15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (1932)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Ólafur Thors:

þáltill., sem hér liggur fyrir, fer beinlínis fram á, að góðtemplarareglunni verði gefnar 150 þús. kr. úr ríkissjóði. Það má kannske með einhverjum rökum leiða einhverjar líkur að því, að reglan eigi meiri rétt til þessarar lóðar en talið er. En þetta mál var hér til athugunar í d. á síðasta þingi, og þá lá skjótlega fyrir fullkominn úrskurður um það, hver á lóðina, og er það mál endanlega útkljáð. Þess vegna er það sannmæli, sem ég varpaði fram, að með þessari till. er farið fram á, að ríkið gefi reglunni 150 þús. kr.

Ég geri nú ráð fyrir, að margir hv. hdm. hafi talsvert ríka tilhneigingu til þess, þegar sýnilegt er, að bannlögin verða afnumin, að sýna, að hugur hafi fylgt máli, þegar þeir hafa talað um nytsemi bindindisstarfseminnar í landinu. Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem eru bannmenn, og hinir, sem greiddu atkv. á móti banni, vilji fúslega sameinast um að efla bindindisstarfsemina í landinu. Það væri því vel til fallið, að Alþingi rétti reglunni þá mikilsverðu gjöf, sem hér er um að ræða, þar sem vitanlegt er, að það á að verða hennar hlutverk að vinna gegn áfengisnautninni í landinu. Ég skil þá miklu þörf, sem þjóðin hefir fyrir starfsemi reglunnar; en þó get ég ekki aðhyllzt þessa till.

Það viðurkenna allir, að hvert mál á að miklu leyti sitt gengi undir þeim flutningi og forstöðu, sem því er veitt. Góðum málum getur orðið tjón af lélegri forstöðu, að sínu leyti eins og slæm mál njóta góðs af því, ef góðir menn vinna fyrir þau. Á fyrstu starfsárum góðtemplarareglunnar hér á landi átti hún því verðskuldaða láni að fagna að hafa góða forstöðumenn. Á meðan hv. frsm. og hans líkar voru mestu ráðandi í heim félagsskap, þá átti reglan skilið hvers manns virðingu. Aftur á móti finnst mér, að nú sé allmjög skipt um forstöðu reglunnar til hins verra, og ekki laust við, að núv. starfsemi hennar varpi skugga á fortíðina. Því verður ekki neitað, að góðtemplarareglan hefir nú í sínum æðstu stöðum ósiðaða dóna, sem ekki hika við an saka að bera út visvítandi óhróður um andstæðinga sína. Bæði ég og aðrir, þ. á m. og sérstaklega hæstv. forsrh., hafa orðið fyrir barðinu á þessum dónum. í útvarpsumr., sem fóru fram um bannmálið, varpaði stórtemplar því fram, þegar ég hafði ekki lengur tækifæri til andsvara á þeim vettvangi, að ég hefði lýst því yfir á opinberum fundi, að ég hefði grátbænt áfengislaunsala að svala drykkjufýsn minni, eftir að löglegur vínveitingatími var útrunninn. Því hefir verið lýst af umferðapredikara reglunnar, Pétri Sigurðssyni, svo að þjóðfrægt er orðið, að nafngreindir þingmenn hafi legið fyrir hunda og manna fótum, ölóðir og vitlausir.

Ég verð nú að segja það, að meðan reglan misnotar það fé, sem hún fær úr ríkissjóði, á þann hátt að ala slíka dóna sem þessa menn, er ég nú hefi nefnt, sem ekki hika við að svívirða þing og stjórn með ósönnum óhróðri, þá er það hreint og beint vansæmandi fyrir regluna að ætlast til þess, að þingið veiti henni stórgjafir úr ríkissjóði. Hvenær sem hægt er að líta svo á, að reglan hafi sæmilega menn í sínum æðstu stöðum, og hverfi frá því að setja þar á oddinn slíka dóna sem nú eru, skal ég verða manna fyrstur til að veita málum hennar stuðning á Alþ.

Hinsvegar vil ég, að hv. þdm., líka þeir, sem ekki hafa orðið fyrir barðinu á þessum mönnum og svívirðingum þeirra, sýni þann drengskap og réttlæti að taka upp hanzkann fyrir okkur hina, og segi, að þrátt fyrir nauðsynina á að styrkja bindindisstarfsemina í landinu, þrátt fyrir verðleika reglunnar fyrr á tímum, þrátt fyrir það, þó þörf sé á aukinni bidindisstarfsemi í framtíðinni, þá vilji þeir ekki á þann hátt greiða fyrir húsbyggingu reglunnar með stórgjöfum úr ríkissjóði, meðan ekki er sýnt, að hún sé þess umkomin að velja sér betri forustumenn en raun hefir á orðið undanfarin ár, meðan forstöðumenn reglunnar eru ekki hæfir til að hafa bætandi áhrif á uppeldi unglinga í bindindismálum.

Einungis af þessari einu ástæðu er ég á móti þáltill. Meðan engin breyt. verður á stjórn reglunnar, meðan reglan sýnir ekki þann þroska að velja sér hæfari starfsmenn, þá skora ég á alla hv. þdm. að fella slíka till. sem þessa.