23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

21. mál, byggingarsamvinnufélög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Það er eins og hv. þm. Str. sagði, að hann minntist á þetta við mig áður en till. kom fram, og ég hefi ekkert á móti því, en held, að hún sé til bóta að því leyti, að þar sem ábyrgðin er miðuð við þetta hámark, hlýtur hún að verða spori á þá, sem að þessu standa, og stuðlar að því, að verðið fari ekki langt fram úr þessu. Það er aðeins óvissan um verðgildi peninganna, sem gæti gert það varhugavert að samþ. eitthvað ákveðið, sem gæti svo reynzt of hátt eða lágt, ef verðgildi breyttist mikið frá því, sem nú er. En þetta eru þó ekki fullgild mótmæli, því að hámarkinu má alltaf breyta. Ég get tekið það fram, að byggingarfræðingar, sem ég hefi leitað álits hjá um þetta efni, telja, að hægt sé að byggja 500 tenm. íbúð fyrir 15—18 þús. kr., og nokkuð minna, ef um stórar sambyggingar væri að ræða, svo að þetta kemur mjög vel heim við hámark rúmmálsins. Allshn. hefir ekki athugað till., en ég fyrir mitt leyti leyfi mér að mæla með henni.