02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (4578)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Ég vil styðja till. hv. 2. þm. Árn. um að málinu verði frestað. Þegar fast er haldið fram brtt., sem koma fram á síðustu stundu, þá er hætt við, að um flaustursafgreiðslu verði að ræða. Er það óheppilegt í jafnmikilvægu máli sem þetta er. Minna má eigi vera en að þm. fái nokkurt ráðrúm til að athuga þær brtt., er fram koma og þeir verða að greiða atkv. um. Þessu verður ekki breytt á næsta þingi, því sé það gert, er frv. þar með fallið, og verður þá að fitja upp að nýju. Ég verð að taka undir þau orð hv. 1. landsk., að hættulegt geti verið að hrófla við þessu frv. Um það hefir náðst samkomulag. Og ég skal geta þess, að sá maður, sem náði samkomulagi milli flokkanna nú fyrir síðustu helgi og var frsm. þess við 3. umr. í Nd., kemst svo að orði — það var hv. þm. Str., og segir hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það, sem fyrir liggur, er það, að íslenzkir stjórnmálamenn hafa borið gæfu til þess að leiða málið til lykta á þann hátt, sem hér liggur fyrir“.

Þarna vísar hann til þess, að samkomulag hafi orðið um efni og orðalag till. milli flokkanna, enda veit ég, að svo var að því er Alþfl. snertir. Orð hv. þm. Str. verða heldur ekki skilin öðruvísi. Við Alþfl.menn vorum — sem og líka sjálfst.menn — óánægðir með ýms ákvæði frv. En við féllumst þó á þetta til samkomulags, í því trausti, að stjórnarskrármálinu væri þar með tryggður framgangur. Ef nú er losað um þau bönd, sem hnýtt voru með því samkomulagi, er varð, þá veit ég ekki, hvar lendir. Ég veit, þrátt fyrir fullyrðingar hv. 3. landsk., að verði frv. nú breytt, þá muni ýmsir Framsfl.menn hugsa sér til hreyfings um frekari breyt., ef frv. kemst til Nd. aftur. Það vita allir, að mörgum þeirra var ekki ljúft að ganga að þeirri tölu uppbótarsæta, sem ákveðin er í frv. — Ýmsir framsóknarmenn hafa áður kveðið fast að orði um það, að þeir ætluðu sér að halda fast í rétt kjördæmanna. Skiljanlegt er, að þeim hinum sömu sé það ekki sársaukalaust að tala við kjósendur sína eftir að þetta samkomulag er fengið, sem þeir þó hafa gengið inn á ásamt hinum flokkunum, og að þeir því vildu nota færi, ef byðist, til þess að ganga frá samkomulaginu. — Það er þetta efni og orðalag, eins og hv. þm. Str. bendir til, sem við jafnaðarmenn höfum gengið inn á. En ég veit ekkert, hvað Alþfl. kann að gera, ef þessu orðalagi verður breytt í þá átt, sem hann telur óhagstæðari.

Ég skal þá koma að frv. og brtt. þeim, sem fyrir liggja. Orðalag frv. er skýrt og greinilegt og verður ekki misskilið. Till. hv. 3. landsk. er aftur á móti loðin, varasöm og gefur undir fótinn um, að hægt sé að setja í kosningal. óheppileg ákvæði. Stórfelldar breyt. eru gerðar. Sú fyrsta er, að samkv. frv. er stjórnmálafl. heimilað að hafa landskjörslista við kosningar. En í till. er talað um, að þingflokkur hafi þann rétt. En hvað er nú þingflokkur við kosningar og hvernig á að setja mennina á þennan lista? Hér er mjög óljóst, við hvað er átt. Það lítur út fyrir, að fráfarandi þm., sem þó eru umboðslausir eftir að þing hefir verið rofið, eigi að koma saman á fund, hver flokkur fyrir sig, og ráða landskjörslista einir. Með þessum skilningi er þeim flokkum, sem ekki áttu fulltrúa á þingi, meinað að koma fram landskjörslista. Ég efa ekki, að ef kommúnistum og nazistum, sem eru byltingasinnaðir flokkar og sennilega hafa menn í kjöri, væri meinað jafnrétti við hinna flokkana um að koma fram landslista, þá mundu þeir græða á því við kosningar. — Þá er í öðru lagi skýrt ákvæði um það í frv., að kjósandi megi greiða atkv. annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða á landslista. En í brtt. kemur ekki skýrt fram, hvernig þetta skuli vera. Menn þykjast jafnvel geta skilið þetta svo í brtt., að í kosningal. megi setja ákvæði um, að kjósandi megi gera hvorttveggja. Ákvæðið er skýrt í frv., en óákveðið í brtt.

Þá er ákvæðið um röðun á landslistann skýrt í frv. Ég hefi nú heyrt á hv. 3. landsk., að hann ætlist til, að þetta sé eins í brtt. En orðalagið er þó miklu ógleggra. (JakM: Það verður í samræmi við venjulegar hlutfallskosningar). Eftir brtt. verður þetta tóm flækja. Á þessa lista raðast ekki fyrr en eftir að kosningaúrslit eru kunn. Hvernig á þá að raða á listann? Og hvað á að gera við þá frambjóðendur, sem bjóða sig fram undir því yfirskini, að þeir tilheyri einhverjum flokki? Geta þeir hnuplað flokksnafni handa sér til þess að ná kosningu, þótt þeir ætli sér ekki að fylla þann flokk? Og hvernig á að fara að, þegar tveir frambjóðendur eru fyrir sama flokk í kjördæmi og hvorugur kemst að? Hvor verður þá kosinn, ef annar þeirra getur hlotið uppbótarsæti? Allt þetta getur komið fyrir. Ákvæðin um þetta eru svo ljós í frv., að hvert mannsbarn skilur þau. En brtt. eru svo loðnar og óljósar, að erfitt er að segja um, við hvað þar er átt. Það eitt sýnir glöggt, hve mismunandi skilning menn leggja í brtt., að hv. 1. þm. Reykv. reynir að sanna, að þar sé eiginlega ekki um neinar efnisbreyt. að ræða, en hv. 3. landsk. telur það stórvægilegar umbætur á frv., ef brtt. verða samþ. Þegar þessa hálfgerðu samherja greinir svo mjög á um þetta, má nærri geta, hversu um þetta verður togazt í kosningal., þegar þau verða samin. — Ég endurtek þá ósk mína, að málið verði nú tekið af dagskrá, svo þm. gefist færi á að athuga þær brtt., sem fram eru komnar.