05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (1263)

30. mál, hafnargerði á Skagaströnd

Jón Þorláksson:

Ég álít, að bygging síldarbræðsluverksmiðju þeirrar, sem í ráði er, að byggð verði á Norðurlandi, hafi óþarflega mikið blandazt inn í umr. um þetta mal. Ég get þó viðurkennt, að nokkurt samband er þarna á milli. En ég vil minna á, að frv. um síldarbræðsluverksmiðju á Norðurlandi mælir fyrir um það, hverri aðferð stj. skuli beita um undirbúning að því er ákvörðun staðarins snertir, þar sem leita skal álits síldarútgerðarmanna um staðinn. Gæti það haft áhrif á álit þessara manna og umsögn, ef byrjað væri á hafnargerð á Skagaströnd. Er þá ekki álit þingsins, heldur þessara manna, sem kemur til, ef þeir telja, að þær framkvæmdir, sem í verður ráðizt þarna, geri það fært að ákveða byggingu síldarbræðsluverksmiðjunnar á þessum stað. Ég get því tekið undir með hv. 2. landsk., að þegar ég styð þessa till., þá er það án allrar ákvörðunar um það, hvar síldarbræðslustöðin verður sett á Norðurlandi. Þingið hefir þegar gengið frá því máli. og ég varpa öllum áhyggjum út af því á þá menn, er samkv. frv. eiga um það að fjalla.

En ég stóð eiginlega upp til þess að mótmæla áliti hv. 2. þm. Eyf. um það, að þessi byrjun á hafnargerð á Skagaströnd yrði aðstandendum óbærileg fjárhagsbyrði. Ég er ekki í vafa um, að þessi hafnarbót, sem ráðgert er að kosti 125 þú. kr. — og af því ber ríkissjóði að leggja fram 50 þús. kr. —, er eitthvert það álitlegasta fjárhagsfyrirtæki, sem hægt er að henda á hér á landi. Þar eru fyrir hendi afbragðs skilyrði bæði um þorsk- og síldarveiði. Og slíkt fyrirtæki, sem ekki kostar meira en þetta og skapar aðstöðu til fiskveiða og á sumrin til síldveiða, hlýtur að vera gott fyrirtæki, svo framarlega sem menn eru ekki orðnir trúlausir á allt annað en kreppuhjálp, sem á að greiðast frá öllum til allra. Ég fyrir mitt leyti er ekki trúlaus á aðra bjargarvegi. Og þarna er áreiðanlega staður. Þar sem draga má auðæfi úr sjónum, ef skilyrðin til þess eru bætt. Náttúran leggur líka þarna svo mikið upp í hendurnar. Auðæfi hafsins eru mikil og aðstaðan til hafnargerðar er svo hagstæð, að ekki þarf annað en að fylla upp í skörð, sem ekki er áætlað að kosti nema 125 þús. kr., eins og byrjunin er hugsuð; annars er byrjunarstig slíkra fyrirtækja vant að kosta miklu meiri upphæð.

Ég álít rétt, að Alþ. sýni nú fyrir sitt leyti, að það vilji með undirtektum sínum ýta undir, að þarna sé hafizt handa, og eingöngu með tilliti til þeirrar aðstöðu, sem þar er nú. Svo má láta reynsluna skera úr því, hvaða starfsemi fær þrifizt þarna, og þá einnig, hvað frekar beri að gera. Aðalatriðið er, að þarna sé byrjað, því þangað til það er gert stendur allt fast. Enginn útvegur verður þarna til eða leitar þar skjóls. Hann verður að sækja önnur fiskimið og allt verður eins og það hefir verið hingað til.