06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

2. mál, kosningar til Alþingis

Vilmundur Jónsson:

Ég hefi látið til leiðast að fylgja n. í því að leggja til, að brtt. á þskj. 320 verði samþ., þó að vísu sárnauðugur fyrir það, að lagt er til á þessu þskj., að breytt sé að allverulegu leyti ákvæðum frv. um landslistana og takmarkaður mjög réttur flokkanna til að hafa landslista í kjöri, sem nöfnum hefir verið raðað á fyrirfram, en ég tel, að á því eigi flokkarnir skilyrðislausan rétt samkv. stjskr. Að ég féllst á að vera með n. um að leggja til, að nokkur tilslökun verði á þessu gerð, var aðeins fyrir það, að ég bar ótta fyrir því, að þingið mundi að öðrum kosti e. t. v. með öllu fella þessa heimild niður. Ég hefi þó ekki neitt umboð til þess að skuldbinda flokksmenn mína hvað þetta snertir, og ég vil taka það fram, að ef það verður ofan á, að hv. Ed. setji þá gr., er hér um ræðir, óbreytta inn í frv. aftur og málið kemur síðan til Sþ., þá áskil ég mér að hafa um það óbundið atkv.

Hv. frsm. (TT) hélt því fram, að eins og ákvæði frv. eru nú hafi frambjóðandi, sem er óviðurkenndur af stjórnmálaflokki, engin áhrif á það, hvernig uppbótarsætin skipast. Þetta er byggt á nokkrum misskilningi. Það er sem sé hugsanlegt, að slíkur frambjóðandi geti skipazt sjálfur í uppbótarþingsæti án þess að flokksstjórnin óski þess. Það getur t. d. átt sér stað, ef enginn frambjóðandi er í kjöri fyrir flokk í kjördæmi annar en slíkur óvelkominn frambjóðandi. Þá getur sú boðflenna orðið uppbótarþm. flokksins. Einnig er þetta hugsanlegt, ef um er að ræða flokk, sem ekki hefir landslista í kjöri, en óviðurkenndur frambjóðandi hans nær hæstu atkv.tölu í kjördæmi sinna „lokksmanna“. Þá getur hann orðið, þó að óviðurkenndur sé, uppbótarþm. flokksins. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta hafi verulega þýðingu í framkvæmdinni. vegna þess, að hverjum stjórnmálaflokki er innan handar, ef slíkur frambjóðandi er á ferðinni, að láta annan frambjóðanda vera í kjöri af sinni hálfu. Og einnig er hverjum stjórnmálaflokki jafnan heimilt að hafa landslista í kjöri, ef hann telur sig það nokkru varða. Ég tel þetta því ekki verulega miklu skipta, þó að ég líti hinsvegar svo á, að betur hefði farið á, að ákvæðin um þetta hefðu fengið að haldast óbreytt eins og þau voru í stjfrv.

Þá vil ég minnast á það, sem ég legg höfuðáherzluna á, að hv. d. átti sig vel á, en það eru brtt. á þskj. 322 og 323. Hin fyrri er frá hv. sjálfstæðismönnum í stjskrn. Hin síðari er að vísu frá mér einum, en ég hygg, að ég megi segja, að hún hafi óskipt fylgi meiri hl. stjskrn.

Því er svo farið, að orðalag 127. gr., sem þessar brtt. eru við, er ekki allskostar heppilegt. Formúla gr. fyrir útreikningi uppbótarsætanna mun ekki vera fyllilega stærðfræðilega rétt eins og hún er orðuð í gr., og þau undantekningartilfelli hugsanleg, að ekki sé þá tryggt, að atkv.tala hinna ýmsu flokka verði sem jöfnust að úthlutuninni lokinni, þó að maður skyldi ekki ætla það við fljótlega athugun. Eftir orðalagi greinarinnar eins og það er getur það sem sé komið fyrir, þó að ekki sé til þess ætlazt, að flokkur, sem fær mjög fáa þm., verði til þess að loka fyrir, að uppbótarþingsætum megi úthluta til sem fyllstrar jöfnunar að hægt er. Einnig getur óbreytt regla í 127. gr. leitt til þess, að minnstu flokkunum sé gert nokkuð hærra undir höfði með uppbótarþingsæti en þeim ber, þannig að lítill flokkur þegar í byrjun nái uppbótarþingsæti og þar með svo lágri atkvæðatölu á bak við hvern sinn þingmann, að hinum flokkunum takist aldrei að nálgast það, og verði niðurstaðan fjær fyllstum jöfnuði en þó að hinn litli flokkur hefði ekkert uppbótarsæti hlotið.

