06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

74. mál, augnlækningaferð

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta, sem flutt var í hv. Nd. af allshn., fer fram á það, að landinu verði skipt í þrjú umferðasvæði fyrir augnlækna, eins og segir í 1. gr. frv. Eitt svæðið er Suðvestur- og Vesturland, frá Skeiðarársandi að Horni, annað svæðið frá Horni að Langanesi, og hið þriðja frá Langanesi að Skeiðarársandi. Þetta mun gert til þess að auðveldara verði en nú er, að augnlæknar þeir, sem njóta styrks úr ríkissjóði, geti ferðazt um landið. Eins og nú er, er landinu skipt í tvö svæði, en nú hefir augnlæknir flutt búferlum til Austurlands, og verður þá eðlilegt, að honum verði fengið umferðasvæði á Austurlandi. Ætlazt er til þess í frv., að styrkur sá, sem veittur er í fjárlögum fyrir næsta ár, 12. gr. 5. lið a, b, c, skiptist jafnt milli þessara þriggja lækna, og mun þetta frv. vera flutt eftir ósk landlæknis. Allshn. þessarar deildar leggur því til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.