31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Jón Jónsson [óyfirl.]:

Það hafa komið fram allmiklar aths. við okkar till. og skal ég svara þeim að nokkru. Hv. frsm. n. vildi ekki játa skoða þetta, sem kaupstaðir og jafnvel sýslur ættu að fá samkv. l. og till., sem framlag úr ríkissjóði. En mér finnst það nú líks eðlis sem það væri framlag úr ríkissjóði, því þetta fé er fengið inn sem landsskattur eins og aðrar tekjur ríkisins, og ríkið annast um innheimtu þess og lætur það aftur af hendi. Það er bara ákveðið fyrirfram, þó með skilyrðum að sumu leyti, að það skuli fara til þessara þarfa. Það er nauðalítill munur á því og beinu framlagi úr ríkissjóði. Annars fannst mér sem hv. frsm. væri ekki mjög mikið á móti því, þó áskilið væri tvöfalt framlag frá bæjum, því að því fylgdi sá kostur, að þá væri trygging fyrir því, að meira yrði gert, og það er nauðsynlegt til þess að í þetta verði ráðizt, að mikið fé sé fyrir hendi. En hann sagði, að það væri máske ekki nauðsynlegt að ákveða þetta, því bæirnir myndu leggja fram meira, ef þeir gætu. Ég held, að það sé miklu heppilegra að gera þetta að skilyrði, til þess að það geti orðið sem mest, hið opinbera framlag. Annars virðist hafa komið fram misskilningur hjá hv. 1. landsk. og hv. þm. Hafnf. og má vera, að það sé að einhverju leyti okkur að kenna, um það hvað átt er við með vegaviðhaldi. Við teljum framlag til vegaendurbóta og malbikunar og annað en það, sem fer beint til þess að leggja nýja vegi, til vegaviðhalds. Ef Rvík legði fram 175 þús. kr., þá er því ákvæði fullnægt hjá okkur, þó að af því fé sé varið svo og svo miklu til malbikunar.

Þá var hv. þm. að tala um það, að það væri e. t. v. misskilningur, að þetta kæmi öðrum kauptúnum að gagni en Rvík. Því miður er ég ekki viss um nema það sé rétt. Eins og hv. þm. tók fram, þá þurfa bæirnir að hafa dýr tæki til þess að malbika vegi. Það yrði því mjög kostnaðarsamt fyrir bæi að leggja út í það, þar sem hver hlaupandi metri kostar um 50 kr. Ég er því hræddur um að það muni dragast annarsstaðar en í Rvík, að ráðizt verði í slíkt. Það er fjarri því, að ég haldi, eins og mér skildist á hv. þm. Hafnf., að það mundi ekki líða nema stuttur tími, þangað til allir bæir verði búnir að fá götur sínar malbikaðar. Ég einmitt tök það fram, að ég hyggist við, að það mundi dragast nokkuð lengi, þó það hinsvegar væri æskilegt, að það yrði sem fyrst, náttúrlega bæði í bæjum og sveitum. Annars virðist mér, að hv. þm. finnist, að með bæina sé farið hálfilla í þessu frv. En ég held, að það sé nú einmitt þvert á móti. Ég vil benda á það, að í 1. er ákveðið, að 20% af hvers árs tekjum megi verja til þess að greiða kostnað við malbikun eða varanlegt slitlag. Og það er enginn vafi á því, að fyrsta sprettinn mundu þessar viðgerðir fyrst og fremst lenda á þeim vegarköflum, sem lægju næst aðalstöðvunum, t. d. frá Rvík og austur eftir og leiðina milli Hafnarfjarðar og Rvíkur. Ég sé því ekki annað en að 1/5 partur af öllum skattinum mundi fyrst og fremst koma kaupstöðunum að gagni, og þeir þurfa því ekki að kvarta.

Hv. 2. þm. Árn. þótti ekki ástæða til, að hert væri á álögunum með þessu. Ég vil benda honum á, að samkv. brtt. okkar er ekkert hert á álögum frá því, sem er á gildandi 1. En ég vil benda honum á, að það er spursmál, hvort það er Árnesingunum hans, sem hann ber mest fyrir brjósti, ekki fyrir beztu að hafa bifreiðaskattinn sem ríflegastan, til þess að viðhald veganna verði stórum betra og bílaakstur þar af leiðandi miklu ódýrari. Ég held, að það hafi mikið að segja að koma vegum og vegaviðhaldi í sem bezt horf, til þess að flutningar verði sem ódýrastir. Hv. þm. sagði, að bílstjórar berðust í bökkum. Það er svo í öllum sveitum. En ég efast um, að það sé vegna skattsins, heldur vegna þess, hve ungu mennirnir hafa keppzt hver við annan um að fá sér bíl, og svo er afleiðingin sú, að þeir eru orðnir allt of margir fyrir flutningsþörfina og bílstjórarnir því farið á hausinn. Þetta stafar líka af því, hve bílar endast hér illa, vegna þess hve vegirnir eru slæmir.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að ég hefði verið að tala um, að það væri spursmál, hvort malbikun væri heppileg. En það er fjarri því, að ég telji það spursmál, ég tel það einmitt æskilegt, að vegarkaflar séu malbikaðir, þar sem því verður við komið, en ég er bara hræddur um eins og ég gat um áðan, að smærri kauptúnum kæmi þetta ekki að gagni, a. m. k. ekki fyrst um sinn. En það má vera, að Hafnarfjörður sé undantekning fyrir það, hvað hann er nálægt Rvík og getur því sennilega fengið áhöldin lánuð héðan.

Af þessu, sem ég hefi sagt og þar sem menn hafa fengið skýringu á því, hvað átt er við með „vegaviðhaldi“, vonast ég til, að brtt. okkar verði samþ. eins og þær liggja fyrir.