06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (2004)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Það væri ekkert ótrúlegt eða óeðlilegt, að hv. 2. þm. Rang. óskaði eftir upplýsingum, og ég kannast við, að það væri ekki nema eðlilegt, ef hv. þm. væri kominn utan af landi og öllu ókunnugur hér í bæ. En svo er nú ekki um þennan hv. þm. Hann er búsettur hér. Ég held nú líka, að hann hafi spurt um ýmislegt, sem hann þó vissi, enda kom það fram í ræðu hans, að hann þóttist a. m. k. vera eins kunnugur hér og hv. 1. landsk., enda hefir hann eflaust fylgzt með í þessum málum. Við þm. utan af landi höfum ekki átt kost á að fá betri upplýsingar um þetta lóðarmál en þau gögn, er fyrir liggja í málsskjölunum. Og ég veit, að hv. 2. þm. Rang. er vel kunnugt um það, hvar lóðin er, hve stór hún er og hvar hún liggur. Hann veit líka, að verð á lóðum hér í miðbænum er hærra en annarsstaðar í bænum. Hús góðtemplara var nú búið að standa tug ára á þessari lóð og þeir hugðu, að sú kvöð, sem upphaflega var á hana lögð, væri niður fallin. En þegar að því kemur, að þeir ætla að fara að hefjast handa um byggingu á lóðinni, kemur það í ljós, að þingið vill ekki sleppa þessari kvöð. Forsetar fara svo í mál við góðtemplara, eftir ákvörðun Alþingis. Og Alþingi vinnur málið. Þetta varð til þess, að templarar hættu við að byggja, og var þeim það ærinn hnekkir. Mundi því margur mæla, að þinginu væri skylt að bæta templurum það tjón, er það vann þeim með þessu, og veita þeim nú ríflegan styrk til húsbyggingar. Það má vera, að templarar eigi ekki lagalegan rétt á lóðinni, en siðferðislegan rétt á henni eiga þeir tvímælalaust, því að fyrir afskipti sjálfs Alþingis eða forseta af þessu máli hefir bæði fjárhagur reglunnar og starf beðið stórkostlegan hnekki.

Þá sagði hv. þm., að engin nauðsyn ræki á eftir templurum að byggja nú. Þetta er í rauninni ekki svaravert, því að allir vita, að húsakostur reglunnar hér í bænum er alveg ófullnægjandi. Hv. þm. var að tala um, að þá fyrst ætti að byggja, þegar félögum fjölgaði í stúkunum hér í Reykjavík. Ég, og ég held hv. þm. sjálfur líka, hefi nú von um, að fjölgun verði þegar áfengislögin verða afnumin, eins og líklegt er að verði á næsta ári, ef ekki fyrr. Mér hefir heyrzt á hv. 2. þm. Rang. og hv. 3. þm. Reykv., að þegar búið er að afnema áfengislögin, skuli ekki standa á fylgi þeirra og annara andbanninga við styrk til bindindisstarfsemi. Hví ættu þeir þá ekki að geta fylgt þessu máli, ef þeim væri nokkur alvara?

Hv. þm. sagði, að sér væri ógeðfellt, að þessi félagsskapur gerði ekkert án þess að hlaupa eftir fé í ríkissjóðinn til þess. Þessi ummæli hv. þm. stafa annaðhvort af ókunnugleika eða öðru verra. Ég hugsa, að honum veiti erfitt að benda á þann félagsskap, þar sem einstaklingarnir leggja meira í sölurnar en einmitt í reglunni. Að vísu hefir ríkið lagt fram nokkurt fé til bindindisstarfseminnar, en einstaklingarnir þó margfalt meira, að ótöldu starfi þeirra. Þetta ber því vott um allt annað hugarfar en ég bjóst við.

Hv. þm. sagði eins og hv. 3. þm. Reykv., að ekkert lægi á að ákveða styrkinn. Ég gat ekki skilið þetta öðruvísi en svo, að tilætlun þeirra væri að kaupa okkur bindindisvini til fylgis við afnám áfengislaganna á þessu þingi á þennan hátt, og kaupa þá jafnvel nokkuð dýrt, ef með þyrfti. Brennivínsmenn eru nú hvort sem er vanir að kaupa nokkuð dýrt. Ég vil lýsa því yfir fyrir hönd okkar bindindisvina, að ég álít, að engin slík kaup eigi að gera. Ég hefi allt of bjargfasta trú á starfi reglunnar til þess, að ég áliti, að hún eigi að taka á móti nokkrum krónum úr ríkissjóði fyrir uppgjöf, sem við álítum ósæmilega.

Hv. þm. var að tala um, að við ættum að koma áfengislögunum í betra horf. Það hefir aldrei staðið á okkur að gera það. En hv. 2. þm. Rang. álítur, að eina ráðið til þess sé það, að veita brennivíninu inn í landið, án þess að setja nokkrar hömlur við ofdrykkjunni í staðinn. Svo blindir eru þessir menn í ást sinni á brennivíninu, jafnvel þótt þeir noti það ekki freklega sjálfir.

En ég tel rétt að taka ákvörðun um þetta mál án tillits til áfengislöggjafarinnar. Þessi styrkur, sem hér er um að ræða, á ekki að vera neinar sárabætur fyrir afnám bannlaganna. Hann á að vera bætur fyrir tjón reglunnar vegna óvissunnar um lóðina af völdum Alþingis. Hitt á að vera óútrætt mál á þessu þingi.

Ég hélt því fram í fyrri ræðu minni, er ég minntist á dagskrártill., að atkv. hefðu þegar gengið móti slíkri dagskrártill. í Nd. og væri því ekki rétt að bera upp, hvað þá að samþ. slíka till. hér. Hv. 2. þm. Rang. kvað menn hafa greitt atkv. gegn till. af allt öðru hugarfari í Nd. en hér gæti komið til greina. Ég get nú ekki rannsakað hjörtun og nýrun. En mér virðist ljóst af atkvgr. í Nd., að ekki sé þingvilji fyrir því að afhenda lóðina kvaðalaust, af hvaða ástæðu sem það er. Þessi þingvilji gæti auðvitað verið til á næsta þingi. Allt öðru máli hefði verið að gegna, hefði till. verið samþ. í Nd., svo að formleg afgreiðsla hefði getað orðið í báðum deildum og málið þar með verið úr sögunni. Ég vona því, að dagskrártill. verði felld, en vænti þess vegna yfirlýsingar andbanninga um hlýjan hug þeirra til bindindisstarfsemi, að þeir viðurkenni, að reglan hafi goldið mikið afhroð vegna aðgerða Alþingis í þessu máli og veiti þessar 75 þús. kr., hvort sem Alþingi lætur lóðina af hendi eða ekki. Ég álít miklu hreinlegra að fella málið alveg en samþ. dagskrána. Menn verða hvort sem er oft að sætta sig við það, að góður málstaður verði undir.