28.11.1933
Efri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (1119)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Jón Baldvinsson:

Hv. flm. minntist í ræðu sinni á eitt atriði, sem mér finnst ekki rétt að ganga alveg þegjandi framhjá. Það voru hugleiðingar hans um gengislækkun krónunnar. Hann var með hugleiðingar um það, hversu mikið gagn framleiðendur í þessu landi hefðu af því, ef ísl. krónan yrði felld í verði.

En ég er nú hræddur um, að honum skjátlist þar mjög, því að tvær hliðar eru á því máli. Sú hlið þessa máls, sem hv. þm. talaði ekkert um, er, að nær allt hækkar í verði, sem bændur þurfa að kaupa. Ég ætla aðeins að benda honum á það, að sá maður, sem nú hefir með höndum sennilega stærstu sölu á landbúnaðarafurðum okkar, einn af framkvæmdarstjórum Sís, hann lítur svo á, að það færi bændum engar hagsbætur, eins og nú er komið málum, þó að gengislækkun yrði á ísl. krónunni. Hinsvegar, þegar gengislækkun er komin, hvar á þá að stanza? Ef krónan fer úr þeim skorðum, sem hún hefir verið í um nokkuð langt skeið, og sem verðlag á vörum og öðru í landinu hefir lagað sig eftir, þá er ómögulegt að vita, nema krónan hrapi niður í núll, eins og komið hefir fyrir um mynt annara þjóða, þegar þær hafa ætlað að bæta hag sinn með því að lækka gengi myntar sinnar. Ef krónan lækkaði í verði, þá er vitanlegt, að kröfur myndu koma frá öllum þeim mikla hluta þjóðarinnar, sem ekki hefir neina framleiðslu til að selja, heldur fær kaup fyrir vinnu sína. Það er öll verkamannastéttin til sjós og lands og allir starfsmenn og embættismenn landsins.

Ef hv. 3. landsk. er að ímynda sér, að þessar stéttir þjóðfélagsins létu það ganga hljóðalaust, að íslenzka krónan væri felld í verði svo eða svo mikið, án þess að gera kröfur um hækkuð verkalaun, þá er það hinn herfilegasti misskilningur. Jafnskjótt sem krónan yrði felld, þá mundu þær koma, þessar kröfur, alveg sem nema mundi lækkun krónunnar. Ég er því ákaflega hræddur um, að það yrði mjög tvíbent fyrir bændur að vera að óska eftir þessu. Af slíkum ráðstöfunum mundu örfáir framleiðendur ef til vill hafa hag um stuttan tíma, þeir, sem framleiða í stórum stíl. En vitanlega mundi allt leita jafnvægis aftur, og mundu þá kröfurnar koma um það, að verkafólk fengi hækkað kaup fyrir sína vinnu.

Þegar verið er að tala um slíkar ráðstafanir, sem hv. 3. landsk. var að tala um viðvíkjandi skipulagningu á sölu afurðanna, þá skil ég það ákaflega vel, að bændur vilji fá betra skipulag á þessa sölu heldur en nú er á henni. Ég álít ekki nema eðlilegt, að það sé reynt, og það jafnvel — ég segi jafnvel þótt það, hafi einhverja verðhækkun í för með sér, en hún mátti ekki vera mikil. En það er vitanlega sjálfsagt að haga svo sölunni, að hægt sé að draga úr þeim kostnaði við hana, sem nú á sér stað.

Það, sem mér finnst skorta á hjá hv. 3. landsk., er, að hann vill ekkert samneyti hafa við þann hluta þjóðarinnar, sem á að kaupa vöruna og neyta hennar. Þetta finnst mér alveg skakki. Mér finnst það nauðsynlegt, þegar bændur tala um að koma skipulagi á sölu þessara afurða, þá eigi þeir að fá neytendur einnig í lið með sér til að „organisera“ söluna.

Vil ég því koma með brtt. við þessa þáltill. Ég er ekki alveg viss um það ennþá, hvort sú brtt. mín ætti að koma inn í brtt. hv. 3. landsk. eða brtt. hv. 4. landsk. En till. er í þá átt, að þarna sé hafður með í ráðum sá félagsskapur, þar sem saman eru komnir, a. m. k. í einu lagi, flestir neytendur vörunnar, þ. e. Alþýðusamband Íslands. Ég ætla að athuga, inn í hvora till. bezt muni að fella þessa brtt. mína. Að ég er ekki búinn að því, stafar af því, að ég hefi ekki haft tækifæri til að bera saman till. þeirra hv. 3. landsk. og hv. 4. landsk. Væri rétt að hafa allar þessar till. svo prentaðar, til þess að þær gætu legið fyrir við atkvgr.