28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (1963)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Jakob Möller:

Því miður er skýring hæstv. forsrh. ekki eins ótvíræð og ég hefði á kosið. Úr skýringunni má sem sé fá það út, að styrkhæfni reglunnar fari að dómi hæstv. ráðh. eftir því, á hvern hátt hún vinnur verk sitt. Þetta má skilja á tvo vegu, og tekur því ekki af öll tvímæli, hvort hér sé um verzlun að ræða. Í starfsemi reglunnar eru tvö höfuðatriði: útbreiðslustarfsemi bindindis og löggjöf. Hæstv. ráðh. telur útbreiðslustarfsemina styrksverða og góða og gefur í skyn, að ef á þann hátt verði unnið, þá megi reglan vænta styrks síðar. En hið síðara telur hann ekki gott. Og það gefur tilefni til að ætla, að á bak við það geti falizt eitthvað, sem á skylt við verzlun.