Þetta hvorttveggja er auðgert að sýna með dæmum, þó að ég hirði ekki að gera það, með því að enginn ágreiningur er um, að gr. þurfi að breyta, enda hafa gallar hennar verið leiddir í ljós af góðum stærðfræðingi, sem n. hefir snúið sér til.

Þessa galla 127. gr. vil ég bæta með brtt. á þskj. 323, og ég held, að ég megi fullyrða, að ekki verði komizt nær en það til þess að ná því fyllsta réttlæti, sem unnt er og stjskr. áskilur hverjum stjórnmálaflokki, við úthlutun uppbótarþingsæta, þ. e., að hver þeirra fái þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við kosningarnar. Þessi aðferð mín er í rauninni mjög einföld. Í hvert skipti skal prófa, hve mörg atkv. eru á bak við hvern þm. flokks, sem til greina kemur, að einum þm. viðbættum. Þeim flokki, sem hæsta á töluna, skal úthluta hinu fyrsta uppbótarþingsæti, og síðan áfram á sama hátt, unz 11 uppbótarþingsætum hefir verið úthlutað eða fullum jöfnuði náð.

Hv. sjálfstæðismenn í stjskrn. flytja aðra brtt. á þskj. 322, og gæti svo farið, ef hún er ekki athuguð nógu vandlega, að mönnum þætti líklegt, að svipað kæmi út úr báðum, og aðhyllist því frekar þá till., af því að hún er nokkru styttri og virðist í fljótu bragði einfaldari og öllu skiljanlegri. En við nánari athugun reynist hún að vera mjög óréttlát, enda langt frá því að ná fyrirmælum stjskr. Þetta get ég sýnt með nokkrum dæmum.

Setjum svo, að 3 flokkar keppi við kosningar og úrslitin verði þau, að einn flokkurinn fái 20 þús. atkv. og komi að 20 þm. Annar flokkurinn 8 þús. atkv. og 4 þm., en þriðji flokkurinn 7000 atkv. og 14 þm. Lægsta meðaltala atkv. á hvern þm. er 500. Við þá tölu á að miða og úthlutun uppbótarsæta að fara eftir henni. Hún er hlutfallstala kosningarinnar. Nú er það ljóst, að sá flokkurinn, sem hafði 20 þús. atkv. og 20 þm., þ. e. 1000 atkv. á bak við hvern sinn þm., á síður að koma til greina við úthlutun uppbótarsætanna, en sá flokkurinn, sem hafði 8 þús. atkv., en aðeins 4 þm., þ. e. 2000 atkv. á hvern þm. að meðaltali. Enda er svo eftir minni till., að síðari flokkurinn situr að sjálfsögðu fyrir. En þetta er þveröfugt eftir till. sjálfstæðismanna. Þá kemur fyrr til greina sá flokkurinn, sem hafði helmingi færri atkv. bak við hvern þm., og ekkert það, sem samræmi getur heitið, fæst á milli flokkanna. Eftir reglunni á þskj. 322 — aðferð sjálfstæðismanna, „Möllers aðferð“ eins og ég hefi leyft mér að kalla hana í samtali við hv. þm. hér í d. í dag til aðgreiningar frá „minni aðferð“ — fær fyrsti flokkurinn 7 uppbótarþingsæti, eða 27 þm. alls, og er meðaltal atkv. þá 741. Annar flokkurinn fær 4 uppbótarsæti, 8 þm., alls, og meðaltalið er 1000. Þriðji flokkurinn fær, svo sem rétt er, ekkert uppbótarsæti, 14 þm. alls; meðaltal 500. Eftir „minni aðferð“ hinsvegar fær fyrri flokkurinn, sem til greina kemur, 5 uppbótarsæti, 25 þm. alls, en sá síðari 6, eða 10 þm. alls. Þá verða meðaltölurnar 800, 800, og 500. Nú vona ég, að hv. þdm. sjái, að það er fyllra samræmi milli flokkanna, að meðaltölur þeirra séu hnífjafnar, heldur en að þær séu 741 hjá öðrum flokknum, en 1000 hjá hinum.

