08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Afgreiðsla þingmála

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég vil svara f. h. fjvn. viðvíkjandi því máli, sem hv. 4. landsk. spurði um. Því var vísað til fjvn., og þá strax á eftir var það tekið fyrir í n. Samþ. hún að vísa málinu til búnaðarmálastjóra eða Búnaðarfélags Íslands til þess að fá umsögn þeirra um málið. Svo kona bréf frá búnaðarmálastjóra, Sigurði Sigurðssyni, sem var á þá leið, að í staðinn fyrir, að í fyrri lið till. er farið fram á 2500 kr. framlag til þess að fullgera kort og áætlanir um vatnasvæði Þverár og Markarfljóts yrðu veittar í fjárl. næsta árs 2000 kr. til þessara framkvæmda. Og sökum þess, að eftir er að gera ýmsar áætlanir um mannvirki á þessu svæði og hve vandasamt og þýðingarmikið þetta mál er, stakk hann upp á, að hentugra væri að fá þetta fé til þess, að hægt væri að byrja á framkvæmdum, heldur en sem lokastyrk.

En um b-lið þáltill. sagði búnaðarmálastjóri, að sér væri ókunnugt um, hvernig hægast væri að varna landbroti í Fljótshlíðinni, en sagði, að vegamálastjóra mundi vera kunnugast um það. Strax þegar við höfðum meðtekið þetta álit búnaðarmálastjóra, skrifaði n. vegamálastjóra, og svar hefir ekki komið frá honum í hendur n.