07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Ég hefi að þessu ekki tekið þátt í umr. um þau deilumál, sem hér liggja fyrir, en vil þó ekki láta hjá líða að segja nokkur orð. Ég lít svo á, að mismunur á aðferðum till. á þskj. 322 og 323 komi ekki til greina svo lengi sem 11 uppbótarsæti nægja til jöfnunar á milli flokka. Mismunurinn kemur þá fyrst til greina, þegar 11 þingsæti nægja ekki. En ég held, að það sé orðum aukið, sem haldið hefir verið fram, að oltið gæti á fleiri þingsætum. Ég hygg, að aldrei geti verið vafi um nema eitt þingsæti. Eftir till. á þskj. 322 eru meiri líkur til þess, að það þingsæti falli til stærri flokksins, en eftir till. á þskj. 323 fellur þetta baráttuþingsæti á þann minni.

Hér er vafasamt, hvort á að reikna uppbótarsæti eftir afgangsatkvæðum eða taka öll atkvæðin og reikna út eftir þeim. En mér finnst réttara að taka afgangsatkvæðin og reikna eftir þeim, því að það eru þau, sem gefa rétt til uppbótarsæta fyrir einstaka þingflokka. Ég er ekkert hikandi að fylgja till. á þskj. 322, og ég tel slíkt fjarstæðu eina að ætla, að hún sé brot á stjskr. Það hefir líka mikla þýðingu fyrir okkar pólitíska líf, að einn þingflokkur geti náð meiri hl. í þinginu og beri ábyrgð á stjórninni. Og það er sem stendur aðeins einn flokkur, Sjálfstfl., sem getur náð meiri hl. við næstu kosningar. Mér virðist því eðlilegt, að þetta baráttuþingsæti falli til stærsta flokksins fremur en til hins minnsta, því að það mundi aðeins veikja afstöðu þess flokks, sem að sjálfsögðu ætti að bera ábyrgðina á stjórn landsins. Það má ef til vill segja, að við sjálfstæðismenn lítum með þessu aðeins á flokkshagsmuni okkar, en ég lít hér aðeins á þjóðarhagsmunina, þó að svo vilji til sem stendur, að það er Sjálfstfl., sem er stærsti flokkurinn.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að hans flokkur hefði engra hagsmuna að gæta í þessu efni. Ég tel það vafamál; það er a. m. k. kunnugt, að Framsfl. og Alþfl. hafa haft bandalag sín á milli um kosningu embættismanna þingsins, og einnig hefir því verið lýst yfir í blaðagrein, að þessir tveir flokkar væru að hugsa um að mynda stjórn, svo að hagsmunir hans flokks fara að verða nokkuð tengdir hagsmunum Alþfl.

Hv. þm. N.-Ísf. komst svo að orði, að hér væri verið að seilast eftir eina lambi fátæka mannsins. Þetta var næsta óheppilega orðað hjá hv. þm. Mér virðist, að hann þurfi ekki að bera sig svo fátæklega, þar sem hans flokkur hefir nú æðsta mann þingsins og vonir fyrir þennan hv. þm. að komast í stjórn landsins, ef hann heldur jafnvel á hinum pólitísku spilum sem að undanförnu. Þegar svo er komið, þá verður kosið aðeins um það tvennt, hvort menn vilji þjóðnýtingu og ríkisrekstur eða frjálsa samkeppni. Ég vona nú, að þeir verði alltaf fleiri, sem kjósa hina frjálsu samkeppni.

En þegar talað er hér um ranglæti og að oltið geti á fleiri þingsætum, þá sé ég ekki, að hér sé um að ræða nema eitt sæti, og ég álít, að þá sé eðlilegra, að það renni til stærsta flokksins, og mun því greiða atkv. með till. á þskj. 322.