Ef uppbótarsætin væru nógu mörg, þá væri nokkurnveginn sama, hvorri reglunni er beitt, en því er nú ekki að fagna, þar sem þau eru, sem kunnugt er, mjög takmörkuð.

Regla sjálfstæðismanna, „Möllersaðferð“, er sýnilega langt frá því að svara tilgangi og kemst í engan samjöfnuð við „mína aðferð“. Eftir „minni aðferð“ nálgast meðaltölur flokkanna á hvern þm. hægt og sigandi, og helzt á hverju stigi úthlutunarinnar hinn fyllsti jöfnuður á milli þeirra, sem þá er hægt að ná, sem er afar þýðingarmikið, með því að úthlutunina getur orðið að stöðva hvenær sem er, vegna þess að þá sé náð leyfðri hámarkstölu þm. Með „Möllers aðferð“ nálgast að vísu meðaltölurnar, en með rykkjum og stökkum, og getur skeikað alveg gríðarlega frá fyllsta mögulega samræmi og orðið úr fullkomin fjarstæða. Það kemur bezt í ljós í öðru dæmi, sem ég hefi valið:

Tveir þingflokkar keppa um uppbótarsæti og hafa fengið jöfn atkv. við kosningar, en annar komið að helmingi fleiri þm. en hinn. Þrátt fyrir þetta geta þeir eftir „Möllers aðferð“ átt rétt til jafnmargra uppbótarsæta. Ég skal hafa yfir allar tölurnar í útreikningi mínum, til þess að sýna, að ég fari ekki með blekkingar. Dæmið lítur þannig út:

A. 18000 atkv 10 þm.

B. 18000 — 20 —

C. 2900 — 1 —

D. 1400 — 7 —

Hlutfallstalan er lægsta meðaltalan, þ. e. 200. Fyrstu flokkarnir tveir, A. og B., fá eftir „Möllers aðferð“ sömu tölu uppbótarsæta, þó að annar hafi komið að helmingi fleiri þm. en hinn á sama atkvæðafjölda: A. og B. fá 5 uppbótarsæti hvor, en C. 1. „Eftir „minni aðferð“ aftur á móti fær A. 9 uppbótarsæti, B. ekkert og C. 2. Síðan get ég lofað hv. d. að heyra meðalatkv.tölur flokkanna á hvern þm., að úthlutun uppbótarsæta lokinni, miðað við þetta sama dæmi og eftir báðum aðferðunum. Eftir „Möllers aðferð“ eru þær 1200, 720, 1450 og 200. Eftir „minni aðferð“ eru þær 947, 900, 967 og 200. Eftir að jafnað hefir verið á milli tveggja flokka, sem hlotið hafa jafnmörg atkv., verður þm.tala þeirra eftir „Möllers aðferð“ 15 og 25, en eftir minni aðferð 19 og 20. Sjá hv. þm. nú ekki, hvor reglan nálgast betur ákvæði stjskr. um sem fyllstan jöfnuð þingsæta á milli þingfl. í samræmi við atkv.tölur þeirra, að það er „mín aðferð“, en ekki „Möllers aðferð“? Þetta er líka auðvelt að skýra án margra talna. Ef einum flokki hefir tekizt að koma að mjög mörgum þm. á lágri atkv.tölu, þá getur hlutfallstalan orðið afarlág, og eru fyrir því engin takmörk. Hlutfallstalan getur þannig nálgast 0 og jafnvel bókstaflega orðið 0. Til þess þarf ekki annað en að einn maður bjóði sig fram í kjördæmi og enginn á móti honum, enda sé enginn frá sama flokki í kjöri annarsstaðar. Þá gera kosningalögin ráð fyrir, að kosning fari fram, ef um alm. þingkosningar er að ræða, en að frambjóðandinn sé sjálfkjörinn án tillits til þess, hvort hann hefir fengið nokkurt atkv. eða ekki. neitt. Hann kemst að, hefir fengið 0 atkv., flokkur hans 0 atkv. og hlutfallstala kosningarinnar er 0. En þegar svo er, skiptast uppbótarsætin eftir „Möllers aðferð“ á milli flokkanna gersaml. án tillits til þess, hvað marga þm. þeir hafa fengið kosna í kjördæmum. Hvaða þm.tala sem er, margfölduð með 0, verður 0 og kemur ekkert til frádráttar hinum upphafl. atkv.tölum.

