16.03.1933
Neðri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

21. mál, byggingarsamvinnufélög

Jón Auðunn Jónsson:

Út af því sem hv. frsm. hélt fram, að hér væri ekki um áhættu að ræða fyrir ríkissjóð, þá vildi ég segja það, að öllum er vitanlegt, að hús, sem byggð voru fyrir 6—7 árum, eru ekki seljanleg nú fyrir 75% af byggingarkostnaði. Ég get t. d. bent á hús, sem byggt var fyrir 11 þús. kr. lán úr byggingar- og landnámssjóði, var veðsett með fyrsta veðrétti og maðurinn varð að borga yfir 5 þús. kr. úr eigin vasa til þess að koma húsinu upp. Byggingarkostnaðurinn varð því í raun og veru 16 þús. kr., það er ekki hægt nú að selja þessa jörð með húsinu fyrir 11 þús. kr., m. ö. o., þó að jörðin sjálf væri gefin, þá er ekki hægt að selja hana fyrir meira, með húsinu, en sem svarar 60% af byggingarkostnaði hússins.

Hv. frsm. minntist á veðdeildina, og það er auðséð, að hann er mjög ókunnugur starfsemi hennar. Hann sagði, að þar væri ekki lánað meira en 40% af virðingarverði, en þó væri lánið stundum eins hátt og allur byggingarkostnaður hefði verið. En það er nú svo í veðdeildinni, að þar eru fastar reglur bundnar við stærð húsanna og ásigkomulag, svo og á hvaða stað þau standa. Sérfróðir menn fara yfir allar virðingar, sem lán eru veitt út á, og er ekkert tillit tekið til virðingarfjárhæðarinnar, ef það er ekki í samræmi við álit hinna sérfróðu manna. Það er því tryggt, að veðdeildin lánar aldrei meira en eignin er auðseljanleg fyrir, enda hefir hún aldrei tapað á lánum. Ég hefi oft séð, að veðdeildin hefir lánað aðeins 20% af virðingarverði, og stundum minna. Fagmenn eru látnir yfirfara virðinguna, og þegar þeir sjá, hvað húsin eru stór, hvaða efni er í þeim og hvernig viðhaldið er, þá færa þeir virðingarverðið niður. Það er ekki kontrollaust lánað 40% af virðingarverði, síður en svo.

Það gladdi mig, sem hv. þm. Str. sagði, að stjórn byggingar- og landnámssjóðs hefði tekið þá ákvörðun að lána ekki meira en 6 þús. kr. til íbúðarhúsbyggingar í sveitum. Það hefir satt að segja mörgum bændum verið til bölvunar, að þeir hafa getað fengið há lán og þeim fyrirskipað að byggja stærra og dýrara en þörf þeirra krafði og þeir höfðu getu til að ávaxta.

Hv. frsm. virðist alltaf miða við krónuupphæð og segir, að það sé jafnvel lánað meira út á gömul hús en þau kostuðu. Hv. þm. gleymir því, að hús, sem reist voru fyrir verðfall krónunnar, kostuðu helmingi meira að krónutali en nú. Það eru engin rök, að segja, að t. d. hús, sem kostaði 12 þús. kr. fyrir stríð, eða 1916—1917, það sé uppsprengt verð, þó að það sé nú selt fyrir 20 þús. kr. Það má ekki miða eingöngu við pappírspeninga, þegar um fasteignir er að ræða, heldur verður að miða við einhvern ákveðinn hlut, eins og t. d. gullkrónu.

Ég held, að ríkissjóður ætti sérstaklega að styrkja þá, sem erfiðast eiga og verða að sætta sig við alveg ófullnægjandi og kannske heilsuspillandi íbúðir, en ekki færa hámarkið upp, til þess að þeir, sem betri getu hafa, geti notið þessara hlunninda, sem vissulega geta orðið og sennilega verða til talsverðra fjárútláta fyrir ríkissjóð.