13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1190)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Flm. (Magnús Jónsson):

Þetta mál hefir nú svo mjög verið rætt í blöðum, á fundum og á sjálfu Alþingi, að ég get sneitt hjá langri almennri ræðu um það að þessu sinni.

Menn deilir á um það í þessu máli sem mörgum öðrum, hve heppileg afskipti hins opinbera og inngrip þess í viðskiptalífið séu. Hér sem annarsstaðar er reynslan réttdæmast. Og reynslan er sú, að þótt hægt sé í bili að lagfæra einhverja annmarka með því að gefa út reglur, fer þó oft eins og í sögunum, að tvær illvættir rísa upp fyrir hverja eina, sem lögð er að velli.

Það hefir verið mikið talað um misheitingu haftanna. Ég skal að svo komnu ekki fara langt út í það efni, en aðeins benda á með fáum dæmum, af hvílíku handahófi þær vörur eru valdar, sem bannaðar eru. Þetta virðist stundum vera gert alveg út í bláinn, á þess að nokkur heilbrigð skynsemi hafi haft þar hönd í bagga. Þannig er t. d. þvílíkt hatur lagt á hnífa, að menn mega ekki kaupa sér borðhnífa, þótt þeir megi hinsvegar fá sér skeiðar og gaffla. Rakhnífar eru auðvitað bannfærðir líka, en hinsvegar mega menn kaupa rakvélar. Öll leikföng fyrir börn eru harðlega bönnuð. En leikföng fyrir fullorðna eru hinsvegar ekki bönnuð, svo sem tennisboltar, spil, að maður ekki minnist á vín og tóbak. Þó er þess að gæta, að barnaleikföng eru venjulega mjög ódýr í innkaupi, svo að ekki fer nema sáralítill gjaldeyrir út úr landinu fyrir þau í frjálsri verzlun. Þá er mönnum leyft að flytja inn fegrunarvörur, svo sem andlitscréme, en aftur á móti er rakcréme bannfært.

Ég skal ekki tilgreina fleiri dæmi, þótt slíkt væri auðvelt. Auðvitað má segja, að þetta mætti lagfæra, en það er þó hægara sagt en gert, því að málið er afarmargbrotið, eins og einmitt þessi dæmi svona.

Annar ágalli innflutningshaftanna er þó miklu alvarlegri, og hann er sá, hve mjög þau hafa truflað viðskiptalífið og valdið atvinnuleysi. Sumum verzlunum hefir verið gert nálega eða alveg ókleift að halda áfram atvinnurekstri sínum. En í stað þeirra hafa komið nýir menn, sem hafa smalað saman beiðnum um þessa og þessa vöru. Afleiðingin hefir því orðið sú ein, að hinar eldri tryggari verzlanir hafa orðið afskiptar af viðskiptunum, á þess að innflutningur hafi raunverulega minnkað nokkuð að ráði. Þannig hefir ritvélaverzlunum verið bannaður allur innflutningur á ritvélum, en einstakir menn og verzlanir hafa hinsvegar getað fengið innflutningsleyfi fyrir ritvélum til eigin nota, og þessum leyfum hafa svo einstakir menn safnað saman og stofnað þannig til nýrra ritvélaverzlana.

Höftin hafa verið sett í tvennum tilgangi. Annar tilgangurinn er sá, að vernda framleiðsluna. Þannig er t. d. hannaður innflutningur á smjöri, til þess að verð á innlendu smjöri verði hærra en ella myndi. þetta má nú segja, að sé gott og blessað, en þá er orðið of mikið um þessa vernd, þegar innlenda varan fæst alls ekki, eins og nú á sér stað um íslenzkt smjör hér í bænum.