Við skulum hugsa okkur, að atkv. falli t. d. þannig:

A. 18000 atkv 1 þm.

B. 18000 — 36 —

C. 0 — 1 —

Eftir reglunni á þskj. 322, þ. e. „Möllers aðferð“, hafa A. og B. jafnan rétt til uppbótarsæta, með því að þeir hafa jafnmörg atkvæði og án tillits til þess, að annar hefir 1 þm., en hinn 36, og sjá allir, hversu fráleitt slíkt er. Eftir „minni aðferð“ fær A. vitaskuld öll uppbótarþingsætin, eins og sjálfsagt er. (JakM: Þetta er alveg prýðilegt dæmi!! Já, víst er það prýðilegt, því að það er stækkuð mynd af þeirri stærðfræðilegu meinloku, sem „Möllers aðferðin“ er. Mundi ekki vera hægt að leiða af aðferðinni slíkar fjarstæður með réttum útreikningi, ef hún hefði ekki villurnar í sér fólgnar.

Eitt dæmi get ég nefnt enn, sem sýnir, að flokkur getur náð uppbótarsæti eftir „Möllers aðferð“, þar sem hann á engan rétt til þess:

A. 8000 atkv 4 þm.

B. 18000 — 18 —

C. 7500 — 15 —

D. 200 — 1 —

Eftir „Möllers aðferð“ falla uppbótarþingsæti þannig:

A. 3, B. 6 og C 2. Meðaltal atkv. á þingm. 1143, 750, 441 og 200. Eftir „minni aðferð“ verða niðurstöðurnar þessar: A. 6, B. 5 og C. 0 og meðaltal atkv. á þingm. 800, 783, 500 og 200. Hér nær 15 manna þingfl. með 7500 atkv. 2 uppbótarsætum og lækkar meðalatkv.tölu sína úr 500 niður í 441, en 4 manna þingfl. nær aðeins 3 uppbótarþingsætum og verður að nema staðar við meðalatkv.töluna 1143.

Ef „Möllers aðferð“ yrði lögleidd, mundi það t. d. borga sig fyrir Framsóknarfl. að bjóða fram mann undir öðru flokksnafni til þess að lækka hlutfallstölu kosningarinnar og ná þannig uppbótarþingsætum án þess að eiga nokkurn rétt á því, og þvert ofan í fyrirmæli stjskr. Eftir „minni aðferð“ fær A. í þessu tilfelli 6, B. 5, en C. ekkert, eins og vera ber.

Ef flokkar hljóta mismunandi marga þm. samtals eftir því, hver aðferð er viðhöfð við úthlutun uppbótarþingsæta, er nauðsynlegt, til þess að geta dæmt á milli aðferðanna, að sannprófa, hvor þingmannatalan er í fyllra samræmi, þ. e. í réttara hlutfalli við atkv.tölu flokkanna á öllu landinu, en það samræmi á einmitt að vera sem fyllst samkv. ákvæðum stjskr. Ég hefi numið aðferð til slíkrar sannprófunar um sem réttast hlutfall milli talna og borið saman „mína aðferð“ og „Möllers aðferð“ með henni. Hefi ég notið til þess leiðbeiningar stærðfræðingsins, sem ég nefndi, herra Þorkels Þorkelssonar veðurstofustjóra. Ég fer þannig að við sannprófunina, að finna fyrst meðaltal atkvæða á hvern þm. hvers flokks eftir hvorri aðferðinni við úthlutun uppbótarsætanna um sig. Í dæminu, sem ég tók áðan um 3 flokka, A. með 20 þús. atkv. og 20 kjördæmiskosna þm., B. með 8 þús. atkv. og 4 þm. og C. með 7 þús. atkv. og 14 þm., verða meðaltölurnar eftir „Möllers aðferð“, er þm. urðu samtals 27, 8 og 14: 741, 1000 og 500, en eftir „minni aðferð“, er þm. verða samtals 25, 10 og 14: 800, 800 og 500. Er nú raunar auðséð í þessu tilfelli, hvorar tölurnar eru í fyllra samræmi innbyrðis á þann hátt, sem að er keppt. En það sannprófast reikningslega á þessa leið: Fundið er meðaltal þessara þriggja meðaltalna hvorrar aðferðar, sem verður 747 eftir „Möllers aðferð“, en 700 eftir „minni aðferð“. Því næst er fundinn mismunurinn annarsvegar á tölunni 747 og tölunum 741, 1000 og 500, hverri um sig sem verður 6, 253 og 247, og hinsvegar og á sama hátt á 700 og 800, 800 og 500, sem verður 100, 100 og 200. Mismunirnir úr hvorum töluflokknum um sig eru hafnir upp í 2. veldi, þ. e. margfaldaðir með sjálfum sér, og útkomurnar, þ. e. kvaðrötin, lögð saman og borin saman. Því lægri, sem þær síðustu útkomur verða, því fyllra er samræmið, svo að viðhöfð séu orð stjórnarskrárinnar, og er þetta hin svokallaða „reikningsregla hinna minnstu kvaðrata“. Eftir „Möllers aðferð“ verður niðurstaðan 62 + 2532 + 2472 = 125054, en eftir „minni aðferð“ 1002 + 1002 + 2002 = 60000, eða meira en helmingi lægri. Og sú verður jafnan niðurstaðan, þegar aðferðir okkar eru bornar saman á þennan hátt, að „mín aðferð“ svarar jafnan betur tilganginum sem fyllsta jöfnun milli flokkanna. Meira og minna getur borið á milli, eftir því sem á stendur. Stundum getur „Möllers aðferð“ leitt til hreinna fjarstæðna, eins og ég hefi sýnt fram á. Það gerir „mín aðferð“ aldrei. Munurinn milli aðferðanna er mestur, þegar mest skortir á, að uppbótarþingsætin nægi til fullrar jöfnunar milli flokkanna, en verður minni og minni, því minna sem vantar á, að uppbótarsætin hrökkvi. „Möllers aðferð“ nær aldrei „minni aðferð“ um nákvæmni fyrr en uppbótarsætin eru nægilega mörg til fyllstu jöfnunar, þá fyrst, og í því eina tilfelli, er enginn munur aðferðanna og sama hvor þeirra er viðhöfð.

