04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Frsm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, hafa á síðustu árum komið háværar raddir frá sjómönnum og útgerðarmönnum um bætt skilyrði til aukinnar bræðslu síldar. Og þótt síðasta þing gerði nokkra úrlausn í þeim efnum, þar sem það veitti heimild til að kaupa verksmiðju dr. Pauls á Siglufirði, þá hefir samt sem áður verið álit manna, að með því væri þörfinni þó alls ekki fullnægt. Þess vegna var það, að sjútvn. Nd. flutti frv. það, sem hér liggur fyrir. Sjútvn. þessarar d. hefir einnig verið það mjög vel ljóst, að full þörf var á þessu, því að eftir þeim upplýsingum, sem hún hefir fengið frá þeim, sem þetta þekkja, þá var það ljóst, að á síðasta ári hefðu þeir bátar og skip, sem á síldveiðum voru síðasta ár, getað veitt 25% meira af síld til bræðslu heldur en gert var.

Þá hafa komið fram raddir um það, bæði við 1. umr. málsins hér í d. og í hv. Nd., að staðbinda verksmiðjuna við einhvern ákveðinn stað. En sjútvn. þessarar d. álitur rétt, eins og er í frv. frá Nd., að hafa staðinn óákveðinn og láta útgerðarmenn og sjómenn hafa hlutdeild í að velja hann.

Á síðasta þingi var samþ. heimild handa ríkisstj. til að ábyrgjast allt að 350 þús. kr. lán fyrir Seyðisfjarðarkaupstað til byggingar síldarbræðslustöðvar þar. Nú hafa komið fram tilmæli frá þeim, sem að þeirri verksmiðjubyggingu standa, um að eitthvað verði bætt þeirra aðstaða í sambandi við þetta mál, því þeir líta svo á, að ef samþ. verði þetta frv. óbreytt, auk þeirrar ábyrgðarheimildar, sem búið er að samþ. vegna síldarverksmiðjubyggingar í Neskaupstað, þá muni þeim verða mjög örðugt að fá lán til sinnar síldarbræðslustöðvar, jafnvel þó þeir hafi ríkisábyrgð fyrir því. N. er einnig þeirrar skoðunar, að fengnum upplýsingum frá þessum mönnum og ýmsum öðrum, að Seyðisfjarðarkaupstað mundi verða erfitt um útvegun alls þess lánsfjár, sem hann þarf til byggingar síldarbræðslustöðvar, undir þessum kringumstæðum, og því vill hún gera þeim úrlausn á þann hátt, sem brtt. n. fara fram á.

Ég vil taka það fram, að með þessum brtt. er frv. ekki stefnt í neinn voða, því málið hefir verið athugað af sjútvn. Nd., og þar eru fjórir af nm. sammála um að fallast á frv. með þessari brtt., ef það kemur þannig til Nd.

Fleira hygg ég, að ég þurfi ekki að láta fylgja þessum till. n. á þskj. 187. Um brtt. þá, sem hv. þm. N.-Þ. hefir borið hér fram, mun ég geyma að tala þar til hann hefir gert grein fyrir henni.