08.12.1933
Sameinað þing: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (1476)

84. mál, áfengismálið

Flm. (Jóhann Jósefsson): Það mun nú vera nokkuð óvenjulegt, að þingfundur sé settur um þetta leyti sólarhrings, enda liggja til þess þær ástæður, sem kunnar eru. Það er fyrir eindregna áskorun margra þm., að hæstv. forseti loks neyddist til þess að taka þetta mál þannig á dagskrá, að það kæmi hér til umr. Það er öllum hv. þm. vitanlegt, að tildrög málsins eru þau, að á síðasta Alþ. var flutt frv. um afnám áfengislaganna af 11 þm. í Nd. Þetta frv. fór til allshn. og afgreiðsla þess þar var sú, að n. kom sér saman um að leggja málið til hliðar í því formi, en bar einróma fram þáltill. um þjóðaratkvgr. um aðflutningsbannið á áfengum drykkjum. Þetta var aðallega rökstutt með því, að þegar bannið var sett á, hefði það verið að undangenginni þjóðaratkvgr. Þess vegna féllust menn á, að rétt myndi að efna til slíkrar afgreiðslu um afnám bannsins. En um það, að breytinga þurfti við í þessum efnum, ber afgreiðsla málsins í Sþ. ljósastan vott. — Ég vil biðja hæstv. forseta að sjá um, að hæfilega hljótt sé. (Forseti hringir). — Hv. þm. voru sammála um að leggja þetta undir atkv. þjóðarinnar. Ályktunin var afgr. með 26:2 atkv., og hljóðar hún þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram þjóðaratkv. á þessu ári á meðal kjósenda í málefnum sveitar- og bæjarfélaga um það, hvort afnema skuli bann það gegn innflutningi áfengra drykkja, er felst í gildandi áfengislöggjöf„.

Í grg. fyrir þessari ályktun er það tekið fram m. a., er hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fari svo, að þjóðin vilji afnema hann það, er nú gildir, ætlast flm. til, að ríkisstj. láti semja og leggja fyrir næsta þing löggjöf um innflutning áfengra drykkja og um sölu þeirra, sem flm. gera ráð fyrir, að fari fram undir eftirliti ríkisins og með þeim takmörkunum, sem réttar þykja, að beztu manna yfirsýn, til að koma í veg fyrir óhóflega áfengisnautn“.

Þetta gerðist þá á seinasta þingi í málinu, og eins og kunnugt er, fór þjóðaratkvgr. fram hinn 21. okt. síðastl., með þeim árangri, að stór meiri hl. þjóðarinnar greiddi jáyrði við því, að áfengislöggjöfinni yrði breytt í þá átt, að leyft yrði að flytja inn sterka drykki. Með þessu greiddu atkv. 15884 kjósendur, en á móti 11624. sá meiri hl., sem kom fram með breytingunni, er — 4260 atkv. Það má geta þess í sambandi við þetta, að þau bannlög, sem þjóðin hefir búið við síðan 1908, voru sett á með atkv. einungis 4645 kjósenda, eða m. ö. o. nokkrum atkv. meira alls með banninu þá heldur en nú er meiri hl. þeirra manna, sem vilja breyta áfengislöggjöfinni. Á þessum atkv. hafa bannlögin lafað allan þennan tíma og um það er nú ekki hægt að deila, hvað meiri hl. þjóðarinnar vill í þessum efnum. Samkv. þessu var frv. borið fram í Ed. á þessu þingi, þar sem farið er fram á að breyta áfengislöggjöfinni í þá átt, sem þjóðaratkv. benti til. Það frv. er eingöngu takmarkað við það, sem greitt var atkv. um. Þetta frv. kom fram 16. f. m., og í dag — 8. des. — er frv. ekki ennþá komið til 2. umr. Þetta út af fyrir sig sýnir, að hv. Ed. ætlar málinu ekki fram að ganga, enda hefir það verið sýnt um nokkurt skeið, og í þá átt bendir ennfremur álit meiri hl. allshn. Ed., sem fyrir liggur á þskj. 232, þar sem meiri hl. n. lýsir yfir því, að hann vilji fá d. til að samþ., að frv. þetta sé ekki tímabært. Okkur flm. till. á þskj. 192 þótti ekki sæmandi fyrir Alþ. að kveða fyrst upp úrskurð um, að hér ætti að fara fram þjóðaratkv. og hafa hann síðan að engu. Ég hefi heyrt og við flm., að það hafi af ýmsum verið talið óþinglegt að bera það fram meðan þing situr, að stj. heimili innflutning sterkra drykkja með bráðabirgðalögum eftir að þingi hefir verið slitið, því að það hefði verið á valdi þingsins að setja slíka löggjöf. Ég vil í því sambandi benda á, að þetta er ekki að öllu leyti fordæmislaust. Menn munu minnast þess t. d., að þingið 1923 var lengi að baksa við frv. um tilflutning hrossa, sem þingið gat aldrei komið sér saman um að afgr., og var stungið upp á að afgr. það á þann hátt að vísa til þess, að ráðuneytinu sé heimilt að gefa út bráðabirgðalög um þetta. Ég vil einnig geta þess, að Jón heitinn Magnússon forsrh. lét svo um mælt um þá afgreiðslu, að það væri ekki rétt af n. að gera ráð fyrir, að veita mætti undanþágu á annan hátt en með bráðabirgðalögum, og segir hann, að þingið megi yfirleitt ekki gefa stj. bendingu um að gera neitt í málinu á þann hátt öðruvísi en með bráðabirgðalögum. Afgreiðslan fór svo, að svolátandi rökst. dagskrá frá minni hl. var samþ.:

