23.11.1933
Efri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

7. mál, tolllög

Frsm. (Jón Þorláksson):

Þetta frv. var lagt fyrir Alþ. af stj., og er það til staðfestingar bráðabirgðal., er stj. gaf út 30. okt., en þau voru gefin út vegna nýfallins dóms, er gengið hafði í þá átt, að kakaódeig væri ekki tollskylt eftir tolllögum í þeim flokki, súkkulaðiflokki, er það hafði verið sett í við framkvæmd tolll. En stj. hafði þó gengið það lengra en dómurinn gaf tilefni til, að undir 50 aura tollflokkinn eru tekin bæði kakaódeig og kakaóbaunir, bæði muldar og ómuldar. Nú stóð svo á, að verið var að stofnsetja innlendan iðnrekstur, sem ætlaði að nota kakaóbaunir, hráar og óunnar, við starfrækslu sína. Fyrirtækinu þykir því ekki rétt, að slík óunnin vara sé sett hvað toll snertir við hlið unninnar vöru úr sama efni, sem komin er skemmra eða lengra áleiðis að þeirri framleiðslu, sem til er stefnt. Var álitsskjali um þetta efni útbýtt meðal þm. Hygg ég, að allir þm. hafi fengið það og kynnt sér, og n. hefir einnig tekið það til athugunar. Það, sem um er að ræða, er það, að hér er á uppsiglingu innlend súkkulaðigerð, sem telur sig verða fyrir þeirri tekjurýrnun á framleiðslu sinni, er fyrirtækið þoli ekki, sé ekki úr þessu bætt. Að vísu er ekki greiddur nema 1/3 tolls af innlendri framleiðslu, miðað við aðflutningstollinn af samskonar vöru á hverjum tíma. En þrátt fyrir það mundi 50 aura tollur á efnivörunni valda fyrirtækinu tilfinnanlegrar tekjurýrnunar. Hinsvegar má búast við, að fyrir ríkissjóð yrði einnig um tilfinnanlega tekjurýrnun að ræða, ef hráefni væri flutt tollfrítt inn, eins og verða mundi samkv. umgetnum dómi, ef frv. nær ekki fram að ganga. Var því hér um allflókið viðfangsefni að ræða, að ná samkomulagi um leið, er tryggði ríkissjóði hæfilegar tekjur af þessum vörum, hvort sem þær væru fluttar inn unnar eða óunnar, en veitti jafnframt innlendri framleiðslu þessarar tegundar sambærilegan stuðning við það, sem venja er. Það varð nú ofan á í n. og fékkst að mestu leyti samkomulag um það við framleiðendur þessarar vöru, að ráða svo fram úr þessu, að súkkulaðitollurinn væri hækkaður úr 75 aurum í 1 krónu hvert kg. Þótti þá réttast að láta deigið fylgja með í þeirri tollhækkun. En kakaóbaunir, óbrenndar og ómuldar, lækkuðu úr 50 aur. niður í 35 aura. Þetta er það, sem felst í brtt. n. En það, sem ekki fékkst fullt samkomulag um, var það, hvort hækka skyldi tollinn á iðnsúkkulaði um 25 aura, svo sem gert var við suðusúkkulaði. N. hafði í sjálfu sér enga tilhneigingu til að hækka tollinn á iðnsúkkulaði, en í framkvæmdinni verður ekki hægt að greina á milli þess og suðusúkkulaðis; takmörkin eru svo óljós. Væri um tollmismun að ræða, mætti flytja allt suðusúkkulaði inn sem iðnsúkkulaði. En þetta svonefnda iðnsúkkulaði mun aðallega notað af brauðgerðarhúsum til að gera gljáa á kökur o. þ. h. Frá tollteknisku sjónarmiði væri því rétt að gera mun á þessu tvennu, þar sem suðusúkkulaði er fullkomin vara, en hitt notað til iðnaðar, þó vinnsla á hvorutveggju megi heita jafnlangt komin. En þótt n. hafi löngun til að greina þetta tvennt í sundur, þá verður það ekki hægt í framkvæmdinni. Ef ekki væri hækkaður tollur á nefndum tegundum, myndi lækkunin á óunnum baunum úr 50 aur. niður í 35 aura ekki veita þessari framleiðslu nægilega vernd. Baunir óbrenndar léttast við brennsluna um 1/3. Er þá tollurinn kominn upp í 52 aura á þeim brenndum. Við það bætist svo 25 aura framleiðslugjald á fullgert súkkulaði, þó án gengisviðauka. Er þá tollurinn kominn upp í 77 aura á kg. Er því skiljanlegt, að innlend framleiðsla standist ekki, ef tollur á aðfluttu súkkulaði er 75 aurar. En hinsvegar getur hún staðizt, ef tollurinn er hækkaður upp í 1 kr., og þess vegna er stungið upp á því að svo skuli gert.