29.03.1933
Neðri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (4659)

115. mál, áfengislög

Vilmundur Jónsson:

Eftir því sem mér hefir skilizt á ræðu hv. aðalflm. (JAJ) munu höfuðástæðurnar fyrir flutningi áfengislagafrv. vera þessar:

Í fyrsta lagi: Að bannið hafi yfirleitt gefizt ákaflega illa hér á landi.

Í öðru lagi: Að drykkjuskapur hafi aukizt mjög í landinu og sé orðinn svo mikill nú, að við það verði ekki unað.

Í þriðja lagi: Að æska landsins sé í mikilli hættu stödd af áfengisflóðinu.

Í fjórða lagi: Að heimabruggið leggi landið undir sig.

Í fimmta lagi: Að ríkissjóður missi af miklum tekjum, sem hafa megi af áfenginu og hann megi illa án vera.

Síðan gerir hv. flm. sér lítið fyrir og fullyrðir, að með því að afnema það, sem eftir er af bannlögunum og samþ. frv. það, sem hann flytur, ásamt 10 öðrum hv. þdm., þ. e. að leyfa að flytja inn og selja víðsvegar um landið til viðbótar því áfengi, sem nú er flutt inn og selt, hina brenndu drykki: brennivín, koníak, whisky og romm, verði öllu þessu, sem nú fer svo mjög aflaga að hans dómi, kippt í ákjósanlegt lag. Þá muni drykkjuskapur stórum minnka, og það telur hv. flm. vera aðalatriðið fyrir sér, heimabruggið hverfa, ungu kynslóðinni verða borgið o. s. frv., o. s. frv.

Ég vil nú leitast við að athuga og gaumgæfa öll þessi atriði, sem hv. þm. hefir borið fram máli sínu til stuðnings.

Fyrst er þá það, að bannið hafi gefizt illa. Þar til vil ég svara því, að í raun og veru hefir bannið aldrei verið reynt hér á landi. Þegar bannlögin voru sett í upphafi, börðust bannmenn fyrir algerðu innflutningsbanni á hverskonar áfengi, en það var ófáanlegt fyrir andstæðingunum. Ýmiskonar undanþáguákvæði voru leidd í lög: Læknabrennivínið, konsúlabrennivínið og loks kom Spánarvínaundanþágan. Það ástand, sem við eigum nú við að búa í áfengismálunum, er því ekki það, sem bannmenn æsktu eftir fyrir 1915, heldur miklu fremur það, sem andbanningarnir óskuðu. Það var aldrei krafa þeirra, að leyfa skyldi innfl. á öllum tegundum áfengis, eins og farið er fram á í þessu frv. Þeir voru fúsir til að banna innflutning á öllum sterkari tegundunum, brenndu drykkjunum, ef leyfður yrði innflutningur á hinum léttari drykkjum. Þeir vildu láta flytja inn hin „hollu, suðrænu vín“, eins og þeir orðuðu það, einmitt Spánarvínin, sem nú er leyfður innfl. á og eru ekki í miklum hávegum höfð. Þá héldu þeir, að allt mundi ganga að óskum. Við höfum því nú að undanförnu búið við það fyrirkomulag, sem andbanningarnir kusu, þegar bannlögin voru sett, en bannmennirnir vöruðu við. Fullkomin bannlög að ráði bannmanna höfum við aldrei reynt, og getum því ekki um málið dæmt á þeim grundvelli.

Hinsvegar mun varla vera ágreiningur um það, að meðan bannið var eindregnast og undanþágurnar fæstar, hafi ástandið í áfengismálunum verið bezt. Það geri ég ráð fyrir, að jafnvel hv. flm. játi. Ef við berum saman áfengisneyzlu Íslendinga fyrir bannið og áfengisneyzluna nú, þá er þó þrátt fyrir allt minna drukkið nú og raunar minna hér en í nokkru öðru landi í heiminum, og er þetta staðfest af hv. flm. sjálfum. Samkv. opinberum skýrslum drekkum við nú, eftir því sem hv. flm. segir og rétt mun vera, ½ lítra á mann á ári af löglegu áfengi (miðað við hreinan vínanda). Síðan gizkar hann á, að drukkið sé sem nemur Í lítra á mann af ólöglegu áfengi, sem er auðvitað sagt út í loftið og farið eins langt og hv. flm. getur framast borið upp í sig. Eftir því ætti þá áfengisneyzla hér á landi að vera samtals 1½ l. á mann, sem má heita lágmark þess, er þekkist í nokkru landi um löglega áfengisnautn, að slepptu öllu smygli og ólöglegu bruggi, sem alstaðar viðgengst. Þótt við gengjum út frá, að hv. flm. áætlaði þetta rétt, - sem auðvitað er fjarri öllum líkindum - , þá fer það ekki heldur fram úr því, sem skýrslur herma, að drukkið hafi verið fyrir bannið. Og enginn þarf að hugsa sér, að ekki hafi þá verið smyglað miklu að auki, ekki síður en nú, sem geta má nærri, þar sem tolleftirlit þekktist þá alls ekki.

