15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

35. mál, kjötmat og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég er yfirleitt ánægður með þær brtt., sem hv. landbn. leggur til, að gerðar séu á frv. þessu. Þær eru flestar orðbreyt. og leiðréttingar á prentvillum, sem ég tel betur fara. Það er aðeins ein breyt., sem ég í raun og veru tel lítils virði, er ég þó tel, að orkað geti tvímælis. Það er 4. brtt. við 7. gr. c-lið, þar sem bætt er við orðunum „fyrir eitt ár í senn“. Í frv. segir, að ráðuneytið ákveði daglaun aðstoðarmanna, þegar þeir starfi í yfirmatserindum, að fengnum till. yfirkjötmatsmanns. Ráðuneytið getur samkv. þessu ákveðið laun þeirra eins og því þóknast. Ég hygg því, að það geti aðeins orðið til þess að valda töluverðum símakostnaði, ef ákvæði þetta verður samþ. Annars tel ég þetta ekki skipta svo miklu máli, að það taki því að samþ. sérstaka brtt. um það.

Hv. þm. N.-Þ. mælti gegn nokkrum atriðum 4. gr. frv. Viðvíkjandi fyrsta atriðinu, læknisskoðuninni, skal ég taka það fram, að ég var sjálfur með mínu leikmannsviti á þessum málum í dálitlum vafa fyrst. Vildi halda, að góðir fjármenn í sveit sæju eins vel sjúkleika á kind og læknar. En við að bera mig saman við sérfræðinga á þessum sviðum taldi ég rétt að setja þetta, ákvæði. Verði horfið að því ráði að breyta þessu ákvæði, get ég ekki fallið frá því, að ráðh. verði a. m. k. heimilað að skipa fyrir um þetta með reglugerðarákvæði. Vegna fyrirspurna, sem sífellt berast ráðuneytinu um þessi mál, verð ég að telja þetta nauðsynlegt. Það má vel vera, að það geti orðið erfitt að fylgja slíku ákvæði bókstaflega hér. En erlendis mun því vera fylgt stranglega. Ég býst því við, að það verði ekki hægt að koma hinum erlendu kaupmönnum í skilning um það, að hér sé yfirleitt hraustara fé en hjá þeim, og því telji þeir sjálfsagt, að fylgt sé sömu reglum um slátrun hins íslenzka fjár og þeirra eigin.

Þá vil ég benda á, að orðið „læknir“ í lögum þessum tekur ekki aðeins yfir dýralækna og almenna lækna, heldur og einnig yfir læknaefni, sem lokið hafa fyrri hluta læknaprófs og fullgildir teljast því til slíks eftirlits sem þessa.

Viðvíkjandi því ákvæði 2. málsgr. 4. gr., að læknisskoðun eigi að fara fram á öllu kjöti og innýflum, þá er vitanlega aðeins átt við þau innýfli, sem nota á, en ekki þau, sem kastað er.

Við það að bera mig saman við dýralækni og ýmsa aðra, sem með þessi mál sýsla, m. a. forstjóra kjötsölusamlagsins, þá hefi ég komizt að þeirri niðurstöðu, að halda beri þessu ákvæði um kjöt og innýflaskoðunina, eða þá eins og ég tók fram, að gefa stj. heimild til þess að skipa fyrir um það með reglugerðarákvæði.

Hvað snertir aths. hv. þm. um síðustu málsgr. 4. gr., þá get ég að mestu verið henni samþykkur. Að það er tekið fram, að ekki megi slátra sjúku fé í löggiltum sláturhúsum, er með tilliti til hins erlenda markaðs á frystu og kældu kjöti. Hvort mönnum sýnist svo að rýmka um þetta ákvæði og láta það ná til allra sláturhúsa, læt ég með öllu óátalið.