh. sé með þessum ummælum aðeins að gera gys að samstarfsmönnum sínum og stuðningsmönnum stj. í Sjálfstfl.

Hæstv. forsrh. segir, að skoða beri þetta frv. sem samkomulagstilraun, vel meinta frá sinni hálfu. Eins og kunnugt er, hefir þessi hæstv. ráðh. að baki sér stærsta flokk þingsins, meiri hl. allra þm. í sínum eigin flokki. Mér þykir því ákaflega ólíklegt, ef hann í raun og veru ber frv. fram sem samkomulagstilraun, að hann hafi ekki fyrirfram tryggt því svo mikið fylgi innan síns flokks, að hann geti komið því fram, ef samkomulag næst um það við hina flokkana. Ég neita því, að hér geti verið um nokkra samkomulagstilraun að ræða af hendi hæstv. forsrh., ef hann hefir ekki tryggt frv. atkv. þriggja til fjögurra manna innan síns flokks. Það er alls ekki hægt að kalla það tilraun til samkomulags, þó mest ráðandi maðurinn í stærsta flokki þingsins komi fram með till. í jafnmikilsverðu máli sem hér er um að ræða, ef hann hefir ekki tryggt þeim fylgi eins sjöunda hluta af flokki sínum.

Ég ætla ekki að lengja mikið umr. um þetta mál að þessu sinni. En mér þætti mjög æskilegt, að fram kæmi svar við þessari fyrirspurn minni: Hvaða afstöðu ætlar Sjálfstfl. að taka til stj., ef þetta frv. hennar nær ekki fram að ganga? Ætlar hann að nota sömu möguleikana til að knýja málið áfram, sem hann þóttist ætla að nota í fyrra, eða ætlar hann ennþá að setjast niður og verða góða barnið?