Mér er kunnugt um, og öðrum eflaust miklu betur en mér, að fyrir bannið var mikið flutt inn af áfengi, sem hvergi kom á skýrslur. Stórar verzlanir höfðu jafnvel fyrir sið að flytja mikinn hluta af áfengi sínu sem skipskost - „proviant“ - á vörufl.skipum sínum. Af skipskostinum þurfti ekki að greiða toll. Og ekkert kom auðvitað á skýrslurnar, nema það, sem tollur var greiddur af. Þannig voru flutt inn í landið heil „uxahöfuð“ af hreinum vínanda, og var slíkt opinbert leyndarmál. Til dæmis um þann „móral“, sem var ríkjandi í áfengisverzlun þeirra tíma, kann ég ýmsar kátlegar sögur. Menn, sem við verzlanirnar störfuðu, höfðu það til að stela heilum tunnum af þessu smyglaða áfengi og velta heim til sín. Þeir vissu hvernig þess hafði verið aflað og gerðu ekki ráð fyrir mikilli rekistefnu, þó að upp kæmist. Er alkunn sagan um faktorinn, sem mætti þjóni sínum á leiðinni með tunnuna og sagði : „Jú annars - er þetta ekki of mikið í einu?“

Engum blandast hugur um, að bannlögin hafi verið mjög ófullkomin frá upphafi, en því eftirtektarverðara er það, að drykkjuskapur í landinu skuli engu síður hafa stórum minnkað þrátt fyrir allan þeirra ófullkomlegleika, allar undanþágurnar, mjög lélegt eftirlit, og undir gerbreyttum kringumstæðum í landinu, sem hlutu að leiða til aukinnar áfengisnautnar að öllu sjálfráðu. Það sýnir bezt, hvers fullkomin bannlög og röggsamlega framkv. væru megnug. Nú vinnur fjöldi af einhleypingum, körlum og konum, í bæjunum fyrir sæmileg laun. Það er þessi stétt manna, sem eyðir mestu til óþarfa. Og þessi stétt gat ekki heitið að vera til áður. En það eru fleiri en einhleypingarnir, sem hafa nú yfir meiru fé að ráða en áður var. Öll peningavelta í landinu hefir aukizt stórkostlega síðustu tvo áratugina, lifnaðarhættir gerbreytzt og eyðsla margfaldazt í hverri grein, einkum í bæjunum. Veizluhöld og samkvæmislíf er orðið almennara. Drykkjusiðir finni og meira aðlaðandi, einnig fyrir konur, og þarf ekki annað en að minna á kaffihúsalífið hér í Rvík, sem áður var óþekkt. En þrátt fyrir allt þetta er nú drukkið minna af áfengi en fyrir bannið og minna en nokkursstaðar annarsstaðar í heiminum. Er því furðulegt, að menn, sem ekki er kunnugt um, að séu sérstaklega viðkvæmir í þessum efnum, skuli tala um, að ástandið í áfengismálunum hér á landi sé svo illt, að réttlætanlegt sé að leggja út í glæfralegar tilraunir til þess að fá úr því bætt, eins og gert væri með samþykkt þessa frv.

Þær fullyrðingar, sem ýmsir hafa borið sér í munn um óstjórnlegan drykkjuskap hér á landi, ná engri átt, þó að enginn finni betur til þess en ég, að full þörf er á, að ástandið væri betra. Þessu til frekari sönnunar skal ég vitna í heilbrigðisskýrslurnar fyrir 1931, sem ég er nú að gefa út. Eru þær teknar saman eftir skýrslum héraðslækna víðsvegar um land. Minnast þeir margir á ástandið í landinu að þessu leyti, enda telst það réttilega til heilbrigðismála. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp umsagnir læknanna, er hér að lúta. (BSt: Líka það, sem Steingrímur Matthíasson segir!). Ég skal taka allt, undantekningarlaust, sem læknarnir hafa að segja um áfengisneyzluna í landinu. Þeim farast orð á þessa leið:

Hafnarfjarðarhérað: Áfengisnautn er hér ekki á háu stigi.