En þetta er þó ekki aðaltilgangur innflutningshaftanna, og það er ekki þessi vernd, sem hefir valdið því, að ég vil láta afnema þau. Höftin eru fyrst og fremst sett í þeim tilgangi, að bæta úr gjaldeyrisskortinum, og vegna þess tilgangs hefir þeim verið haldið við til þessa. Ég skal viðurkenna, að með þessum hætti er hægt að spara gjaldeyri í svip, meðan kaupmenn eru að selja upp fyrirliggjandi vörubirgðir. En heldur ekki nema í svip. það er aðeins hægt að færa gjaldeyrisþörfina til með þessum hætti, en ekki að bæta úr henni til fulls. Þegar kaupmennirnir hafa selt fyrirliggjandi birgðir af þeim vörum, sem hannaðar eru, hætta höftin að verka. Ef kaupendur eiga peninga til, fara þeir aðeins aðrar leiðir út úr landinu. Og ef of langt er gengið, getur hreint og beint farið svo, að höftin leiði til þess, að þjóðin noti meiri erlendan gjaldeyri en ella. Og ég hygg, að nú sé svo komið, að innflutningshöftin verki oft og tíðum öfugt. Ég skal færa líkur að þessu með dæmum. Gull- og silfurvörur eru nú bannaðar. Hver verður afleiðingin? Engin önnur en sú, að þeir menn, sem ferðast erlendis, kaupa hjá smásölum þar þessar fáséðu vörur fyrir 100–200 % hærra verð en hægt er að fá þær fyrir hjá heildsölum. M. ö. o., þó að innflutningur á óþarfavarningi sé minni nú vegna haftanna, þá þarf meiri gjaldeyri fyrir þær vörur út úr landinu en ella, að því ógleymdu, að ríkissjóður, sem hirðir mikinn hluta af verði þessara vara, ef þær eru fluttar inn á frjálsan hátt, tapar alveg tolltekjum. Þar að auki verður þetta leiðinlega fyrirbrigði, sem innflutningshöftin valda, orsök þess, að óprúttni og óráðvendni þeirra, sem fara í kringum lögin, er verðlaunuð. En hinir, sem ekki fá sig til þess að fara þannig á bak við tollalögin og innflutningshöftin, þeir gjalda afhroðið. En verst af öllu er þó það, sem og áður benti á, að þessir ófrjálsu verzlunarhættir og smápantanir á vörum krefjast meiri gjaldeyris. Áður voru flestar af þessum vörum pantaðar af heildsölum í stórum stíl frá erlendum verzlunarhúsum með góðum kjörum og hagkvæmum; en þetta hefir breytzt nú. Forráðamenn hinna stærri verzlunarfyrirtækja hér í Rvík hafa sagt mér, að viðskiptin hafi flutzt frá innlendum heildsölum til ýmiskonar milliliða og verzlunaragenta á Norðurlöndum; sérstaklega í Danmörku, og að þeir muni hirða 10–50% af þeim gjaldeyri, sem fer úr landi upp í þessar vörur, fyrir millimennsku sína. Og það skiptir áreiðanlega hundruðum þúsunda kr. árlega, sem fer af gjaldeyri út úr landinu að óþörfu af þessum sökum vegna haftanna.

Ég vil nefna eitt dæmi af mörgum þessu til sönnunar, sem er svo táknandi. Eins og kunnugt er, þá er m. a. bannaður innflutningur. á bifreiðum, en þó er einstökum mönnum veitt undanþága frá því banni, svo sem læknum og ljósmæðrum, og þeim, sem hafa bifreiðaakstur að atvinnu, þannig að þegar þeir eru búnir að slíta sínum bíl, þá fá þeir leyfi til að kaupa og flytja inn bíl í staðinn. Nú dregst það venjulega fyrir þessum mönnum, að þeir útvegi sér nýjan bíl fyrr en sá gamli er alveg útslitinn. Þá er brugðið við og bifreið pöntuð, og þá vinnst ekki tími til þess að fá bifreiðina frá Ameríku, heldur er hún pöntuð frá einhverjum umboðsmönnum á Norðurlöndum, og verður hún þá 300–500 kr. dýrari. Fyrir eina bifreið þarf allt að 500 kr. meiri gjaldeyri út úr landinu af því að verzlunin er ekki frjáls á þessari vörutegund og af því að innlendum bifreiðasölum er ekki leyft að flytja þær inn óhindrað. Þeir fá ekki að flytja þær inn, jafnvel þó þeir gengjust inn á að geyma þær undir lás og loku, þangað til hin lögleyfðu tækifæri gefast um sölu á þeim til einstakra manna. Þess vegna verður að fullnægja hinni skjótu eftirspurn þessara einstaklinga á þann óheppilega hátt, sem ég gat um. Þetta leiðir einnig til þess, að hin eldri viðskiptasambönd ruglast, en með nýjum viðskiptasamböndum koma nýjar bifreiðategundir, þegar hinir eldri bifreiðasalar fá ekkert að flytja inn af þeim bifreiðategundum, sem hér tíðkuðust áður. Þetta á sér einnig stað um fjölda annara vörutegunda en bifreiðar, svo sem ritvélar, hljóðfæri o. s. frv. En með hverri nærri tegund verður að hafa fyrirliggjandi mjög mikið af varahlutum, og það er hverjum manni ljóst, að þetta veldur stórum meiri eyðslu á gjaldeyri út úr landinu. Ég get nefnt ótal mörg dæmi þessu til skýringar, en ég vænti, að hv. þm. sjái, að innflutningshöftin hljóta að vera komin nærri grafarbakkanum, þegar þau, í stað þess að spara innlenda gjaldeyrinn, leiða beinlínis til þess, að gjaldeyririnn streymir úr landi svo nemur hundruðum þúsunda kr. árlega fyrir þessar svokölluðu óþarfavörur, umfram það, sem verða mundi í frjálsri verzlun. þetta er aðalatriði málsins, því þá eru höftin beinlínis snúin á móti tilgangi sínum.

