24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (1148)

11. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Frsm. (Páll Hermannsson):

Samgmn. hefir íhugað þetta frv. og komizt að þeirri niðurstöðu, að hún geti mælt með síðari liðnum, en yrði hinsvegar að leggja á móti þeim fyrri.

Það má að vísu líta svo á, að breytingar á símal. mættu dragast til næsta reglulegs Alþingis, þar sem enn eru fjölmargar af línunum í símalögunum ólagðar. Þá má og benda á það, að ekki eru miklar líkur til þess, að breyt. á símal. verði samþ. á þessu stutta aukaþingi. Þrátt fyrir þetta hefir n. þó talið rétt að taka til greina sanngjarnar till. í þessu efni, til þess að sýna með því sinn vilja, þótt ekki verði þær að lögum á þessu þingi.

Síðari liður frvgr. fjallar um nýja línu frá Neskaupstað um Sveinsstaði, Viðfjörð og Stuðla til Sandvíkur. Er línan um 20 km. og liggur um strjálbyggt svæði, sem ólíklegt er, að einkasími verði lagður um. Hinsvegar eru þarna verstöðvar, sem máli skiptir fyrir að fá síma. Það er því sýnilegt, að full þörf er fyrir þessa línu. N. leggur því til, að þessi lína verði samþ., svo að gera megi ráð fyrir, að hún komi á sínum tíma.

Fyrri liður frvgr. felur í sér breyt. á línustæði Dalatangasímans, sem n. getur ekki fallizt á. Þar er viti og þokulúður, sem línunni er ætlað að gefa til kynna, ef hann bilar eða eitthvað annað sérstakt kemur fyrir, og skilja allir, sem þekkja til sjóferða, hvílík nauðsyn er á, að slík leiðarmerki séu í lagi fyrir sjófarendur. Eins og línan er áætluð nú, verður hún í beinu sambandi við landssímastöðina á Seyðisfirði, sem er mjög heppilegt, því að sú stöð er lengi opin og kemur því að meira liði að þessu leyti en aðrar stöðvar. Ef línan hinsvegar er lögð eins og frvgr. gerir ráð fyrir, verða 3 landssímastöðvar á leiðinni, og gerir það að verkum, að vitinn getur orðið í verra sambandi en ella við endastöðina. Ennfremur er á það að líta, að kunnugir menn telja, að línustæðið sé ótryggara eftir fjarðarströndinni, vegna skriðuhættu, heldur en ef línan er lögð yfir Dalaskarð. Ég skal þó ekkert fullyrða í þessum efnum, en bendi aðeins á þetta, af því að betra er að vera viss í sínu máli áður en línustæðinu er breytt. Þá kemur og það tilgreina í þessu sambandi, að línan verður 31/2 km. lengri, ef leið frv. er valin, en ég játa þó, að það er ekkert atriði út af fyrir sig, ef nokkrir bæir með því móti komast í betra símasamband.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Eins og menn vita, hafa komið fram fjölmargar aðrar brtt. við frv. Hefir n. athugað þær, og mun ég síðar lýsa skoðun n. á þeim, en ekki fyrr en flm. hafa gert grein fyrir þeim.