17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í C-deild Alþingistíðinda. (4979)

103. mál, æðsta dóm

Magnús Torfason:

Það er ekki nema eðlilegt, að ég sé upp með mér af því, að hv. flm. skuli hafa þóknazt að veita mínu óheiðraða nafni þann heiður að nefna það í sambandi við þá lögfræðinga, sem hefðu undirbúið þetta frv. En hvað þetta snertir, verð ég þó að vera dálítið hissa á því, að hann skuli vera að blanda mínu nafni hér inn í, því þegar hann bað mig að lesa yfir frv., þá fór hann svo leynilega með það, að meiri leynd hefði hann ekki getað við haft, þótt hann hefði verið að bera það undir mig, hvernig hann ætti að fara að því að gera þessa 3 dómara hæstaréttar höfði styttri.

Mér heyrðist ekki betur en hv. flm. vildi líta svo á, sem ég hefði hvatt hann til að bera fram frv. þetta. Ég er nú að vísu sammála honum um tvö atriði frv. Í fyrsta lagi um það, að það sé ekki ófyrirsynju gert að punta eitthvað upp á hæstarétt í augum þjóðarinnar, og eins er ég honum sammála um það, að fjölga beri dómendum. Hefi ég alltaf haft þá skoðun. Hinsvegar get ég líka lýst yfir því, að ég hefi látið þau orð falla, að mér fyndist ekki nema eðlilegt, að hann bæri fram frv., því að frá mínu sjónarmiði hvíldi á honum sérstök skylda til þess.

Í stuttu samtali, sem okkur fór á milli eftir að ég las frv., man ég ekki betur en að ég dræpi á nokkur atriði þess, sem mér líkaði ekki. Sumum atriðunum var ég sammála, en öðrum meginatriðum var ég mótfallinn. Annars vil ég sem minnst fara út í þetta hér, og er ástæðan sú, sem ég gat um við hann, að ég er nú form. allshn. Sagði ég honum, að bezt myndi fara á því, að ég léti ekki mína skoðun uppi, því að það myndi hvort sem er verða nógu vandhæft fyrir mig að sigla milli brims og boða í n. Þó vil ég drepa hér á eitt atriði, sem hv. flm. minntist á, máli sínu til framdráttar, sem sé minning konferensráðs Magnúsar Stephensens. fyrsta háyfirdómara þessa lands. Skal ég játa, að ég veit ekki, hvort sérstök ástæða er til að heiðra minningu hans að þessu leyti, með því að samþ. einhverjar breyt. á þessum l. á 100 ára dánarafmæli hans. Finnst mörgum þjóðræknum mönnum sem hann eigi engar þakkir skilið fyrir afskipti sín af yfiryfirdóminum. Sá dómur varð til þess, að Alþingi var lagt niður. Segi ég ekki þetta minningu hans til niðrunar, því að þá réð einveldi hér og sú stefna að sameina völdin á sem fæstar hendur. En úr því að maður minnist á þennan mæta mann, þá hefði verið vert að minnast á hann fyrir annað, en það er fyrir stefnu hans í utanríkismálum þessarar þjóðar. Það er ábyggilegt, að sú stefna reyndist holl. Og það er ábyggilegt, að hann reyndist framsýnn í þessum málum, og hann á þakkir skilið fyrir afskipti sín þar, og þess væri óskandi, að þetta unga ríki, sem nú er að komast inn í heimshringiðuna, hallaðist að þeirri stefnu, sem hann hafði í þessum málum, frekar en mér hefir fundizt hingað til hafa vakað fyrir mönnum.