27.11.1933
Neðri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

3. mál, þingsköp Alþingis

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hafði ætlað mér, nú um leið og breytingar voru gerðar á lögum um þingsköp, að koma fram með till. um sparnað við þinghaldið, m. a. hversu draga megi úr kostnaði við prentun Alþt. En þar sem þær breyt., sem hér um ræðir, eru aðeins nauðsynlegar bráðabirgðabreyt. á lögum þessum og væntanlega verða þingsköpin rækilega endurskoðuð á næsta þingi, þá hvarf ég frá að fara út í þau atriði nú í þetta skipti. En það, sem kom mér aðallega til þess að kveðja mér hljóðs í þessu máli, var það, að ég vil ítreka þá uppástungu hv. allshn. Ed., að þingflokkarnir skipi hver sinn mann, og vinni þeir að því ásamt skrifstofustjóra Alþingis að undirbúa frv. til þingskapa, sem yrði lagt fyrir næsta þing. Þingflokkarnir geta komið sér saman um þetta nú á þessu þingi og valið síðan mennina í sumar að kosningum afstöðnum. Hygg ég þá aðferð heppilega, því að mjög mundi það mál vefjast fyrir næsta þingi, ef ekkert frv. lægi fyrir eða enginn undirbúningur hafinn um málið áður þing kæmi saman.

Vildi ég beina því til flokksstjórnanna, að þær sjái um framkvæmd þessarar till.