„Með því að gera má ráð fyrir, að landsstjórnin, að fenginni heimild með bráðabirgðalögum, veiti undanþágu frá ákvæðunum um bann gegn útflutningi hrossa á vetrum, ef brýn nauðsyn ber til, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá“.

Samkv. þessari bendingu voru lög sett 21. nóv. 1923.

Annað dæmi er frá 1932. Hér í Nd. var fellt frv. um rýmkun á lögum um dragnótaveiði. Það þótti hafa verið fyrir nokkra slysni, að frv. fell, því að þingvilji var fyrir rýmkuninni. Eftir þingið var skorað með undirskriftum þingmanna á stj. að gera þetta með bráðabirgðalögum, sem misheppnazt hafði að gera á þinginu, þrátt fyrir að meiri hl. þm. var málinu fylgjandi. — Ég hefi nefnt þessi tvö dæmi til þess að sýna, að slík afgreiðsla er ekki án fordæmis: Ég vil því halda því fram, að þessi till. sé algerlega þinghæf, og ég vona, að hið háa Alþ. sjái, hve það er nauðsynlegt, að framkvæmdur sé vilji meiri hl. þjóðarinnar, ekki sízt þegar hinir sömu menn hafa kallað á þjóðarviljann í þessu efni. Ég skal taka það fram, að ég ætla ekki hér að fara að ræða um bann eða ekki bann, gagnsemi þess eða ógagnsemi. Það mál hefir nægilega verið rætt hér í þinginu og þjóðin hefir kveðið upp sinn úrskurð í því máli. Stj. er heimilt að gefa út bráðabirgðalög án íhlutunar þingsins, en sú heimild er enganveginn rýrð, þótt þingið gefi stj. þessa bendingu, heldur er ástæða til fyrir stj. að fara eftir því. Ég minntist á, að í grg. till. eins og hún var flutt í fyrra var það tekið fram og var undirstaðan í framsöguræðu hv. þáv. 1. þm. Skagf., að ef þjóðaratkv. sýndi, að flytja átti inn áfenga drykki, ætti stj. að leggja fyrir þingið frv. um breytta áfengislöggjöf. Það var vitaskuld ekki víst, að haldið yrði aukaþing, en hinsvegar kom það svo fljótt í ljós, að nægur tími hefði unnizt til að undirbúa slíka löggjöf. En það hefir ekki verið gert, og því hér Alþingi enn brynni skylda til að afgr. málið samkv. vilja meiri hluta þjóðarinnar.

