09.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

24. mál, vega og brúargerð

Hannes Jónsson:

Ég hefi skrifað undir nál. samgmn. með fyrirvara, og þykir rétt að láta það koma fram, í hverju sá fyrirvari er fólginn. Með þessu frv. er gengið inn á þá braut, að ríkissjóður lætur byggja ýmsa vegi, sem ekki eru teknir upp í fjárl., á þann hátt, að hlutaðeigandi héruð leggi fram til bráðabirgða fé að láni. En sé gengið inn á þessa braut, verður að láta heimildina ná til fleiri vega en taldir eru upp í frv. Þetta hefir ekki staðið til boða fyrr en nú, en mér þætti ekki ótrúlegt, að fleiri héruð vildu reyna að fara þessa leið, ef hún stæði opin áfram. Annars er þessi aðferð ekki sem heilbrigðust. Þau héruð, sem bezta hafa aðstöðuna til þess að ná í lánsfé, geta komið vegum sínum áfram meira en eðlilegt er. En þau héruð, sem ekki eiga greiðan aðgang að bönkum eða öðrum lánstofnunum, verða þarna útundan. Af þessu hlýtur að skapast misrétti milli héraðanna. En fari svo, að þau héruð, sem verri aðgang eiga að lánstofnunum, gætu samt lagt fram eitthvert fé, þá tel ég sjálfsagt, að þau komi eins til greina og þau héruð, sem hér eru nefnd í frv.

Mér dylst það ekki, að t. d. í mínu héraði er svo mikil þörf á að leggja suma af þeim vegum, sem nú eru í þjóðvegatölu, en ólagðir, að ef nokkur ráð væru til að útvega slík lán, sem hér um ræðir, þá yrði það gert, jafnvel þó að menn með því yrðu fyrir tapi.

Hinsvegar er það ekki nema gott, ef ríkissjóður er fær um að taka á sig slíkar skuldbindingar sem þessi lán eru, en hingað til hefir mér fundizt fullerfitt að inna af höndum greiðslur þeirra vega, sem sjálfsagðastir eru vegna heildarkerfis þjóðvega og vegamálastjóri vill láta sitja í fyrirrúmi, eins og eðlilegt er.

Ég vil því vænta, að hæstv. stj. taki vel í málaleitanir í þessu efni, ef þær skyldu koma frá mínu héraði.