16.11.1933
Efri deild: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

33. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Jón Þorláksson:

Það var fjhn. Ed. á síðasta þingi, sem var þess valdandi, að Söfnunarsjóður var undanþeginn ákvæðum laganna um hámark innlánsvaxta. Ég tel því réttast, að ég rifji upp ástæðurnar fyrir þessari undanþágu nú í sambandi við þessar umr.

Það er nú svo, að langstærsta fúlgan í umsetningu Söfnunarsjóðs er ellistyrktarsjóðirnir, sem allmjög hafa vaxið hin síðari ár. Ellistyrktarsjóðirnir eru stofnun, sem hefir þýðingarmikið og félagslegt verkefni. Það er verið að reyna að koma því svo fyrir, að ellihrumu fólki verði í framtíðinni séð fyrir framfærslu með starfsemi þessara sjóða, án þess að það þurfi að leita sveitarstyrks. Það er auðskilið, að það hefir mikið að segja, að fé þessara sjóða ávaxtist sem bezt. Nú er það svo með starfrækslu Söfnunarsjóðs, að hún er mjög ódýr. Hefir látið nærri hin síðari ár, að vextir varasjóðs Söfnunarsjóðs hafi nægt fyrir kostnaðinum. Þess vegna hafa inn- og útlánsvextir í sjóðnum verið nálega hinir sömu hin síðari ár, þannig að útlánsvextirnir hafa verið 6%, en innlánsvextirnir 6% til 5,9%. Ég held, að fjhn. Ed. á síðasta þingi hafi því ekki fundizt rétt að skerða innlánsvextina, sem ellistyrktarsjóðirnir og aðrir svipaðir sjóðir njóta, nema sýnt væri, að sérstök sanngirnisástæða væri fyrir því að veita vaxtaívilnun þeim mönnum, sem hafa fengið lán hjá Söfnunarsjóði. Nú er það svo, að mestur hluti þeirra lána, er Söfnunarsjóður veitir, hefir verið látinn gegn fyrsta veðrétti í fasteignum. Lánin hafa verið veitt affallalaust og mikið af þeim afborgunarlaus, eða þá að þau eiga að greiðast á löngum tíma; vextir af þeim eru 6%. Þetta eru nú enn sem komið er hagstæðari kjör heldur en þau, sem veðdeild Landsbankans býður. Þegar tekið er tillit til affalla hjá veðdeildinni, þá svara vextirnir þar til ca. 7%. Við, sem sátum í fjhn. á síðasta þingi, töldum ekki sanngjarnt og gátum því ekki fallizt á, að tekið væri þannig af gamalmennasjóðunum til þess að gefa fasteignaeigendum, sem fengið hafa lán hjá Söfnunarsjóði og njóta þar betri kjara en tíðkast hjá öðrum veðlánastofnunum, eins og t. d. veðdeild Landsbankans.

Það er nú svo, að Söfnunarsjóður er í raun og veru ekki venjuleg lánsstofnun, heldur er hann safn af mörgum smærri sjóðum undir einni stjórn. Þess vegna er það ekki sjáanlegt, hvers vegna endilega á að þvínga niður á við vexti af þessum sjóðum, á sama tíma og leyfilegt er að ávaxta aðra hliðstæða sjóði með hærri vöxtum, sjóði, sem ávaxtaðir eru samkv. staðfestum skipulagsskrám og eru undir stjórn hins opinbera.

Fjhn. á síðasta þingi hafði þessa ástæðu til þess að vilja ekki fallast á að láta ákvæðin um innlánsvexti vera bindandi fyrir Söfnunarsjóð.