Ég heyri, að það hafa margir kvatt sér hljóðs, svo að ég býst ekki við, að ég komist mikið að seinna í nótt til að ræða málið, og vil því nú drepa á örfá atriði enn. Ég hefi bent á fordæmi, er sýna, að till. er þinghæf. Þá hafa menn einnig talað um, að þetta mætti geyma til næsta þings. Það hefir komið hér fram yfirlýsing undir meðferð málsins í Nd., sem hefir lotið í þá átt, að sjálfsagt væri á næsta þingi að breyta áfengislöggjöfinni. En nú er það þannig, að flestir þeirra manna, sem á seinasta þingi skutu málinu til þjóðarinnar, eiga hér nú sæti, og í öðru lagi á enginn þm., sem hér situr nú, víst að taka þátt í afgreiðslu málsins á næsta þingi. Þess vegna er þessi frestun talsvert út í bláinn og mætti e. t. v. segja svo, að ef þessu mætti fresta til næsta þings, þá mætti alveg eins fresta því lengur. Við flm. teljum skýlausa skyldu þingsins að verða þegar í stað við vilja þjóðarinnar, og þess vegna er þessi till. komin fram. sé óviðurkvæmilegt og óviðkunnanlegt að fara þessa leið, er ekki til annars að vísa en þess, að Ed. hefir sýnt sig óhæfa til að leysa málið, og virðist það með öllu óhæfilegt að skilja nú við málið með öllu óafgr. Það er viðurkennt af öllum, bæði af andbanningum og bannmönnum, að fullerfitt hefir veitzt að halda uppi bannlögunum fram að þessu. Hvernig halda menn þá, að það verði eftir að úrskurður þjóðarinnar er fallinn á pa lund, sem orðið er? Þinginu ber að skilja þá nauðsyn, að þjóðin glati ekki virðingunni fyrir sínum eigin úrskurðum. Ef gengið er á snið við þann úrskurð, sem þjóðin hefir upp kveðið, þá hverfur sú virðing, sem þjóðin þarf að hafa fyrir því, er máli er skotið undir þjóðardóm. Það er sjálfsagt rétt að gera ekki of mikið að því að leggja mál undir þjóðaratkv., en sé það gert, er því þingi, sem byggist á lýðræðisfyrirkomulagi, skylt að beygja sig undir úrskurð þjóðarinnar.

Ein ástæðan enn hefir verið talin mæla með því, að málinu sé frestað til næsta þings eða lengur. Hún er sú, að þegar atkvgr. fór fram um bannið 1908, var bannið ekki sett á jafnskjótt. En hér stendur öðruvísi á, þar sem um afnám er að ræða. Þá stóð svo á, að ýmsir höfðu vínsölu að atvinnurekstri. Þeir áttu vörubirgðir, sem þurfti að koma í lög áður en fullkomið hann gæti orðið, og þá voru sett lög til að hefta persónufrelsi manna, en hér liggur fyrir að leysa þau höft. Er því sjálfsagt að hlíta þjóðaratkvgr. tafarlaust í þetta sinn, þótt svo væri ástatt 1908, að ekki væri hægt að lögleiða bannið tafarlaust. — ég vil að síðustu henda hv. þm. á það, að sé þjóðarviljinn virtur að vettugi í þetta sinn, má Alþ. sjálfu sér um kenna, ef í framtíðinni, e. t. v. í ennþá stærri og þýðingarmeiri málum, verður farið eins að og þjóðarviljinn ekki latinn njóta sín. Lýðræðið er víða um lönd mikið átalið um þessar mundir og standa flokkar, sem byggja á því, sumstaðar nokkuð völtum fótum. Vera Alþ. ættum því að gefa þjóðinni greinilega bendingu um það lýðræði, sem hér ríkir og á að ríkja, með því að beygja okkur tafarlaust undir vilja og úrskurð þjóðarinnar í þessu máli.