06.03.1933
Efri deild: 17. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í C-deild Alþingistíðinda. (4866)

62. mál, niðurjöfnunarnefnd í Reykjavík

Flm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Skyldi hér vera einhver, sem ekki veit, hvernig niðurjöfnunarnefnd Rvíkur er nú skipuð og hverja breyt. þetta frv. fer fram á, vil ég taka það fram, að skipunin er sú, að bæjarstj. kýs nú með hlutfallskosningu 4 nefndarmannanna. Þar af fær meiri hlutinn í bæjarstj., sem er Sjálfstfl., tvo, og minni hl., sem er hinir tveir flokkarnir, .Alþfl. og Framsfl., sem jafnan ganga saman til kosninga í bæjarstj., fær hina tvo fulltrúana. Fimmti maðurinn í n. er skattstjórinn í Rvík, sem nú tilheyrir öðrum minnihlutaflokknum. Hafa þeir þannig 3 atkv. í n., en sá flokkur, sem hefir umboð meiri hl. borgaranna, hefir 2 atkv. í þessari n., og er þannig í minni hl. Ég vissi ekki, hvað hæstv. forsrh. gat átt við, að með gagngerðri breyt. hefði nú komizt festa á þetta. Það er talið af mörgum, að það hafi orðið gagngerð breyt. á reglunum um niðurjöfnun útsvara eftir að þessi skipun varð á niðurjöfnunarnefndinni, að minnihlutaflokkarnir urðu þar í meiri hl., en hvort nokkur meiri festa varð við það, vil ég a. m. k. ekki álíta neina tryggingu fyrir. Óeðlilegra er það ástand, sem nú er, en hitt, sem var á meðan meiri hl. niðurjöfnunarnefndarinnar var í samræmi við meiri hl. borgaranna. Ég verð að álíta, að þessi tilhögun, sem nú er, sé valtari, og sýndi það sig þó, að hin gat oltið.

Ef skipt er um skoðun, þannig að skipt er um meiri hl. í bæjarstj., þá álít ég, að afleiðingarnar þar af ættu að vera þær, að slíkt kæmi einnig fram í starfstilhögun niðurjöfnunarnefndarinnar. Hitt álít ég óeðlilegra, að breytt sé um starfstilhögun fyrir það, að skipt er um skoðun í landsstj. og hún skipti um þennan embættismann, skattstjórann. Þetta skattálöguvald á að vera hjá borgurunum sjálfum á meðan ekki er ákveðið með landslögum, hvað menn skuli greiða í slíka skatta.

Till. mín fer nú fram á þá einu breyt., að í niðurjöfnunarnefndina sé aukið við einum manni með hlutfallskosningu í bæjarstjórn, og svo er skattstjóranum ætlað það sama starf í n. og hann hefir nú, þar á meðal formennsku, ef n. vill hafa hann fyrir form. Hann á að hafa tillögurétt í n., en á að vera þar án atkvæðisréttar eins og nú er orðið t. d. um borgarstjórann í bæjarstj. og öðrum mikilvægum n. hennar. Þetta er tilhögun, sem hér hefir verið tekin upp og er í algerðu samræmi við allar lýðræðishugmyndir og jafnréttiskröfur, sem byggjast á sjálfsákvörðunarrétti borgaranna: að meiri hl. skuli ráða, þegar ágreiningur verður.