Skipaskagahérað: Áfengisnautn ekki mikil.

Borgarfjarðarhérað: Talsvert er farið að bera á vínnautn ungra manna, einkum á skemmtisamkomum.

Ólafsvíkurhérað (læknirinn þar á sæti hér á þingi): Áfengisnautn í héraðinu má teljast lítil.

Flateyjarhérað: Drykkjuskapur enginn.

Flateyrarhérað : Áfengisnautn er hér lítil, vegna þess að áfengi er svo sjaldan fáanlegt.

Hesteyrarhérað: Áfengisnautn getur ekki talizt nein meðal innanhéraðsmanna.

Hólmavíkurhérað: Áfengisnautn lítil í héraðinu, og drykkjuskapur þekkist ekki.

Höfðahverfishérað: Áfengisnautn lítil.

Húsavíkurhérað: Eitthvað um drykkjuskap, en ekki áberandi.

Þistilfj.hérað: Áfengisnautnar verður lítið vart.

Vopnafjarðarhérað: Áfengis ekki neytt hér svo teljandi sé.

Hróarstunguhérað: Ekki áfengisnautn svo að orð sé á gerandi.

Reyðarfjarðarhérað: Vínnautn allmikil.

Berufjarðarhérað: Áfengisnautn fer frekar í vöxt.

Síðuhérað: Vínnautn er hér lítil.

Mýrdalshérað: Áfengisnautn hefir aukizt til muna að undanförnu.

Rangárhérað: Áfengisnautn töluverð.

Eyrarbakkahérað: Drykkjuskapur er lítill sem enginn meðal héraðsbúa.

Grímsneshérað: Vínnautn lítil.

Keflavíkurhérað: Áfengisnautn er töluverð og sérstaklega áberandi á skemmtunum.

Þetta er álit læknanna um drykkjuskapinn í landinu, þegar þeir semja opinberar skýrslur. Ég hygg, að ekki þurfi að væna þá um, að þeir séu vilhallir af fylgi við stefnu bindindis og bannmanna. Steingrímur Matthíasson, sem einhver var að minnast á áðan, nefnir drykkjuskap ekki á nafn í skýrslu sinni til landlæknis. Hann mun hinsvegar eitthvað hafa skrifað um það efni í blöð.

Hv. flm. benti sérstaklega á eitt land til samanburðar, til þess að sýna, hversu illa bannið hefði reynzt erlendis. Þetta land var Kanada. Ég ætla af því tilefni að fara dálítið lengra út í þá sálma og drepa á, hvernig reynslan varð þar í landi, eftir að bannlögin voru afnumin, með því að það er einkar lærdómsríkt í þessu sambandi.

Sannleikurinn um reynslu Kanada af áfengisbanni er sá, að þar var bann, svo að heitið gæti bann, aðeins í 21 mánuð, þ.e. frá 1. marz 1918 til 1. jan. 1920. Þó var þetta ekki fullkomnara bann en svo, að í Quebeq mátti selja 6% öl og 15% vín. Í öðrum landshlutum var bannið fullkomnara, en þó engan veginn í samræmi við hugmyndir og kenningar bannmanna. Að vísu var bannað að selja áfengi og drekka áfengi, en hinsvegar hvorki bannað að brugga áfengi né flytja það inn eða út. Þegar þessi 21 mánuður var liðinn, var þetta bann smátt og smátt afnumið fyrst í einum landshluta og síðan í öðrum. Eftir það var ógerningur að halda nokkru banni uppi í landinu yfirleitt, einkum fyrir það, að ekki var bannað að brugga áfengi né flytja það úr einum landshluta í annan. Og bannið var að fullu afnumið. Eitt fylkið hafði þó sérstöðu í þessu. Það er eyja og á því hægara með að verjast innflutningi áfengis. Þar hefir verið bann síðan 1921, og lánast eftir atvikum vel. Ég get um þetta af því, að í þessu efni er líkt á komið fyrir okkur Íslendingum, sem búum á eyju langt frá öðrum löndum.

Nú er lærdómsríkt að virða fyrir sér áfengisneyzluna í Kanada, eftir að bannið var afnumið. Ég hefi hér í höndum skýrslu um þetta efni, sem tekin er eftir opinberum hagskýrslum Kanadaríkis (Dominion Bureau of Statistics) um drykkjuskap þar í landi eftir að bannið var afnumið. Og gefur nú á að líta, hve heillavænlegur árangurinn varð.

