15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Frsm. (Jón Jónsson):

Mesta áhyggjuefni allra framleiðenda fyrst og fremst er kreppan, sem lýsir sér í lágu verði afurðanna og jafnframt því, að ekki er hægt að selja þær. Eins og nú standa sakir kemur kreppan harðast niður hjá okkur á landbúnaðinum. Eiga þeir, sem hann stunda, því mjög erfitt um alla afkomu, þeim landshlutum, þar sem bændur hafa ekkert nema sauðfjárafurðir, eru tekjur þeirra fyrir seldar afurðir ekki nema 500—1000 kr. Enda þótt þeir nú afli sér nokkurra tekna fyrir utan þetta með framleiðslu mjólkur, ræktun garðávaxta o. fl., þá sjá allir, að tekjur þessar eru allt of litlar fyrir bændur til þess að afla sér og sínum allra lífsnauðsynja, greiða af skuldum og alla opinbera skatta. Á þessu verður því að ráða bót, ef bændur eiga ekki að flosna upp frá búum sínum í hundraðatali. Að sjálfsögðu væri æskilegast, ef það væri hægt með auknum markaði og hærra verði á einhverri framleiðsluvöru bænda. Takist það ekki, eins og helzt er útlit fyrir, er ekki annað sjáanlegt en að ríkið verði að hlaupa undir bagga til hjálpar þessum aðþrengda atvinnuvegi.

Frv. þetta er lítið og lætur lítið yfir sér. Þó er það mjög merkilegt, því að það tryggir aukinn markað fyrir eina af framleiðsluvörum bænda. Eftir því sem bezt verður séð, selja smjörbúin nú aðeins um 60 smálestir af smjöri. Með frv., ef að 1. verður, er stóraukinn markaður fyrir smjörið, þar sem allt smjörlíki verður að blanda smjöri, og mætti þá vel vera, að þau héruð, sem nú stunda sauðfjárrækt einvörðungu, gætu komið upp hjá sér smjörbúum, og á þann hátt breytt nokkru af framleiðslu sinni í mjólkur- og smjörframleiðslu. Þetta ætti alls ekki að vera útilokað, þar sem smjörbúin eru töluvert ódýrari en mjólkurbúin. Auk þess gætu sum héruðin lagt til húsin undir þau, sér að kostnaðarlitlu, þar sem væru hús samvinnufélaganna. Frv. getur því orðið til að auka að mun framleiðslu smjörs.

Hin hlið frv., sem snýr að neytendunum, er þá eftir. Er þá fyrst, að með því er þeim fyrst og fremst tryggð betri og hollari fæða. Auk þess eru ákvæði um meiri vöruvöndun og bætt húsnæði o. fl.

Landbn. sendi frv. til fulltrúa iðnráðsins. Komu þeir líka á fund n. Það, sem þeir höfðu helzt við frv. að athuga, var það, að þeir töldu tæplega þörf að hafa sérstakan eftirlitsmann með smjörlíkisgerðunum. Þessi andstaða fulltrúanna mun þó að nokkru byggð á misskilningi. Eftir því sem hæstv. atvmrh. skýrði landbn. frá, þá hefir frá upphafi verið svo til ætlazt, að eftirlitið með smjörlíkisgerðunum yrði falið forstöðumanni efnarannsóknarstofu ríkisins. En það, sem fulltrúar iðnráðsins virtust helzt óttast, var einmitt það, að svo fremi sem skipaður yrði sérstakur eftirlitsmaður, og oft yrði skipt um hann, þá gæti svo farið, að hann kynntist rekstri smjörlíkisgerðanna svo, að hann setti á eftir upp verksmiðju sjálfur. Til þess að útiloka þennan ótta og tryggja það, að eftirlit þetta yrði falið forstöðumanni efnarannsóknarstofu ríkisins, hefir n. borið fram brtt. á þskj. 150. Hin brtt. hennar á sama þskj. er aðeins til leiðréttingar á prentvillu. Vil ég svo f. h. landbn. leggja til, að frv. verði samþ. með umgetnum brtt.