08.12.1933
Sameinað þing: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (1708)

80. mál, Eiðarskólinn

Pétur Ottesen:

Það kemur berar og berar í ljós, eftir því sem ríkið þarf að kosta meiru til alþýðuskólans á Eiðum, hve misjöfn er afstaða Austfirðingafjórðungs og annara fjórðunga að því er snertir alþýðumenntun. Árið 1917 skuldbatt ríkið sig til að halda þarna uppi alþýðuskóla og kosta hann að öllu. Hinsvegar er ákveðið í l. frá 1929 um slíka skóla, að ríkið leggi ekki fram nema helming stofnkostnaðar og leggi fram nokkurt fé til rekstrarkostnaðar, sem hvergi nærri er fullnægjandi. Í þessu er mikið ósamræmi, þótt segja megi, að ekki sé tímabært að tala um það nú, því að þetta hefði átt að koma fram 1929, þegar l. um héraðsskólana voru sett, eða þá að taka hefði átt það fram 1917, að þetta gæti leitt til þess, að aðrir landshlutar krefðust hins sama.

Þessi skóli var upphaflega stofnaður sem bændaskóli og rekinn líkt og skólarnir á Hólum og Hvanneyri til 1917. En sökum ósamkomulags milli Suður- og Norður-Múlasýslu, eða sjávar- og sveitahéraðanna í þessum sýslum, varð ekki af samkomulagi um að halda skólanum áfram á þessum grundvelli. Var þá farið þess á leit, að ríkið tæki við þessari eign ásamt skuldbindingu um að halda þarna uppi héraðsskóla. Bendi ég á þetta til þess að sýna, að ekki er að ástæðulausu, þótt fram komi raddir um, að þarna sé mikill aðstöðumunur, frá þeim, sem lagt hafa mikið á sig til að koma á fót samskonar skólum. Er ekki nema eðlilegt, að þeir menn, sem að skólanum standa, óski þess, að hann sé sem bezt úr garði gerður. Er þeim mun hægara um vik að halda fram ýtrustu kröfum í þessu efni, er við ríkið eitt er að eiga, en ekki þarf að leggja miklar byrðar á innanhéraðsmenn. Er það ekkert undarlegt, þótt menn þeir, er að skólanum standa, séu bráðlátari en ella myndi, ef þeir eiga ekki sjálfir að standa undir kostnaðinum. Það þekkjum við allir mjög vel.

Ég mun greiða atkv. með 2 fyrri liðum þessarar till., að gerð verði kostnaðaráætlun um rafmagnsstöð, sundlaug og leikfimihús. Mér skildist á hæstv. atvmrh., að fram hefði farið bráðabirgðaathugun og að ekki horfi svo vænlega við, að þarna sé hægt að fa nægilegt rafmagn til suðu, ljósa og hitunar fyrir skólann. Og ennfremur hafi það þegar komið í ljós við þessa bráðabirgðaætlun, að stöðin muni, þrátt fyrir svona óhagstæða aðstöðu, kosta 60–70 þús. kr., og gæti þá við nánari rannsókn komið í ljós, að hún myndi kosta 100 þús. kr., eða hver veit hvað, því að venjulega er fyrsta áætlun allt of lág. Um hina liðina liggur sjálfsagt ekkert fyrir, kostnaðinn við sundlaug og leikfimihús. En hvorttveggja mun kosta mikið fé, þó að þetta séu óhjákvæmilegir hlutir fyrir fjölmennan skóla. Er það víst, að rannsókn sú, sem hér á að gera, mun leiða í ljós, að ríkissjóður verður enn að leggja fram mikið fé til viðbótar því, sem þegar hefir verið varið til húsagerðar á Eiðum og annara umbóta þar. Nær það því engri átt að skora á stj. að taka þessa fjárhæð upp í fjárl. 1935, eins og gert er ráð fyrir í till. Myndi það stappa nærri því, að þetta aukaþing ætlaði að fara að segja fyrir um, hvernig fjárl. 1935 skyldu samin. Þótt ég geti greitt atkv. með 2 fyrri liðunum, er ég því andvígur síðasta lið. Við vitum ekki, hvaða möguleikar kunna að vera fyrir hendi 1935, hvað þá verður hægt að gera. En hitt er víst, að fyrir liggja mörg vandasöm verkefni, sem óhjákvæmilegt er að leysa. Nær því engri átt að fara nú að ákveða fjárhæðir til einstakra framkvæmda sem þessarar.

Ég gæti vænzt þess, að hv. flm. fellast á að taka aftur þennan lið og létu sér nægja að fá hinn tvískipta fyrri lið samþ., til þessa að þröngva ekki okkur, sem málinu erum hlynntir, til að fara að fella hann. en ríkisstj. sé látin hafa óbundnar hendur um það, hvað hún tekur upp í fjárlfrv. 1935.