(Tölurnar sýna gallónafjölda af hverskonar áfengi: öli, vínum og brenndum drykkjum):

1923 .............. 38283727

1924 .............. 44029694

1925 .............. 48629625

1926 .............. 52478025

1927 .............. 53067289

1928 .............. 61432900

1929 .............. 70449110

1930 .............. 72478421

Drykkjuskapurinn hefir þannig í stað þess að minnka, aukizt á þessum 8 árum um 89,3%. Það má vel vera rétt hjá hv. flm., að bannið í Kanada hafi gefizt illa, en það hefir auðsjáanlega gefizt enn verr að afnema það.

Það er eftirtektarvert fyrir okkur, að þegar bannið var afnumið í Kanada, var hið sama látið í veðri vaka þar og nú er borið fram hér, að koma ætti fullkomnara skipulagi á áfengismálin og halda áfengisnautninni í skefjum. Um þetta lét Henry Drayton, formaður áfengisráðsins í Kanada svo um mælt: „Pólitík stjórnárinnar hefir verið og verður sú, að halda áfengissölunni í skefjum“. En það hefir því miður tekizt svo hörmulega sem skýrslurnar sýna.

Til þess að leiða í ljós, að það er ekki eingöngu neyzla öls og léttari vína, sem aukizt hefir í Kanada, síðan bannið var afnumið þar, heldur einnig neyzla brenndu drykkjanna, skal ég nú þessu næst lesa upp skýrslu eftir sömu heimild, sem sýnir, hve mikils af brenndum drykkjum Kanadabúar hafa neytt á árunum 1923- 1930.

Sú skýrsla hljóðar þannig:

1923 ...... 1734779 gallónur

1924 ...... 1757972 -

1925 ...... 1599654 -

1926 ...... 1611711 -

1927 ...... 1836970 -

1928 ...... 2777067 -

1929 ...... 3130119 -

1930 ...... 3036755 -

Aukning á neyzlu brenndu drykkjanna er því hvorki meira né minna en 75% á þessum 8 árum.

Eftir að bannið var afnumið, hefir ríkisstjórnin - en hún hefir áfengissöluna með höndum - þó gert allt, sem hún hefir getað til þess að halda neyzlu brenndu drykkjanna í skefjum, með því að halda þeim mjög dýrum og að hafa á boðstólum mikið af áfengu öli, sem ýmsum hv. þm. hér á Alþingi þótti svo mikið þjóðráð í fyrravetur. Þetta öl var ásamt léttum vínum selt mjög ódýrt. Og til þess að það gengi enn betur út, voru settar á stofn aðlaðandi ölstofur með skrautlegum húsgögnum og hverskonar þægindum. Þar var ölið selt og léttu vínin, en brenndu drykkirnir naumast fáanlegir. Árangurinn varð sá, að neyzla öls og léttra vína jókst stórkostlega, en neyzla brenndu drykkjanna því miður líka um 75%.

Hv. flm. tilnefndi annað land, sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar í áfengismálunum. Það var England. Hann sagði, að þar hefðu viðburðirnir og framfarirnar á þessu sviði verið æfintýri líkast, því að á þeim árum, sem við hefðum haft hið hættulega áfengisbann, hefði drykkjuskapur á Englandi án allrar slíkrar þvingunar minnkað stórkostlega. Þetta er satt. En það kemur til af því, að í Englandi var drykkjuskapurinn svo ægilega mikill og óstjórnlegur, að við eigum erfitt með að gera okkur hugmyndir um. Og það er hægara að minnka drykkjuskap úr óhóflegu gegndarleysi niður að vissu marki, heldur en að færa niður áfengisneyzluna eftir að hún er komin niður í það lágmark, sem hún er í með okkur.

Þetta æfintýri, sem hv. þm. segir, að hafi gerzt í Englandi, er sem sé það, að þar er nú, eftir allar framfarirnar, og eftir því, sem hann upplýsir sjálfur, drukkið árlega sem nemur 2 gallónum af hreinum vínanda á hvern mann í landinu, frá barninu í vöggunni til öldungsins á grafarbakkanum. Það mun jafngilda 9 lítrum af hreinum vínanda, eða 18 lítrum af venjulegu brennivíni, eða 36 lítrum af Höskuldi, eftir því sem blöðin segja nú frá styrkleika þeirrar framleiðslu. Það svarar til 1½ tunnu af Höskuldi á hverja 5 manna fjölskyldu.