Enn fleira mætti minnast á, og get ég þá t. d. bent á það, sem nýlega hefir komið fram í grein eftir Jóhann Ólafsson heildsala hér í bænum. Hann getur þess, að það eigi sér stað meðal verzlunarmanna ýmiskonar kaup og sala á innflutningsleyfum gjaldeyrisnefndarinnar nú upp á síðkastið. Kaupmenn úti um land hafa fengið innflutnings- og gjaldeyrisleyfi á þess að verzlunarástandið þar hvetji til innflutninga. En þá hafa duglegir kaupmenn hér í Rvík og annarsstaðar, þar sem verzlunin er fjörugri, smalað þessum innflutningsleyfum saman og pantað samkv. þeim miklu meiri vörur en þeir þurftu á að halda í svipinn. Aftur á móti hafa margir af helztu kaupsýslumönnum hér í bænum ekki viljað nota sér þessa möguleika. Þessi misnotkun leiðir af sér margskonar ranglæti í viðskiptalífinu yfirleitt. Sama er að segja um gjaldeyrisleyfin. Þeim er einnig smalað saman af einstökum kaupsýslumönnum, þannig að sumir fá of mikið af þeim, en aðrir eru í mikilli gjaldeyrisþröng. Síðustu missirin mun aldrei hafa komið sá mánuður, að gjaldeyrisleyfin hafi verið notuð öll, og suma mánuðina hefir verið svo mikill afgangur, að skipt hefir milljónum króna. Það er því ástæðulaust að halda í höftin til verndar gjaldeyrisverzluninni.

Samkvæmt bráðabirgðainnflutningsskýrslum er það komið í ljós, að innflutningurinn er orðinn miklu meiri það sem af er þessu ári en á sama tíma í fyrra. Og innflutningsmagnið mun nú vera um það bil það sama eins og það var síðasta árið áður en innflutningshöftin voru sett. Þau hafa því aðeins orðið til þess að auka glundroða í viðskiptum og valda herfilegu misrétti á meðal kaupsýslumanna í landinu.

Ég ætla svo ekki að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vil aðeins drepa á það, sem sagt er í grg. frv., að ef einhverjir hv. þdm. líta svo á, að óþarft sé að afnema þessa heimild í 1. frá 1921, hitt nægi, að þingið ákveði að fella niður höftin, þá vil ég spyrja: hvers vegna á að láta þessa heimild standa áfram? Ef einhverjar ófyrirsjáanlegar ástæður gera það nauðsynlegt, að gripið sé til þeirra nauðungarráðstafana að hefta innflutning á vörum til landsins, þá á stj. að gefa út bráðabirgðalög og reisa slíkar framkvæmdir á þeim. Þetta hefir áður verið gert, í fyrsta sinni sem innflutningshöft voru sett hér á landi, því að þáv. stj. taldi, að heimildin væri ekki nægilega rík eða ákveðin í lögunum til þess að skella á innflutningshöftum ásamt innflutningsnefnd og öllu því bákni, sem þar fylgdi, og gaf því út bráðabirgðalög til þeirra ráðstafana.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.