08.03.1933
Efri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í C-deild Alþingistíðinda. (4899)

74. mál, eignarnámsheimild á ábúðar- og erfðafesturétti

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að mér þykir vænt um framkomu þessa frv. Er það aðallega af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi af því, að ég álít það til bóta, að Hafnfirðingar fái eignarnámsheimild á þessum jörðum, ekki svo mjög kannske til þess að koma því í framkvæmd, sem felst í frv., heldur af ýmsum ástæðum, sem ekki er sérstök ástæða til að rekja hér. Í öðru lagi af því, að með þessu frv. er það sýnt, að hv. flm. þess telur Hafnarfjörð hafa mjög mikla þörf fyrir land til ræktunar. Það er auðvitað svo, en mér finnst samt sem áður kenna nokkurs ósamræmis í þessu að því leyti, að þetta land, sem þarna er farið fram á að taka eignarnámi, er ræktað land. Hvaleyrin er fullræktuð; þó að þar séu ekki garðar, þá eru þar tún. Það er sagt í grg., að hægt sé að rækta mikið landbrot suður á bóginn. En þetta sannar ekkert, því að Hvaleyrarholtið er stórgrýtt, og eru þess vegna ekki miklir möguleikar til ræktunar suður á bóginn, nema með gífurlegum kostnaði. Ég fór sjálfur um þetta land í gær með öðrum manni, til þess að fullvissa mig um þetta, en sá ekki nema í mesta lagi tveggja dagsláttna land, sem væri hæft til ræktunar. Það má með réttu segja, að eins og jarðvegurinn er á Hvaleyri, þá sé þar upplagt land til garðræktar, en ég skal ekki segja, hvernig það yrði í framkvæmdinni; en ef horfið yrði að því ráði að rista svörðinn af túnunum eða gerðar yrðu samskonar ráðstafanir og á Garðskaga forðum, þá væri mjög hætt við því, að landið blési upp, af því hvað jarðvegurinn er sendinn og ekki skjól fyrir nokkurri átt.

En það er óréttlæti í þessu, sem mér finnst, að verði að taka til greina, að á öðrum staðnum er nytsamt, ræktað land í ábúð Hafnfirðinga sjálfra, sem borga sína skatta og skyldur til Hafnarfjarðar og hafa þar sitt lífsviðurværi, en á hinum staðnum eru menn, sem ekki þurfa á þessum löndum að halda til þess að fá lífsviðurværi sitt þar af. Þetta er sá stóri mismunur.

Ég verð að segja það, þar sem hv. flm. sagði, að með því frv., sem ég flyt, sé verið að taka lamb fátæka mannsins handa þeim ríka, að þarna sé verið að taka land fátæka mannsins í staðinn fyrir að taka land ríka mannsins, eins og lögreglustjórans.

Viðvíkjandi leigunni á kotunum og leigunni á spildunum, þá er það rétt, að hálflendan hefir verið leigð til 50 ára fyrir það verð, sem sagt er í grg., en þar er gerður samanburður á þeirri leigu og leigusamningi þeim, sem gerður var við Hermann Jónasson lögreglustjóra. Það skýtur nokkuð skökku við, að leigan hafi verið, að áliti hv. 5. landsk., betri fyrir það opinbera með þeim samningum, sem hann hefir gert, en eftir þeim samningum, sem stjórn Flensborgarsjóðsins gerði, því að land Hermanns Jónassonar er 80 dagsláttur, og þegar það er komið í rækt, á að borga - segi og skrifa - 400 kr. á ári; en hefði hjálendan verið leigð á þessum tíma, hefði leiguverðið verið margfalt móts við það, sem það nú er. Þar að auki er erfðafesta sú, sem ég minntist á, þegar ég talaði fyrir mínu frv., það er erfðafesta um aldur og æfi, sem ekki er hægt að rifta - ekkert árabil tiltekið, en þarna er þó ekki tiltekin nema 50 ára ábúð.