En af því að svo fáar fjölskyldur hér á landi hafa áfengi um hönd, mundi áfengisneyzlan í Bretlandi jafngilda þeirri Höskuldarnautn hér, jafnað niður á þær fjölskyldur, sem á annað borð snerta við áfengi, að það nálgaðist hæfilega mjólkurneyzlu. Gegnir furðu, að nokkrum skuli detta í hug að benda á slíkt til fyrirmyndar. Eigum við, bindindissamasta þjóðin í veröldinni, að hverfa frá löggjöf okkar og taka upp siði þess lands, sem áfengisbölið leikur einna gráast allra landa? Slíkt væri fyrirgefanlegt að ráðleggja, ef Íslendingar væru þjóða verstir í þessum sökum, en nær ekki neinni átt eins og enn horfir. Englendingar og flestar aðrar þjóðir geta hér lært af okkur, en við ekki af þeim.

Eina höfuðorsökina til þess að vilja afnema það, sem eftir er af bannlögunum, sér hv. flm. í því, að unga fólkið sé í hættu statt. Hann segir, að hverskonar bann espi það jafnan til mótþróa og afbrota. Það þyrsti í áfenga drykki vegna bannsins. Ef hverskonar bönn gera unga fólkið að afbrotamönnum, ferst okkur illa við unga fólkið. Þó að við förum ekki nema í gegnum dagskrána í dag, þá rekum við okkur alstaðar á eitthvað, sem við erum að banna. Ég efast líka mjög mikið um, að hv. flm. séu reiðubúnir til þess að hætta að beita hverskonar banni við ungt fólk. Áfengislagafrv., sem þeir flytja, ber þeim ekki vitni um það. Það gengur einmitt sérstaklega nærri unga fólkinu. Þeir vilja banna að selja áfengi yngra fólki en 21 árs. Ætla hv. flm. að halda því fram, að slíkt hann espi ekki unga fólkið til lögbrota? Ég hygg einmitt, að það sé sérstaklega sniðið til þess. Unga fólkið þolir áreiðanlega betur, að því sé bannað það, sem öllum er bannað, en að búa eitt við bannið. Og munu dæmin sanna það.

Reynslan í Kanada hefir leitt í ljós, að unga fólkið drakk að vísu áður en bannið var afnumið, en þó helmingi meira eftir að það var afnumið. Í Ontario neyddust menn þess vegna til, eftir að bannið var afnumið, að grípa til sérstaks banns fyrir unga fólkið. Fyrst var bannað að selja mönnum innan 21 árs aldurs áfengi - og þegar það ekki dugði var aldurstakmarkið fært upp í 25 ár.

Í Bandaríkjunum er kennarafélag, sem nær yfir öll ríkin og heitir „National Educational Association“. Það nýtur mikils álits meðal uppeldisfræðinga víða um heim. Er ekki fjarri sanni, að þeir menn, sem það félag skipa, muni öðrum fremur fara nærri um, hvað hollt er ungum mönnum, þegar um þessi mál er að ræða. En það er margyfirlýst skoðun þessa félags, og verður ágreiningur um það minni og minni með hverju árinu sem líður, að banninu í Bandaríkjunum eigi umfram allt að viðhalda vegna unga fólksins.

Hér á Íslandi væri einnig ráðlegt að leita álits þeirra manna, sem fást við uppeldismálin, kennaranna, og mun það e. t. v. verða gert bráðlega. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að meiri hluti þeirra myndi leggja til, að hert yrði á banninu í stað þess að afnema það - vegna unga fólksins.

Því verður ekki neitað, að bruggað er í landinu, svo að allt of mikið kveður að. En þó er of mikið úr því gert. Og er ekki grunlaust um, að bruggunarfregnir séu auknar, margfaldaðar og bornar út af bannandstæðingum, til framdráttar skoðunum þeirra í áfengismálunum. Get ég sagt skemmtilega sögu, sem sýnir, hvernig fregnirnar reynast, þegar þær á að sannprófa. Maður, sem er viðstaddur hér í deildinni, ættaður úr Skagafirði, gerði sér mikið far um að komast að raun um, hvort eins mikið væri bruggað þar eins og af væri látið. Því hafði verið haldið fram, að þar væri bruggað á öðrum hverjum bæ. Hann stóð vel að vígi til að rannsaka þetta, þar sem hann var þaulkunnugur í héraðinu. En reynslan varð sú, þegar nær var gengið - ja, þá var að vísu mikið bruggað í Skagafirði, víst á öðrum hverjum bæ, en það var ekki hérna megin við vötnin, heldur hinum megin. En þegar komið var yfir vötnin, þá var víst um það - jú, það var bruggað mikið í Skagafirði, sennilega á öðrum hverjum bæ, en það var ekki þeim megin við vötnin, heldur hinum megin. Nú vildi hann fá sérstakan bæ tilnefndan, þar sem bruggað væri, og þegar hann fór að ganga á menn um það, þá var honum loksins nefndur sérstakur bær. En þegar til kastanna kom, þá var að vísu ekki bruggað á þeim bæ, heldur var það maður þaðan, sem fékkst við bruggun, en hann var úti á Sauðárkróki, sá maður. Um Húnavatnssýsluna hefir einn hv. þdm. sömu söguna að segja. Bruggið flýði á undan honum eða færðist aftur fyrir hann allt eftir því, hvar hann var staddur í sýslunni! Og heim fór hann, sannfærður um, að það væri ekki eins mikið og úr væri gert.

