03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í C-deild Alþingistíðinda. (4926)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Frsm. (Jón Jónsson):

Landbn. hefir ekki skilað prentuðu nál., en ég get skýrt frá því, að meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Nokkrar umr. urðu um þetta mál er það var hér til 1. umr. Töldu þá sumir, er til máls tóku, frv. þetta viðsjárvert. Meiri hl. n. hefir ekki getað komið auga á, að hætta stafi af frv. 1. gr. þess heimilar aðeins ríkisstj. að takmarka eða banna innflutning til landsins á kjarnfóðri til gripaeldis. Og meiri hl. n. álítur, að gera megi ráð fyrir því, að Alþ. beri það traust til ríkisstj., að hún misbeiti ekki því trausti. Hinsvegar verður að stuðla sem bezt að því, að þjóðin noti sem bezt má verða sína eigin framleiðslu. Nú hefir heyfengur af ræktuðu landi aukizt mikið á síðari árum, og einnig framleiðsla síldarmjöls. Er einsætt að nota sem bezt hin innlendu fóðurefni til fóðrunar búpenings og spara þar með gjaldeyri til fóðurkaupa erlendis á erfiðum tímum fram yfir það, sem brýna nauðsyn ber til. Ég neita því ekki, að ástæða geti verið til að flytja inn eitthvað af kjarnfóðri. En fyrir því er einnig gert ráð í frv. Aðallega er um notkun innflutts kjarnfóðurs að ræða handa nautpeningi, og þá mest praktiserað í þeim sveitum, sem eiga aðgang að góðum mjólkurmarkaði. Þar má vera, að hyggilegt sé að bæta upp innlenda fóðrið með maís. Og áður en stj. gerir ákvarðanir sínar um þetta, mundi hún leita til hinna fróðustu manna á þessu sviði og haga framkvæmdum sínum svo, að þeirra ráði, að tryggt væri, að mjólkurframleiðendur ættu kost þess fóðurs, er gæfi þeim góðan arð. En þó svo væri gert, er ekki vafi á því, að mikið má takmarka innflutning kjarnfóðurs frá því, sem nú er. - Þetta er þá um 1. gr. frv. að segja.

Gegn 2. gr. frv. hafa engin mótmæli komið, enda er það mikilsvert, að rannsakaðar séu innlendar kjarnfóðurtegundir og að nákvæm reynsla liggi fyrir um notagildi þeirra. Einnig er gott, að þær tegundir, sem nefndar eru í gr., séu athugaðar með tilliti til hæfni þeirra til áburðar. Nú er greitt mikið fé úr landi fyrir áburð. Væri gott, ef hægt væri að spara þær upphæðir með innlendri framleiðslu áburðar.

Að þessu athuguðu sér meiri hl. n. ekki annað en að réttmætt sé að samþ. frv. Enda væntir hann þess, að landsstj. beiti ákvæðum þess með gætni. Ég skal bæta við því, sem áður hefir verið sagt, að frv. þetta er samið af bændanefndinni, og hefir hún einróma lagt til, að það verði samþ. Hún naut aðstoðar frá Búnaðarfélagi Íslands við samningu þess. Get ég þess vegna þess, að fram kunna að koma mótmæli frá einum starfsmanni þess. Þau mótmæli, ef fram koma, munu athuguð síðar, ef þurfa þykir.