15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Jónas Jónsson:

Út af ræðu hv. 2. landsk. vildi ég segja örfá orð. Ég held, að hv. þm. hafi fulla ástæðu til þess að vera þakklátur fyrir hönd þeirra kjósenda, sem helzt standa að honum, að slíkt frv. sem þetta skuli hafa komið fram. Það er sem sé engum blöðum um það að fletta, að neyzla smjörlíkis er mest meðal þeirra, sem við sjóinn búa, og má vel vera, að þar sé ein ástæðan fyrir hinni miður góðu heilsu ýmsra bæjar- og þorpsbúa. Ég fyrir mitt leyti tel frv. þetta til mikilla umbóta. Það miðar fyrst og fremst að því að gera þessa fæðutegund hollari, og í öðru lagi að því, að smjörlíkisneyzla verði líka tekin upp í sveitunum, sem er full þörf.

Þá held ég, að það sé með öllu ástæðulaust fyrir hv. 2. landsk. að óttast það, að verð smjörlíkisins hækki vegna blöndunar smjörsins í það. Blöndunina má að sjálfsögðu auka eftir því, sem framleiðsla smjörsins eykst í landinu. Tel ég því óþarft að ákveða hámark hundraðshlutans.

Þá hefir og frv. þann kost, að það skapar aukinn markað í landinu fyrir smjörframleiðslu bænda. Verður því ekki annað sagt en að það sé til bóta.