Víst tek ég undir það með hv. flm., að koma þurfi í veg fyrir bruggið. En ég er sannfærður um, að ef ógerningur er að uppræta bruggið nú, þá verður það ekki hægara, heldur margfalt erfiðara, og raunar fullur ógerningur, ef leyfður verður innflutningur sterkra drykkja. Þegar útsala er á sterkum drykkjum í sama þorpinu eða í næsta þorpi verður allt eftirlit með því, hvort bruggað er eða ekki, óframkvæmanlegt. Það er blátt áfram hlægilegt að halda því fram, að menn muni ekki vilja brugga, eftir að auðvelt er að ná í sterka drykki á annan hátt, vegna þess að menn séu svo ærukærir! Sér er nú hver trúin á æru bruggaranna. Menn brugga til þess að afla sér peninga, og ef hægt er að brugga og selja bruggið ódýrara heldur en erlendu drykkina, þá heldur bruggið áfram. Það er einfalt verzlunarlögmál. Í þessu sambandi má enn benda á þá reynslu, sem fengin er í Kanada. Þar var bruggað áður en bannið var afnumið og þar er enn bruggað eftir að bannið hefir verið afnumið. Hinir löglegu áfengissalar í Bandaríkjunum höfðu félagsskap með sér fyrir bannið þar og gáfu út sérstakt málgagn til að gæta hagsmuna sinna. 10 árum fyrir bannið birtu þeir skýrslur um, að í Chicago einni væru 7000 ólöglegir áfengissölustaðir og í Minneapolis 4000. Þetta var fyrir bannið. Sama er uppi á teningnum nú í Kanada, eftir að bannið hefir verið afnumið þar. Ýmsar ástæður liggja til þess, að hægt er að koma við bruggi og smygli í Kanada. Vínbúðir stjórnarinnar eru þar opnar aðeins frá kl. 10- 6 og lokaður á sunnudögum, frídögum og kosningadögum. Vanti nú einhvern áfengi eftir kl. 6 að kvöldi eða á lokunardögum, þá er opin leið til ólöglegu vínsalanna, enda leika þeir sér að því bruggararnir þar að keppa 100%.

Til smekkbætis má geta þess, að í Montreal, sem er frjálslyndasta borg í Kanada í áfengismálunum og hefir 1 millj. íbúa, eru 1500 áfengisútsölustaðir, og samsvarar það því, að hér í Reykjavík væru 45 brennivínsbúðir. Þar eru engar takmarkanir, allir geta fengið þá víntegund, sem þeir vilja og eins mikið og þeir vilja - en samt er bruggað þar. Við gætum hugsað okkur, að hér í Rvík væru 4 útsölustaðir við Austurvöll, svo sem sérstaklega fyrir fína fólkið, 4 við höfnina fyrir sjómenn og verkalýð, einn í grennd við hvern skóla fyrir hina upprennandi kynslóð: við háskólann, menntaskólann, sjómannaskólann, gagnfræðaskólann, verzlunarskólann, samvinnuskólann, iðnskólann, kvennaskólann og vélstjóraskólann, það eru samtals 9 útsölustaðir fyrir skólana. Svo geri ég ráð fyrir, að Frímúrarar og Oddfellowar hefðu sína búðina hvor. Víðsvegar um Austurbæinn væru 10 og víðsvegar um Vesturbæinn 10. Fyrir úthverfin, Skildinganes, Grímsstaðaholt, Nesið, Sogin, Laugarnesið, Öskjuhlíðina, svo að íbúarnir þar þyrftu ekki að gera sér erfiðar ferðir í bæinn, 6 útsölustaðir. Þá hefir 45 útsölustöðum verið raðað niður í Reykjavík, og svarar þetta til 1500 útsölustaða í Montreal. Og samt gæti brugg þrifizt í Reykjavík. Því að í Montreal er bruggað á ólöglegan hátt í stórum stíl, og get ég komið með nokkur dæmi því til sönnunar.

