18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jakob Möller:

Ég vænti, að mér verði ekki brigzlað um það, að nein hreppapólitík ráði afstöðu minni í þessu máli, þó að ég segi um það nokkur orð. (BSt: Mætti ekki stinga upp á því að hafa síldarverksmiðjuna í Reykjavík?). En þegar svo er komið, að þeir hv. þdm., sem telja sig kjörna fulltrúa bændastéttarinnar, virðast vilja bera fyrir borð hagsmuni landbúnaðarins í þessu máli og haga framkvæmdum í því eingöngu eftir vilja útgerðarmanna og sjómanna, þá vil ég segja það, að mér finnst ekki vanþörf, að aðrir verði til þess að minna á hagsmuni landbúnaðarins. Og ef um tvo staði er að velja fyrir verksmiðjuna, sem útgerðarmenn má gilda einu um hvor tekinn verði, og annar staðurinn hefir það fram yfir, að upp frá honum liggja frjósöm landbúnaðarhéruð, þá finnst mér ekki áhorfsmál, að hann verði hiklaust fyrir valinu. Þess vegna furðar mig sérstaklega á því, að hv. þm. Str. skuli athugunarlaust vilja láta reisa verksmiðjuna á Út-Ströndum, þar sem vitað er, að landbúnaður er sáralítill og engar líkur til, að hann geti haft verulegt gagn af verksmiðjunni þar. Hv. þm. Str. sagði að vísu, að upp af sumum fjörðunum væru allfrjósamar sveitir. En það er í sjálfu sér kannske aukaatriði, að skapa þeim mönnum, sem vinna í landi við bræðslustöðina, aðstöðu til þess að fá land til ræktunar. Þó að þeirri þörf væri hægt að fullnægja á Ströndum, sem vafasamt verður að telja, þá er annað atriði, sem er miklu þýðingarmeira og snertir hag landbúnaðarins miklu meira. Eða dettur hv. þm. Str. það í hug, að sá lítilfjörlegi landbúnaður, sem þrifizt getur þar við fjarðabotnana, geti fullnægt þörfum þess fjölda, sem á skipunum er? Það kemur vitanlega ekki til nokkurra mála. Ef til þess kemur, að verksmiðjan verði reist annarsstaðar en á Siglufirði, þá á hún að vera þar, sem hún kemur landbúnaðinum að mestum notum, jafnframt því, sem hentugast er fyrir útgerðina. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að Skagaströnd er langbezti staðurinn með tilliti til hvorstveggja. Það liggur nú fyrir, að þar verði gerðar hafnarbætur, og skilst mér, að það sé almennt viðurkennd nauðsyn, að því verði hraðað sem mest. Og ef ástæður leyfa, þá er ekkert spursmál um, að heppilegast verður að sameina þessar framkvæmdir. Ég vil ennfremur benda á, að það eru ekki eingöngu sveitirnar upp frá Húnaflóa, sem geta notið góðs af verksmiðju á Skagaströnd, heldur líka landbúnaðarsveitir við Skagafjörð, einkum að vestan, þó það komi þeim ekki að eins miklu gagni og ef hún hefði verið sett á Sauðárkrók eða Hofsós. En þá yrði verksmiðjan hinsvegar of nálægt Siglufirði. Og í þessu sambandi vil ég benda á, að það er nú unnið af miklu kappi að því, að gerður verði akvegur úr Fljótum til Siglufjarðar — yfir Siglufjarðarskarð, og má gera ráð fyrir, að sú vegagerð, þó að hún sé mjög miklum örðugleikum bundin, komist í framkvæmd. En ef hún kemst í framkvæmd, þá er það eingöngu vegna landbúnaðarins í Skagafirðinum, sem þarf að koma afurðum sínum á Siglufjarðarmarkaðinn. Með hliðsjón af þessu er sú nauðsyn enn augljósari, að hin nýja síldarbræðslustöð verði reist austanvert við Húnaflóa, einmitt vegna hinna ágætu landbúnaðarsveita, sem liggja þar að.

Ég vil taka undir það með hv. þm. A.-Húnv., að ég tel það afarhæpið, að orðalag brtt. á þskj. 63 geti átt við Strandir, vestanvert við Húnaflóa. Það hefir aldrei verið talið, að Strandir tilheyrðu Norðurlandi, heldur Vesturlandi. Að vísu var þess getið í framsögu fyrir brtt., að Strandir ættu einnig að koma til athugunar við val á stað fyrir síldarverksmiðjuna, en ég tel það mjög hæpið samkv. orðalagi till., að leggja þann skilning í hana, þar sem sagt er, að verksmiðjan skuli reist á Norðurlandi.