08.12.1933
Neðri deild: 30. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (1648)

55. mál, meðgjöf með fávitum

Pétur Ottesen:

Ég vissi ekki betur en að þessu máli væri fyrr í dag vísað til fjvn. Nú veit ég ekki til, að sú n. hafi haldið fund síðan, a. m. k. hefi ég ekki verið boðaður á hann, og hygg ég, að svo hafi ekki verið, enda enginn tími til þess. Nú er hv. form. n. hér eigi viðstaddur, en að hans till. mun því hafa verið vísað til fjvn. Mér þykir þessi aðferð undarleg, að vísa málinu fyrst til n. og taka það síðan á dagskrá og til umr. áður en n. hefir fengið tíma til að afgr. það og athuga. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég sé mótfallinn því, að þetta mál gangi fram, heldur af því, að mér þykir þetta undarlegur leikur, ef einhver alvara hefir verið í því, að málið væri athugað í n. Hinsvegar er varla hægt að ásaka n., þótt hún hafi ekki getað afgr. málið frá sér á þeim fáu klukkustundum, sem liðnar eru frá því málinu var vísað til hennar, enda nóg annað að starfa síðan. En fyrst nú er búið að ákveða fund í Sþ., þá má vera, að n. gefist enn tími til að athuga málið og segja álit sitt um það.

Ég vildi láta þetta koma fram, þar sem ég veit ekki til, að málið hafi verið athugað í n. En hinsvegar veit ég, að form. n., sem er enginn flysjungur eða veifiskati, hefir verið alvara, að það væri athugað. Mér þykja þetta því undarlegar aðfarir gagnvart n.