28.02.1933
Efri deild: 12. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í C-deild Alþingistíðinda. (4813)

46. mál, kaup á skuldum

Jón Þorláksson [óyfirl]:

Hv. flm. gerði hvorki að neita eða staðfesta það, sem ég sagði um skuldainnheimtu eins embættismanns, en flestir hugsa ég, að hafi eftir ummælum hans skoðað það sem staðfestingu, að öðru leyti en því, að hann kannaðast ekki við, að hafa veitt sýslumanninum leyfi til þess. Ég vil endurtaka það, að ég álít, eins og afstaðan er milli sýslumanns og héraðsbúa, að óviðeigandi sé, að sýslumaður geti fengið að hafa á hendi slík viðskipti innan síns héraðs eins og kaup á víðtækum verzlunarskuldum.

Sagan, sem hann sagði um gróða minn á rafmagnsstöðinni, er náttúrlega ekki nema ein af mörgum, sem hv. þm. hefir svona til þess að skemmta sér við í raunum sínum, og þær hafa sama gildi fyrir hann, hvort sem þær eru sannar eða ósannar, eins og skáldsögulestur fyrir öðrum. En úr því að þetta kemur væntanlega í þingtíðindunum, þá eru mér engin leiðindi að segja frá því, að þegar rafmagnsstöðin var boðin út á erfiðum tíma, komu 3 tilboð í það verk, 2 tilboðin voru upp á 370 þús. og 380 þús., en tilboðið frá mér var um 272 þús. kr., ef ég man rétt, og áleit enginn maður á þeim tíma, að ég slyppi skaðlaus. Ég læt hvern um það, sem vill trúa því, að ég hafi grætt 150 þús. kr. á tilboði mínu, eftir að hafa farið 100 þús. kr. niður fyrir keppinauta mína. En að ég hafi samið um þetta við sjálfan mig, eru rakalaus ósannindi. Ég átti sæti í n., sem átti að semja um það, en ég tók engan þátt í því. Ég bauðst til að víkja úr n. fyrir fullt og allt. (JónasJ: Var það þegið?). Nei, það var ekki þegið, en því gat ég ekki gert að.