01.06.1933
Efri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (4791)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Hafnf. gerði í rauninni ekki annað en að árétta það, sem hann sagði í fyrri ræðu sinni. Ég sagði, út af því, að hv. þm. hefir nú gengið inn á till. hv. landbn., að mér fyndist þm. lítilþægur. Þetta held ég, að ég geti staðið við. Hann fór fram á það upphaflega að fá þrjár landspildur, þar á meðal spildur þeirra Hermanns og Tryggva. En nú gengur hann inn á till. landbn., sem ekki tryggja Hafnfirðingum neitt land. Hv. þm. minntist á, að skiptingin á landinu færi eftir brtt. við 2. gr. En samkv. því, og í sambandi við 3. gr., sé ég ekki annað en að hlutur Hafnarfjarðar í þeim skiptum geti orðið rýr. Eftir orðalagi 3. gr. er n. ekki viss um, að Hafnarfjörður fái nokkurt land við þessi skipti.

Hv. þm. Hafnf. var að tala um velvilja Hafnfirðinga í garð Garðhverfinga, og þetta er rétt. Garðhverfingar hafa góðan markað fyrir mjólk sína í Hafnarfirði; þeir fá þar vinnu og senda börn sín þangað í skóla. Margt fleira mætti upp telja. En mér finnst, að það andi fremur köldu frá Garðhverfingum gegn þessum velvilja Hafnfirðinga. Mótstaða hv. 5. landsk. við það, að Hafnfirðingar fengju land til ræktunar, var byggð á mótmælum frá Garðhverfingum. Og í skjölum þeim, sem hv. 4. landsk. las upp, eru þeir að reyna að sanna, að þeir þurfi sjálfir að halda á öllu þessu landi.

Hv. þm. var að gera mér upp þær hvatir, að afstaða mín til þessa máls og annara, sem Hafnarfjörð snerta, væri framkölluð af persónulegum ástæðum, þar sem ég sæi í honum hættulegan keppinaut fyrir frambjóðanda míns flokks í Hafnarfirði. Ég skal láta þess getið, að ég flutti mál hér á þingi fyrir Hafnarfjörð löngu áður en ég heyrði getið um pólitísk afrek þessa hv. þm., og gat það ekki verið af persónulegum illvilja í hans garð.

Það, sem hv. þm. sagði um afstöðu bæjarstj., er vitanlega tómur útúrsnúningur. Það er auðvitað, að þegar bæjarstjóri lýsir því yfir opinberlega, að hann sé einhverju máli fylgjandi, þá má telja víst, að hann hafi að bakj sér meiri hl. bæjarstj. Og Hafnfirðingar hafa svo mikla þörf á landi til ræktunar, að engin hætta er á því, að þeir fylgi ekki því frv., sem lengst lengur í þá átt að útvega landnæði. Frv. á þskj. 138, sem ég flutti, er flutt í samráði við bæjarstjórann í Hafnarfirði og eftir beinni ósk hans. Og ég þykist vita, að þar hafi hann komið fram f. h. meiri hl. bæjarstj.

En mér þykir leitt, að hv. þm. skuli sætta sig við svo lélega afgreiðslu þessa máls og nú á að viðhafa, og teldi ég betra, að núv. ástand héldist óbreytt, en að till. landbn. yrðu samþ., því að verði þessu landi nú skipt upp á milli býlanna, eins og farið er fram á í till. n., verður ólíkt erfiðara fyrir Hafnarfjörð að ná í það síðar. Hafnfirðingar eru því engu bættari, þó að till. landbn. verði samþ.