Mér þykir rétt að geta þess, af því að ég hefi nefnt hér nafn herra Þorkels Þorkelssonar, að hann hliðrar sér hjá að dæma um það sem stærðfræðingur, hvað við sé átt með orðum stjórnarskrárinnar, að hverjum þingflokki beri að hafa „þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína“, sem hann telur ekki vera stærðfræðilegt orðalag. Ef staðið hefði „í sem réttustu hlutfalli“ og með því hlutfalli verið átt við atkvæðatölu flokks, deilda með þingmannatölu hans, telur hann, að um ekkert hefði verið að villast. Nú fullyrði ég, og vitna undir hvern einasta þm. í hv. deild, að engum hefir nokkurn tíma dottið annað í hug en að einmitt þetta væri meining stjskr., og að samkv. fyrirmælum hennar beri að keppa

að því með úthlutun uppbótarþingsætanna, að sem jafnastar atkvæðatölur verði á bak við hvern þm. hvers flokks, og ef svo er, hefi ég orð stærðfræðingsins fyrir því — og endurtek ég það, að ég átti alls ekki upptök að því, að leitað var til hans um leiðbeiningar í þessu máli, heldur hv. sjálfstæðismenn í stjskr.nefnd — að stærðfræðilega megi sanna, að „mín aðferð“ taki „Möllers aðferð“ fram um að ná þessu marki, sem stjskr. þá setur. Enda hefir hann ekki getað fundið aðra aðferð fullkomnari. Hefir hann líka leyft mér að bera sig fyrir því, að sá skilningur, sem ég legg í orðalag stjskr., finnist sér eðlilegur, svo og „mín aðferð“ í betra samræmi við venjulegar aðferðir við hlutfallskosningar en „Möllers aðferð“. Virðist mér hér ekki þurfa framar vitnanna við.

Ég vil taka undir það með hv. frsm., að mikið liggur við, að kosningalögin verði afgr. í anda stjskr., og ég vil í því sambandi rifja upp fyrir hæstv. forseta orðalag stjskrfrv. um það atriði, sem hér er um að ræða. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „allt að 11 þm. til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína“, o. s. frv. Nú vil ég spyrja hæstv. forseta, hvor tillagan, mín eða hv. sjálfstæðismanna, honum virðist í betra samræmi við þessi ákvæði og bið ég hann jafnframt að athuga gaumgæfilega, ef hin fráleita till. á þskj. 322 verður ekki góðfúslega tekin aftur, sem ætlast mætti til, hvort hann sjái sér fært að bera slíka till. undir atkv.