19. janúar 1931 var gert upptækt bruggunartæki, sem brugga mátti í 300- 350 gallónur á dag, og auk þess 530 gallónur af fullbrugguðu áfengi, 1000 gallónur af ekki fullbrugguðu áfengi og 6 ámur af áfengisvökva í gerjun, og tók hver áma 4000 gallónur.

30. janúar sama ár var gert upptækt bruggunartæki, sem brugga mátti í 400 gallónur á dag, og 8 ámur með áfengisvökva, og tók hver áma 4000 gallónur.

31. marz sama ár var enn gert upptækt bruggunartæki með 8000 gallónum af vínanda í og 4 ámur með áfengisvökva, sem hver tók 2000 gallónur.

5. júní sama ár komst upp um stórkostlega bruggun á St. Lawrence Boulevard. Mér skilst, að það muni vera höfuðgatan í bænum og svarar sennilega til Laugarvegarins hér.

Dæmin sýna því ljóslega, að þó að svo greiður aðgangur sé að áfengi sem mest má verða, er engu síður bruggað stórkostlega af leynibruggurum.

Þá er eftir að minnast á tekjur ríkissjóðs. Ég dreg það ekki í efa, að ríkissjóði sé þörf tekna, og tel vist, að þetta gæti orðið stórkostleg tekjulind, enda er það hið eina, sem stenzt af röksemdaleiðslum hv. flm. En ég tel það aftur á móti ekki sæmandi að afla ríkissjóði tekna á þennan hátt og fer því alls fjarri. Í Kanada, svo að ég taki dæmi af því enn, hefir ríkissjóður 50 milljónir dollara tekjur af áfengi. En athugum, hvaða afleiðingar þetta hefir haft fyrir þjóðina, ef borin eru saman árin 1923 og 1930:

Fólksfjöldi. . . . hefir aukizt um 10%

Áfengisnautn - - - 80 -

Neyzla hreins vínanda - 105 -

Ölvunarbrot - 51 -

Áfengislagabrot - 92 -

Flakk og óregla - 115 -

Ill meðferð barna - 115 -

Ýms smærri brot - 153 -

Ofbeldisverk og meiðingar - 91 -

Rán og þjófnaður - 18 -

Aðrir stórglæpir - 77 -

Í Ontario var á fjárhagsárinu 1929- 30 neytt áfengis fyrir 55 millj. dollara. En á fjárlögum 1929- 30 var veitt :

Til kennslumála ....... 117740000.-

- barnaverndar ...... 288000.-

- ellistyrkja ......... 6572000.-

- mæðrastyrkja ...... 2369000.-

- heilbrigðismála ..... 880000.-

- opinberra stofnana

(spítalar meðtaldir) 8025000.-

- þjóðvega .......... 17900000.-

Með öðrum orðum: Ontario eyddi 7500 þús. dollurum meira í áfengi en í allt þetta, sem talið var, til samans.

Ef hægt er að draga lærdóma af reynslu annara þjóða um þessi efni, þá ætla ég, að þessar skýrslur séu lærdómsríkar. Afnám bannsins hefir haft þau áhrif í Kanada, eða a. m. k. ekki hindrað það, að áfengisnautnin hefir aukizt um 80% í stað þess að minnka, og dregið venjulega dilka á eftir sér.

Áfengisnautn minnkaði mikið í Englandi á stríðsárunum fyrir margvíslegar hömlur, sem á áfengisframleiðsluna og áfengissöluna voru lagðar. Bjórdrykkjan minnkaði þannig niður í þriðjung, nautn sterkra drykkja um helming, en víndrykkjan hélzt svipuð. Á þessum árum fóru ölvunarafbrotin minnkandi eins og hér segir:

1913 voru þau 188877

1914 - - 183628

1915 - - 135811

1916 - - 84191

1917 - - 46410

1918 - - 29075

en 1919 aukast þau aftur upp í 57948, því að þá voru hömlurnar leystar, sem settar höfðu verið til hnekkis áfenginu á stríðsárunum.

Ráða má í áhrifin á almenna heilbrigði af eftirfarandi yfirliti, sem er einnig frá Englandi og um sama tímabil:

Dauði úr áfengiseitrun og lifrarbólgu var árið 1913 5711, en 1918 1967. Sjálfsmorð og sjálfsmorðstilraunir

1913 2446, en 1918 810.

