20.11.1933
Efri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (1366)

38. mál, undanþága frá áfengislöggjöfinni

Kári Sigurjónsson:

Hér hafa farið fram allýtarlegar umr. um almenn atriði þessa máls, og vil ég ekki lengja þær, en mér virðist, að þess hafi ekki verið fyllilega gætt, hvað þær eigi að miðast við. hér er mál, sem hefir verið farið með undir sérstöku formi. Því hefir verið skotið til þjóðaratkvæðis, og þá er rétt að athuga, hverskonar mál það er.

Mér virðist af ræðum sumra hv. þm., að ekki hafi komið fram sá skilningur, að þingið hefir sérstakar skyldur við þetta mál út af niðurstöðu þjóðaratkvæðisins. Það hefir komið fram í umr., að menn tala um sannfæringu sína og siðferðis- og réttlætishlið í sambandi við þetta mál, og það er ekki laust við, að skotið hafi verið persónulegum hnútum að ýmsum þm., en slíkt álit ég óviðkomandi og ætla ekki að fara út í það.

Ég vil benda á það, að það eru sérstök mál, sem þykja helzt til þess fallin að skjóta til alþýðuatkvæðis. Það eru mál, sem ekki tilheimta mikinn stjórnmálaþroska eða víðtæka menntun, og sem þykir nauðsyn að fá fullvissu fyrir, að hve miklu leyti alþýðan vill standa með, og þau mál, sem ganga nokkuð nærri persónulegum rétti og prívatlífi manna. Ég hefi séð það í góðum heimildum, sem hafa hlotið viðurkenningu í útlöndum, að þar er talið, að bindindismal og innflutningsbann væru í fyrstu röð þeirra mála, sem hentugt þætti að skjóta til þjóðaratkvæðis, og þess eðlis er einmitt það mál, sem nú hefir nokkuð verið rætt um.

Ég hefi nú bent á það, sem ætti mestu að valda um meðferð þessa máls hér í hv. d. Ég álít, að svo framarlega sem þessi meiri hl. er fram kominn, sem hér hefir verið rætt um, og á því er enginn vafi, þá standist þingið ekki við að taka málið fyrir á öðrum grundvelli. En mér finnst gæta nokkuð mikillar þröngsýni hjá þeim hv. þm., sem ekki vilja leyfa málinu til 2. umr. því hefir jafnvel verið skotið fram, ef ég man rétt, í umr. milli beggja hv. flm. og hv. 2. hm. S. M., að þeir miðuðu að sumu leyti sína afstöðu til þessa máls við það, hvernig atkvgr. fell í þeirra kjördæmi. Þetta er ekki hugsanarétt, því að það voru ekki kjördæmin til af fyrir sig, sem greiddu atkv., heldur þjóðin sem ein heild. Með þessari aðferð er því verið að gera þetta að kosningamáli. Slíkt er óeðlilegt, og ég fyrir mitt leyti hefi enga löngun til þess.

En eftir að ég hefi gert þessa aths. við gang umr., vil ég taka það fram, að ég er sammála hv. 1. landsk. í því, að mér virðist nauðsyn til bera, að þetta mál gæti í meðferð nefndarinnar tekið þeim umbótum, að um leið og rýmkað er á innflutningshöftunum séu settar skorður gegn því, að framkvæmd laganna verði til þess að koma of hart niður á mönnum fyrir smávægileg brot.

Ég hefi nú með þessum orðum gert grein fyrir því, að ég óska, að þetta mál gangi til 2. umr. og n.