29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (1421)

79. mál, síldarbræðslustöð Útvegsbanka Íslands hf á Öndundarfirði

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Um þessa till. vil ég fyrir mitt leyti segja, að ég hefi ekkert á móti henni, því að hún er aðeins heimild. En að því er til mín kemur, þá mun ég ekki nota hana. ef áreiðanlegt þykir, að verksmiðjan verði rekin hvort sem er af eigendunum eða öðrum. Ég álít ekki, að meiri hl. þessa þings geti verið það keppikefli að bægja einstaklingum frá sjálfstæðum atvinnurekstri. En hinsvegar skil ég, að mörgum sé það bæði atvinnuspursmál og kappsmál, að þessi verksmiðja verði rekin. Mér sýnist, að litlar líkur séu til þess, að ríkið þurfi þarna að taka fram fyrir hendurnar á einstaklingum. Það atriði, hvort rétt sé að kaupa þetta fyrirtæki, álít ég, að sé undir verðinu komið. Ég er ófróður um þá hlið málsins, enda hefir bankinn ekkert látið uppi um það. Reyndar hefir mér verið tjáð af bankastj., að þessi verksmiðja standi bankanum í um 11/2 millj. kr., en aðra eins upphæð eða nokkuð í námunda við hana getur bankinn vitanlega aldrei gert sér í hugarlund, að hann fái fyrir hana. Ég get til samanburðar nefnt það, að verksmiðja dr. Pauls kostaði um 300 þús. kr., og sýnir það, að hlutfallslega ætti ekki Sólbakkaverksmiðjan að verða mjög dýr, eftir því sem mér er kunnugt um afkastamöguleika hennar. (FJ: Í fyrra afkastaði Sólbakki 1100 málum á sólarhring, en verksmiðja dr. Pauls 1300). Já, ekki ætti hún eftir því að vera dýrari. Ef til vill verður verksmiðjan svo ódýrt metin, að rétt reynist að kaupa hana; en það ætti hinsvegar að nægja fyrst um sinn, að hún verði rekin, hvort sem það er fyrir ríkisins tilstilli eða ekki, þar eð ríkið hefir nóg annað við sitt fé að gera.

Hv. þm. Ísaf. bað mig um að gefa skýrslu um starfsemi og hag ríkisverksmiðjanna á síðastl. ári, en ég hefi því miður ekki skjöl um þetta meðferðis, því að ég bjóst ekki við, að til þeirra þyrfti að grípa í þessu máli. En ég held samt, að ég muni nokkurnveginn helztu atriðin úr þessum skýrslum, og ég ber það nú á borð, sem ég frekast man. Aðalniðurstaðan hefir verið ágæt, eða a. m. k. óvenjulega góð; síldin hefir verið nægileg og vel úr henni unnið. Ég hygg, að mér sé óhætt að segja, að ágóði af rekstri verksmiðju dr. Pauls hafi verið 100 þús. kr., og ríkisverksmiðjunnar tvöfalt á við það, án þess þó að tillit sé tekið til vaxta, afborgana og fyrningar. Þetta mun vera fyrsta árið, sem ríkisverksmiðjan getur staðizt það, sem hún á að greiða samkv. leigum. Ég veit ekki, hvort hv. þm. óskar nánari skiptingar og sundurliðunar á reikningunum; og man ekki svo nákvæmlega tölurnar, en honum er þó velkomið að sjá það, þegar hann vill. Þó held ég, að síldarkaup hafi numið um 700 þús. kr., og verkalaun voru mjög há, eða sú upphæð, sem til þess var greidd samtals.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að ég vil gjarnan, að stuðlað verði að því, að þessi verksmiðja verði rekin framvegis, en óska þess hinsvegar, að einstaklingar reki hana, ef unnt er, því að ella mundi því fylgja áhætta fyrir ríkissjóð, meiri en honum er hollt, því að hann hefir sem stendur ekki fjármagn til þess að standast það áfall, sem þetta ef til vill gæti valdið honum.