30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég er alveg hissa á því, að hv. 1. þm. S.-M. talar hér um einkarétt, þó að Slippnum sé heimilað að hafa á hendi viðgerðir skipa. Þetta er einkafyrirtæki, sem er hið mesta þjóðþrifafyrirtæki og sparar landinu stórfé árlega. Forstjóri ríkisskipaútgerðarinnar hefir sagt mér, að þetta fyrirtæki sparaði ríkissjóði mörg þúsund krónur á ári, og hefir lagt til, að því yrði hjálpað um lán til rekstrar út á viðgerðir á ríkisskipunum. Hver heilvita maður ætti líka að sjá, að það er stórkostlegur sparnaður í því fólginn, að þurfa ekki að senda hvert einasta skip til útlanda til viðgerðar. En ef þessu fyrirtæki er neitað um ríkisábyrgð eða sett einhver skilyrði, sem gera ábyrgðina einskis virði, þá þýðir það ekkert annað en að Slippurinn verður ekki starfræktur, eða a. m. k. starfræktur án þessarar viðbótartryggingar ríkissjóðs.

Hv. 1. þm. S.-M. hefði átt að vera hér á þingi í fyrra, þegar samþ. var miklu hærri ábyrgðarheimild en nú er farið fram á. Þá var þetta álitið svo mikið þjóðþrifamál, að ekki væri rétt að bregða fæti fyrir það á einn eða annan hátt.

Ég vil að lokum beina því til hv. d., að hún samþ. till. breytingalaust. Með því móti vinnur hún landinu áreiðanlega mest gagn.