27.02.1933
Neðri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu frv. Hinsvegar hafði ég gert ráð fyrir mótspyrnu gegn því frá hinum sömu hv. þdm., sem voru því andstæðir á síðasta þingi. En þrátt fyrir það vænti ég þess, að frv. fái sömu meðferð og afgreiðslu nú í þessari hv. þd. eins og það hlaut í fyrra. Upphaflega var til þess ætlazt af stj., að þessi l. ættu að gilda um óákveðinn tíma eins og venjulegt er um lög almennt, en í Ed. var þeirri breyt. skotið inn í frv., að það skyldi aðeins lögfest til eins árs, og verð ég að segja, að það er engin fyrirmynd að innleiða þá venju, þegar um tekjulöggjöf er að ræða, að þurfa að framlengja slík lög á hverju ári, þá verður allt í meiri óvissu um afkomu ríkissjóðs.

Hv. andmælendur þessa frv. þurfa ekki að ætla, að þessi skattur af bifreiðum o. fl. sé nokkurt einsdæmi hér á landi. Samskonar skattur hefir verið lögfestur í flestum nágrannalöndum okkar, og er hann þar, víðast hvar, miklu hærri en hér.

Hv. 2. þm. Reykv. gerði mikið úr því, að bifreiðafélögum hefði gengið mjög illa reksturinn á síðastl. ári, og taldi, að það stafaði af þessum skatti, en það eru aðrar ástæður fyrir því. Eftir því sem kreppan hefir harðnað, þá er miklu minna unnið að byggingum og öðrum framkvæmdum en áður var, og þess vegna hefir dregið mjög úr öllum flutningum. Ennfremur hefir mjög dregið úr skemmtiferðum manna um landið, og mun það hafa orðið tilfinnanlegast fyrir bifreiðafélögin. Þessi skattur er lagður á bifreiðar til endurnýjunar og viðhalds á vegakerfinu í landinu. Ef almenningur eða íbúar einstakra héraða vilja biðjast undan þessum skatti, þá verða þeir sömu aðilar jafnframt að hætta að biðja um auknar vegabætur og um fé til viðhalds vegunum. Þeir verða þá einnig að biðjast undan nýjum og bættum vegum. Þessar óskir verða að vera samferða.

Ég skal lítið segja um þær brtt., sem fram eru komnar við frv., en þó vil ég mælast til þess, að brtt. á þskj. 58 verði felld. Ég skal viðurkenna, að sumir læknar og ljósmæður hafa einkabifreið eingöngu vegna síns starfs, en það eru fleiri en læknar og ljósmæður, sem hafa bíla vegna þess starfs, sem þeir gegna, og mætti því á sama hátt undanþiggja þá þungaskatti í flokk einkabíla. Nei, þessi leið er hál, að veita einkabifreiðum lækna og ljósmæðra undanþágu frá þungaskatti. Hér er heldur ekki um svo tilfinnanleg útgjöld að ræða, og verður að gera ráð fyrir, að hlutaðeigendur geti greitt þau af launum sínum, sem til jafnaðar mega teljast vel viðunaleg.

Að því er snertir fyrirspurn hv. þm. N.-Ísf. um endurgreiðslu á benzínskattinum, er það að segja, að stjórnarráðinu hafa ekki borizt kröfur um það. Endurgreiðslur hafa ekki farið fram, af því að reglugerð hefir ekki verið sett um það, en ég skal heita því, að hún verði gefin út innan skamms.