29.03.1933
Neðri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (4682)

132. mál, bæjarútgerð Reykjavíkur

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég vildi nú strax geta þess, af því að mér er það kunnugt, að það er ekki samkv. ósk bæjarstj. Rvíkur, að þetta frv. er borið hér fram, heldur hefir verið farið á bak við hana með það, líklega til þess, ef það verður samþ., að nota það sem svipu á bæjarstj. til þess að knýja hana til að fara að gera út togara héðan úr Rvík á kostnað bæjarmanna, þegar skip þau, sem héðan hafa verið gerð út, ýmist eru að hverfa burt héðan eða að ganga úr sér með ári hverju, án þess að nokkur von sé til þess, að hægt sé að endurnýja þau með því að kaupa ný skip. M. ö. o.: Meðan svo standa sakir, að þessi atvinnugrein er að leggjast í rústir, að því er virðist. En eins og bæjarstjórnin er skipuð nú, þá mun henni ekki þykja fýsilegt að taka stór lán til þess að leggja í þesskonar fyrirtæki, taka við af borgurunum og halda starfseminni áfram með sama tapi, til þess svo að borga hallann með sköttum af bæjarmönnum gegnum bæjarsjóðinn.