Ungbarnamorð og fæðingar í dulsmáli 1913 1226, en 1918 557.

Drykkjuæði 1913 786, en 1918 32.

Söm hefir reynslan orðið í Kanada að þessu leyti. Áfengisdauðinn, beinasta afleiðing drykkjuskaparins, sem skýrustu máli talar, þó að hún sé engan veginn þýðingarmest, eykst þar nú aftur með ári hverju:

1921 . .. . . . 12‰ allra mannsláta

1922 ...... 13‰ - -

1923 ...... 17‰ - -

1924 ....... 18‰ - -

1925 ...... 19‰ - -

1926 ...... 22‰ - -

1927 ...... 23‰ - -

1928 ....... 24‰ - -

1929 ...... 28‰ - -

eða gerir meira en að tvöfaldast á 8 árum.

Af þessu má renna grun í, að þótt ríkissjóður fái rífari tekjur af áfengisnautninni með því að afnema það, sem eftir er af banninu, þá verði sá tekjuauki ekki fenginn fyrir ekki neitt. Gjaldamegin skrifast aftur stórkostlega aukinn drykkjuskapur, slys, fár og sjúkdómar, meiri manndauði, almennari og sárari fátækt, meiri sveitarþyngsli, aukinn ólifnaður, fleiri glæpir og hverskonar basl, hörmungar og vandræði.

Hv. þdm. verða að viðurkenna, að þó að ástandið sé ekki gott nú, þá er það þó betra heldur en það var áður en banninu var á komið og getur vel orðið verra. Þeir, sem hafa búizt við Paradísarástandi með banninu, hafa eðlilega orðið fyrir vonbrigðum, enda var það glópska að ætla sér að þurrka landið með banni á svipstundu, og að vísu mátti alltaf búast við, að bannleiðin yrði skrykkjótt leið. En það er þó sú leiðin, sem fara verður og lengst dregur. Á öðrum leiðum fer allt í kaf.

Ég vil leggja hv. þdm. það enn og aftur á hjarta, að þrátt fyrir allt, sem aflaga fer hjá okkur í þessum efnum, ber okkur enn engin nauðsyn til að leggja út í nein æfintýri í áfengismálunum. Meðan við drekkum minnst af öllum þjóðum í heiminum, getum við ekki horft með neinni sérstakri aðdáun upp til neinnar þjóðar fyrir það, hve henni hafi tekizt að halda niðri drykkjuskap hjá sér. Og sízt til þeirra þjóða, sem neyta svo óstjórnlega mikils áfengis, að okkur sundlar beinlínis af að heyra, hve stórkostleg áfengisneyzlan er. Ég vil og mega vænta þess, að hv. þm. sansist á, að það er ósæmileg tekjuöflunaraðferð, að ætla að afla ríkinu tekna af öllum þeim hörmungum, sem aukin áfengisnautn hefir í för með sér.

Að lokum vil ég taka undir það, sem kom fram í ræðu hv. þm. Borgf., að þar sem bannið var sett á með þjóðaratkvæði, er óhæfilegt að afnema það að fullu, án þess að þjóðaratkv. hafi áður gengið í málinu. Ég legg þó enga höfuðáherzlu á þetta. Þjóðaratkvæði er engin röksemd. Þm. eiga auðveldlega að geta sannfærzt um, að hér er verið að stefna frá því ástandi, sem að vísu er allillt, í annað, sem verra er, og það er kappnóg til að átta sig á, hverja stefnu á að taka.

Í áframhaldi af því, sem ég hér hefi sagt, leyfi ég mér að bera fram svofellda rökstudda dagskrá:

Neðri deild Alþingis skírskotar til þess,

1. að meðan áfengisbannið var fullkomnast, var drykkjuskapur áreiðanlega minnstur í landinu,

2. að með hverri tilslökun hefir drykkjuskapur aukizt,

3. að þrátt fyrir allt er drykkjuskapur minni á Íslandi en í nokkru landi, þar sem ekki er bann,

4. að ef það, sem eftir er af banninu, væri að fullu afnumið, mundi mikil hætta á, að drykkjuskapur margfaldaðist,

5. að ósæmilegt er að afla ríkissjóði tekna með innflutningi sterkra drykkja, sem leiðir til aukinnar áfengisnautnar og meðfylgjandi hörmunga fyrir land og lýð,

6. að óverjandi er að afnema bannið að fullu, án þess að bera það undir þjóðaratkvæði, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.