Þá kem ég að því, sem hv. flm. talaði um, að þessum tveimur mönnum hefði verið leigð lönd í „mýrinni“ í Garðahreppi, til þess að gera Garðhverfingum til geðs. Ég verð að segja það, að ef Hafnfirðingar eru óánægðir með þessar gerðir fyrrv. hæstv. stj., þá eru Garðhverfingar það miklu fremur, því að þeir eru bókstaflega rasandi út af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið. Þeir vilja hafa land fyrir sig, og það er ekki meiningin hjá þeim, að Hermann lögreglustjóri eigi frekar að fá það en Hafnfirðingar. Garðhverfingar vilja hafa land fyrir sig, og maður getur ekki sagt, að það sé neitt sérstaklega athugunarvert. En að þeir vilji heldur hafa Hermann lögreglustjóra en Hafnfirðinga, það eru hrein ósannindi. Ég veit, að þeim er geðfelldara, að Hafnfirðingar njóti þess en Reykvíkingar. Það er talað um, að Garðahreppur sé illa stæður. Það má vel vera, að sveitarþyngsli séu þar meiri en í öðrum hreppum. Það verður að taka það til greina, að það eru fáir menn í þessum hreppi, en samt sem áður eru þar margir góðir gjaldendur. Eins og kunnugt er, þá er Vífilsstaðahælið í þessum hreppi, sem hefir starfsmenn á föstum launum, og borga þeir sumir töluverðan skatt. Þess vegna er það, að Garðahreppur er algerlega skuldlaus og skuldar engum manni neitt. Í Hafnarfirði hafa verið margir Garðhverfingar, sem hafa viljað, að Garðahreppur og Hafnarfjarðarbær gætu runnið saman.

Ég býst ekki við, að það sé neitt athugavert við það, en áður en það verður, má ekki hafa verið gert neitt, sem orðið gæti til miska, að slíkt gæti orðið, en ég verð að segja það, að svo framarlega, sem löndin eru sett í erfðafestu, þá er þröskuldur settur í veg fyrir það.

Sem sagt, ég er því meðmæltur, að þetta frv. nái fram að ganga, en vil að engu leyti, að það komi í staðinn fyrir það frv., sem ég hefi flutt. - Það er gott að hafa þetta frv., en hitt frv. er alger nauðsyn fyrir okkur Hafnfirðinga. En ef það á að kosta það í sjálfu sér, eins og virðist vera álit hv. flm., að verði frv. þetta samþ., þá eigi hitt að falla, þá æski ég þess heldur, að þetta frv. nái ekki fram að ganga. Ég legg ekki svo mikið kapp á það, því að við höfum það land, og ábúð sumra þessara manna, sem á Hvaleyri búa, fellur það fljótt niður, að Hafnarfjarðarbær getur ráðstafað því landi eftir þörfum síðar meir.

Eins og vant er þarf þessi hv. þm. alltaf að niðra mótstöðuflokkum sínum -, að það hafi verið þessi íhaldsmeirihluti, sem gerði þetta allt. Ég segi og skrifa, að það eru 2 kot, sem leigð voru af íhaldsmeirihlutanum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Þriðja kotið var leigt upp á síðkastið til nokkura ára og fjórða kotið var leigt áður en bærinn fékk sín réttindi, svo að það er ekki nema helmingurinn af kotunum, sem bæjarstjórnin hefir leigt. Bæjarstj. kom ekkert við það land, sem stj. Flensborgarsjóðsins leigði, en ég held, að sú leiga hafi verið miklu betri en sú, sem gerð var við Hermann Jónasson.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, en ég býst við, að allir hv. dm. séu orðnir mér sammála við framkomu þessa frv., hver nauðsyn það er fyrir Hafnarfjörð að fá ræktanlegt land. Í þessu frv. er farið fram á að taka eignarnámi land, sem Hafnfirðingar eiga. Tvö kotin losna fljótt úr ábúð. Annað er leigt til fárra ára, en á hinu kotinu býr maður, sem kominn er á grafarbakkann. Mér finnst, að lausn þessa máls verði að vera sú, að Hafnfirðingar fái ræktanlegt land í nánd við kaupstaðinn.