09.12.1933
Neðri deild: 31. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í D-deild Alþingistíðinda. (1709)

87. mál, samvinnubyggðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og sést á nál., hefir landbn. orðið sammála um aðalniðurstöðurnar, og mælir með því, að till. verði samþ. með brtt. hennar á þskj. 371. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þau atriði, en vil láta þess getið, að tveir nm. skrifa undir nál. með fyrirvara. Innan n. voru einnig nokkuð skiptar skoðanir á nauðsyn þessa máls, mismunandi trú á erindi samvinnubyggða hér á landi. Ég er einn af þeim, sem er vantrúaður á það, að sameignarbúskapur eigi sér mikla framtíð fyrir höndum hér á landi. Það er gamalt, íslenzkt máltæki, sem segir: Fáir lofa einbýlið svo sem vert er. Og alstaðar að af landinu er til reynsla fyrir því, að tvíbýli og margbýli gefast ekki sem skyldi. Hinsvegar má segja það, að eigi íslenzkur landbúnaður nokkra framtíð fyrir höndum, verður að fjölga býlunum að miklum mun. En í því verður vafalaust að taka aðra stefnu en hingað til, og dreifa ekki byggðunum skipulagslaust út um allt. Sú nýrækt, sem hafin verður á næstu árum, verður að vera með föstu og ákveðnu skipulagi, þannig að byggðunum sé þrýst sem mest saman. Þá væri hægt að hafa samvinnu um t. d. byggingar, nýrækt o. fl. Ég hefi trú á því, að mál þetta eigi erindi til stj. í því formi, að henni sé falið að rannsaka, á hvern hátt byggðaskipulagi verður bezt fyrir komið. Og ég tel persónulega, að því skipulagi sé bezt borgið svo, að reksturinn sé í höndum einstaklinga. Ég legg áherzlu á það, að till. verði samþ., en þar sem málið er svo yfirgripsmikið, tel ég óvíst, að hægt verði að koma rannsókn í kring fyrir næsta þing. Nefndin hefir því hugsað sér að láta orða till. svo, að þetta yrði framkvæmt svo fljótt sem unnt er, að fenginni rannsókn.