30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

2. mál, kosningar til Alþingis

Pétur Magnússon:

Ég hefi þegar gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og þarf ekki að eyða tíma til þess að endurtaka það nú. En ég gat ekki látið því ómótmælt, sem hv. 2. landsk. sagði, og ég hefi reyndar áður heyrt, að samkomulag það, er varð milli flokkanna á síðasta þingi um afgreiðslu stjskr., brjóti í bág við það ákvæði í kosningal., sem nú er rætt um, — það, að landslisti skuli aðeins skipaður frambjóðendum. Ég sé ekki annað en hér sé um fjarstæðu eina að ræða. Það er vitanlegt, að allir flokkar voru sammála í fyrra um afgreiðslu stjskr. En a. m. k. samningamaður Sjálfstfl. hafði ekki heimild til þess að semja um nokkurt annað mál, enda var í sambandi við það samkomulag ekki minnzt á kosningal. Það liggur og í augum uppi, að þingið, sem sat á rökstólum veturinn 1933, gat engar skuldbindingar tekizt á hendur fyrir það þing, sem nú situr. Það var ekkert um það vitað þá, hvernig þing það, er kosningal. átti að setja, yrði skipað. Það er rétt, að m. a. var samið um það, að stjskr. skyldi ekki innihalda ákvæði, sem gerði flokkum ómögulegt að leggja fram landslista, sem fyrirfram væri raðað á. En það er ekki þýðingarlaust atriði, hvort stjskr. er látin útiloka þetta, eða það er bannað í kosningal. Kosningal. er hægt að breyta hvenær sem er, án óvenjulegra ráðstafana, ef meiri hl. Alþ. fellst á breyt. En sé ákvæðið sett í stjskr., þarf sem kunnugt er þingrof og nýjar kosningar til þess, að breyt. nái fram að ganga. Og mér finnst það fjarstæða ein, að samkomulagið frá síðasta þingi geti bundið hendur manna um samningu lagaákvæða, svo framarlega sem þau brjóta ekki í bág við stjskr. Hæstv. dómsmrh. hefir nú sýnt fram á, að ekki kemur til mála, að þetta atriði sé andstætt ákvæðum hinnar nýsamþ. stjórnarskrár, og er þá jafnframt augljóst, að ekki getur verið um nein samningsrof að ræða.