20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (4631)

112. mál, fasteignamat

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það er erfitt að mæta öllum þeim kröfum, sem til þingsins koma. Annarsvegar koma kröfur um það, að ríkið hjálpi með tillögum öllum þeim, sem erfitt eiga, og hinsvegar koma kröfur um að lækka tekjur ríkissjóðs, og hér kemur krafa um að lækka ríkisgjöldin á ýmsum, sem þó eiga einhverjar eignir.

Ég geri ráð fyrir því, að fasteignamatið hafi jafnan verið svo sanngjarnt, að fasteignaskatturinn hafi aldrei orðið meiri en ríkið í rauninni átti kröfu til. Við síðasta mat átti að koma nokkur lagfæring á þetta, enda höfðu eignir hækkað stöðugt í verði, og þó að eignir hafi nú lækkað í verði svo nokkru nemi síðustu 2- 3 árin, þá þori ég að fullyrða, að það mat, sem skatturinn nú er heimtur eftir, sé yfirleitt ekki ofan við sölugengi eignanna. Skattanefndin taldi t. d., að húseignir hér í Rvík og í Hafnarfirði hafi ekki yfirleitt verið metnar til fasteignaskatts meira en 70% af hinu mögulega söluverði, þó að kannske megi nefna einstaka undantekningar, en hjá slíku verður aldrei komizt.

Til þess að kippa því í lag, að menn borgi af tíföldu verði, sem er mjög sjaldgæft, ef það á sér stað í nokkrum tilfellum, þá mætti setja nýja reglu um það, að menn eigi kröfu til endurmats, en þá yrði að koma á móti, að ríkið ætti einnig á þessu 10 ára tímabili kröfu til endurmats, þegar eignir hafa hækkað í verði. Eins og nú er komið, er það tap fyrir ríkið, þegar um verðhækkun er að ræða, af því hvað matstímabilið er langt, og þurfa skattgreiðendur þá ekki að kvarta yfir því, að þá sé hart að þeim gengið. Ég verð því að leggja á móti þessu frv. Fasteignaskatturinn er ekki hár í okkar landi. Þó að skatturinn nemi 360- 370 þús. kr. á ári af öllum fasteignum í landinu, þá verður það ekki talið ýkjamikið. Ef við berum okkur saman við nágrannaþjóðir okkar, þá eru fasteignir þar allt að því eini tekjustofninn, eins og t. d. í Englandi. Það er hvergi nærri komið í það horf hjá okkur, og hygg ég, að ekki séu tímar nú til að lækka fasteignaskattinn og lækka skatta á þeim, sem þó eiga helzt að vera megnugir að greiða skatta, fyrir þær sakir, að þeir eiga eignir, sem að baki standa. Þegar kröfur koma um að hjálpa þeim, sem erfitt eiga, verður ekki mögulegt að lækka gjöldin á þeim, sem eignir eiga.