06.03.1933
Efri deild: 17. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í C-deild Alþingistíðinda. (4864)

62. mál, niðurjöfnunarnefnd í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Ég verð að eiga það við sjálfan mig og minn flokk, hvort ég sé í samræmi við stefnu hans eða ekki, en ekki við það, sem hv. 1. landsk. vill vera láta.

Ég verð að segja það, að mér finnst niðurjöfnunin hafa tekizt betur með því fyrirkomulagi, sem verið hefir nú um stund, en áður var, meðan niðurjöfnunarnefndin var, að áliti hv. 1. landsk., skipuð í samræmi við meiri hl. bæjarbúa, enda hafa verið tveir ágætir skattstjórar, sem um hana hafa sýslað síðustu árin. Með því að gera skattstjórann að einum nefndarmanna held ég, að betur sé tryggt, að hægt sé að nota það, sem útsvörin nú orðið munu að langmestu leyti byggjast á, en það er framtalið til skatts. Það er orðið ógerningur eins og áður var, þegar niðurjöfnunarnefndin settist á rökstóla og lagði á eftir persónulegum kunnugleika nefndarmanna á högum bæjarbúa. Bærinn er orðinn svo stór, að þetta er ómögulegt nú orðið. Það, sem hv. 1. landsk. flutti nú fram sem eina ástæðu á móti því fyrirkomulagi, sem nú er, það hefir komið fyrir áður. Þegar ég átti sæti í bæjarstj. Rvíkur og þegar niðurjöfnunarn. var öll kosin af bæjarbúum, þá kom það fyrir á hverju einasta ári að gefa varð eftir stórar útsvarsupphæðir, sem ekki náðust inn, svo að það er ekki nýtt, þó að bæjarstj. verði að strika út stórar útsvarsupphæðir, sem ekki fást greiddar, því að það hefir verið gert um langt skeið. - Að öðru leyti ætla ég ekki að fara út í frekari umr. um þetta mál, en vísa til yfirlýsingar minnar um það, að ég mun greiða atkv. á móti frv.