14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jón Pálmason:

Það munu vafalaust margir hv. þm. líta svo á, að það sé nokkuð djarft af þessu þingi að fara fram á nýja lántöku upp á 1 millj. kr., vegna þess að svo mikið er fyrir af skuldum, að ekki sé á það bætandi. En þó að ég sé þeirrar skoðunar að það beri að forðast skuldir eftir því sem frekast er kostur, þá er mér ljóst, að þannig er komið atvinnuháttum hér í landi, að það má ekki skirrast við að hjálpa atvinnuvegum landsins, bæði þeim, sem í mestum vanda eru staddir, og eins þeim atvinnugreinum, sem borga sig bezt, til þess að atvinnulífið sé þannig, að allir þroskaðir og heilbrigðir menn geti haft skilyrði til þess að vinna. En í þessu sambandi vil ég taka það fram, að mér þykir það athugaverð stefna að fylgja því, að hrúga skuli öllum framkvæmdum á ákveðna staði, þar sem dýrtíðin er mest og aðrir annmarkar, eins og á sér stað um Siglufjörð. Þegar um það er að ræða að stofna nýtt fyrirtæki, þá tel ég það mál, sem miklu skiptir, að það byggist á því, að það séu sameinaðir hagsmunir þeirra manna, sem sjávarútveginn stunda, og þeirra, sem lifa á landbúnaði. Þetta atriði er sérstaklega athugandi í því sambandi, sem hér um ræðir, þegar um það skal velja, hvort þessi bræðslustöð, sem reisa á á næsta ári, verði reist á Siglufirði eða við Húnaflóa. Nú er það svo eins og sjálfsagt mörgum hv. þm. er kunnugt um, að það er mikill áhugi fyrir því að gera hafnarbætur á Skagaströnd við Húnaflóa. Þar eru, eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, beztu síldarmið. Af þeim sökum er það svo, að það eru miklir annmarkar á því, að síldin notist eins vel með því að flytja hana lengra frá. Ég verð að játa, að ég sem bóndi hefi ekki mikla þekkingu á síldarútgerðarmálum nema gegnum aðra menn. En ég hefi fengið upplýsingar um það, að síðastl. sumar hafi gengið svo til, að miklir erfiðleikar voru á því að koma síldinni, sem veiddist á Húnaflóa, óskemmdri til Siglufjarðar. Ég hefi líka fengið upplýsingar um það, að síðastl. sumar stöðvaðist veiðin um miðjan ágúst vegna illviðra. En eftir það kom síldarganga á Húnaflóa, en menn höfðu engin not af því, vegna þess að enginn staður var til þess að nota þá göngu. Á því að reisa þessa síldarbræðslustöð við Húnaflóa eru þeir annmarkar, að þar eru ekki þau skilyrði, sem nauðsynleg eru til þess að vera undirstaða undir starfsemi, sem hér um ræðir. Það mundi því sennilega kosta það, ef tekin yrði sú ákvörðun að reisa síldarbræðslustöðina á þeim stað, að það drægist lengur en ella mundi. En það er nú svo, eins og hv. þm. G.-K. tók fram, að miklar líkur eru til þess, ef atvinnulífið stefnir líkt og það hefir gert að undanförnu, að svo fari þrátt fyrir það, þó reist verði stöð á næsta sumri á Siglufirði, að reisa verði aðra við Húnaflóa.

Mér finnst þetta því mjög athugandi mál og vænti, að sjútvn. taki það rækilega til greina að rannsaka, hvort það muni ekki heppilegra að draga þetta mál um eitt ár og ganga út frá því, að þessi stöð verði reist við Húnaflóa, en ekki á Siglufirði.

Það er einnig athugandi í þessu sambandi, að það eru margar aðrar ástæður, sem valda því, að þarna á að gera umbætur, m. a. þær, að það eru jafnvel hvergi betri skilyrði til þess, að saman fari hagsmunir þeirra, sem landbúnað og sjávarútveg stunda.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en ég vildi aðeins geta um það, að ég hefi mikinn áhuga fyrir, að þessi starfræksla geti komizt þarna á, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið hjá síldarútgerðarmönnum, eru miklar líkur til þess, að hún verði mjög arðsöm, ef þau skilyrði, sem nú vantar til starfrækslunnar, gætu komizt á.