08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (1684)

69. mál, landhelgisgæsla

Jón Baldvinsson:

Það er orðið nokkuð langt síðan mál þetta var hér til umr., en þá flutti ég við það brtt. þess efnis, að í staðinn fyrir orðin „Austur- og norðausturströnd“ í tillgr. komi: „strendur“, því að ég veit, að það er víðar en við norðausturströndina, sem gæzlunni þykir ábótavant. Þannig var mér t. d. skýrt frá því, að sama daginn, sem þáltill. þessi var rædd hér um daginn, hafi 3 ljóslaus skip sezt að veiðum inni á Ísafjarðardjúpi, og að eitt þeirra hafi nærri því verið búið að granda bát, sem var þar á ferð. Sömu söguna er og að heyra víðar, frá Vestfjörðum og af Snæfellsnesi, alstaðar eru togararnir að veiðum. ljóslausir nær uppi við landsteina.

Þegar verið var að ræða mál þetta hér, stóð svo á um varðskipin, að Þór lá inni á Skerjafirði, Óðinn bundinn við bryggju hér í Reykjavík, en það þriðja að hjálpa strönduðum togara norður í landi. Var ekkert þeirra því við landhelgisgæzluna, svo engan þarf að undra, þó að togararnir notuðu tækifærið. Mér hefir nú þótt rétt að láta stj. vita, að menn væru ekki almennt ánægðir með gæzluna, og því hefi ég flutt brtt. mína, og vona, að hv. fim. þáltill. hafi ekki neitt við hana að athuga.